Morgunblaðið um THE PIPER: Fjandsamlegur flautuleikur

"Skemmtilegt bíóáhorf með nokkrum hryllilegum atriðum fyrir hlé og nokkrum kjánalegum en fyndnum atriðum eftir hlé," skrifar Jóna Gréta Hilmarsdóttir meðal annars í Morgunblaðið um The Piper eftir Erling Óttar Thoroddsen.

Jóna Gréta skrifar:

Erlingur Óttar Thoroddsen skrifaði handritið að og leikstýrði nýrri bandarískri kvikmynd, Rottufangaranum, eða á ensku The Piper, þar sem hann sækir innblástur í gamla þýska þjóðsögu. Erlingur hefur undanfarið verið frekar áberandi í kvikmyndasenunni hérlendis með hryllingsmyndinni Kulda sem sýnd var sl. haust og gekk mjög vel.

Leikstjórinn heldur áfram í hryllingsmyndagreininni í nýjustu mynd sinni Rottufangaranum en myndin er byggð á einni þekktustu þjóðsögu Þýskalands, Rottufangaranum í Hamel (þ. Rattenfänger von Hameln). Þjóðsagan á rætur sínar að rekja til miðalda og segir frá flautuleikara sem rak rotturnar úr borginni Hamel á meðan rottuplága stóð yfir en fékk síðan ekki greitt fyrir eins og honum hafði verið lofað og rændi því öllum börnunum í borginni.

Tónlist spilar stórt hlutverk í kvikmyndum Erlings og þar er Rottufangarinn engin undantekning. Kvikmyndin fylgir metnaðarfullu tónskáldi, Mel (Charlotte Hope), sem er falið það verkefni að klára einleikskonsert fyrrverandi leiðbeinanda síns sem fallinn er frá. Mel kemst hins vegar fljótt að því að tónlistinni fylgir bölvun og með því að klára konsertinn endurvekur hún þá illsku sem leiðbeinandi hennar reyndi að eyða.

Konsertinn er galdraþula rottufangarans og gerir honum kleift að ræna börnum sem heyra konsertinn. Myndin gerist því í hljómsveitarumhverfi rétt eins og nýja grínmyndin Fullt hús í leikstjórn Sigurjóns Kjartanssonar en það er greinilegt að tónlistarumhverfi í bíómyndum er í tísku.

Undirrituð fór á Rottufangarann með þær væntingar að um væri að ræða B-hryllingsmynd, það er að segja ódýra mynd sem er ekki neitt listaverk heldur þar sem frekar er lögð áhersla á að skemmta í staðinn fyrir að ná einhverjum gæðastimpli. Rottufangarinn kom hins vegar skemmtilega á óvart, þá sérstaklega fyrri helmingurinn. Þótt það hafi verið nokkur atriði sem maður flissaði yfir, af því leikurinn var ýktur og kjánalegur, þá er fyrri hluti myndarinnar mjög hryllilegur og oft átti undirrituð erfitt með að sitja kyrr í sæti sínu.

Charlotte Hope, sem leikur aðalhlutverkið Mel, er fín leikkona og barnaleikararnir tveir, Oliver Savell og Aoibhe O’Flanagan, standa sig vel. Julian Sands, sem leikur hljómsveitarstjórann Gustafson, beitir rödd sinni eins og hann sé að passa að áhorfendur á aftasta bekk heyri alveg örugglega í honum en maður á auðvelt með að trúa því að þessi karakter tali og hegði sér svona. Rottufangarinn er því miður með seinustu myndum sem Julian Sands lék í en hann lést í fjallgönguslysi í nágrenni Los Angeles í janúar á síðasta ári.

Seinni helmingur myndarinnar er mun verri af því að þá reiðir Erlingur sig of mikið á tæknibrellur og þær eru einfaldlega svo ódýrar og gamaldags að það er hlægilegt. Atriðin þar sem frekar er ýjað að hryllingnum í staðinn fyrir að sýna hann eru mun sterkari af því að þau eru ekki gervileg. Erlingur ákvað til dæmis að láta augun í persónunum loga til að sýna að þær væru helteknar af rottufangaranum en það lítur frekar út fyrir að Snapchat-filter sé farinn að ásækja þær. Án efa er flottasta hryllilega atriðið í myndinni þegar einn kennarinn, í tónlistarskólanum þar sem myndin gerist, er að berjast við eigin hönd sem ætlar að stinga hann í gagnaugað með penna sem hann heldur á. Atriðið er einfaldlega mjög raunverulegt sem gerir gæfumuninn.

Þrátt fyrir fyrrnefnda vankanta er óhætt að segja að Rottufangarinn sé skemmtilegt bíóáhorf með nokkrum hryllilegum atriðum fyrir hlé og nokkrum kjánalegum en fyndnum atriðum eftir hlé. Það er líka þess virði að hrósa sérstaklega fyrir lýsinguna en hún er mjög tilraunakennd. Erlingur og ljósateymið stilla oft upp litunum bláum og rauðum sem andstæðum sem kemur mjög vel út, eins og t.d. í atriðinu þegar Mel brýst inn í hús leiðbeinanda síns og er að leita að nótnablöðunum. Rauð lýsing fyllir þá herbergið sem á ekki að vera raunverulegt heldur gefa áhorfendum til kynna að eitthvað illt feli sig í herberginu.

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR