spot_img

Morgunblaðið um FULLT HÚS: Einn stór farsi

Skemmtileg og fyndin en á þó líklega ekki eftir að eldast jafnvel og aðrar klassískar íslenskar grínmyndir, segir Jóna Gréta Hilmarsdóttir meðal annars í Morgunblaðinu um Fullt hús eftir Sigurjón Kjartansson.

Jóna Gréta skrifar:

Það er algjör óþarfi að fara á Fullt hús í bíó ef þið eruð búin að horfa á stikluna af því að hún segir bókstaflega alla söguna. Undirrituð var því miður búin að sjá stikluna og vissi því hvað myndi gerast í myndinni. Það er ekki bara léleg markaðssetning að stiklan spilli fyrir allri myndinni heldur líka leiðinlegt fyrir áhorfendur. Undirrituð var að vonast til að það yrði einhvers konar snögg beygja í sögunni en það varð því miður ekki, lítið kom á óvart. Þar með er ekki sagt að myndin hafi verið fyrirsjáanleg og leiðinleg, hún var vissulega fyrirsjáanleg en alls ekki leiðinleg, enda eftir engan annan en Sigurjón Kjartansson sem við mörg hver þekkjum sem grínleikara en hann er líka mjög hæfileikaríkur handritshöfundur.

Fullt hús er í raun bara einn stór farsi sem fylgir meðlimum lítillar kammerhljómsveitar sem er að missa styrkinn sem hún hefur fengið frá Reykjavíkurborg. Hljómsveitarstjórinn Sigríður (Helga Braga Jónsdóttir) grípur til örþrifaráða og sannfærir frægan sellóleikara, Klemens (Hilmir Snær Guðnason), um að snúa heim til Íslands. Áhorfendur sem og hljómsveitarmeðlimirnir komast fljótt að því að ástæðan fyrir því að hann lætur af því verða er líklega ekki að hann langaði að koma heim heldur að hann er búinn að brenna allar brýr að baki sér úti. Klemens er kynferðisbrotamaður og kemst upp með það út af frægð sinni. Honum er ekki stillt upp sem skrímsli sem er gott að sjá, af því að skrímslavæðing getur virkað frekar letjandi fyrir þolendur og þeir verða síður líklegir til að segja frá af því að þá fylgir svo mikil ábyrgð. Skrímslavæddur kynferðisbrotamaður getur í augum margra ekki búið yfir jákvæðum eiginleikum og þar af leiðandi getur verið erfitt að trúa því að einhver sem maður lítur á sem sem góðan geti verið kynferðisbrotamaður. Klemens er því ekki einungis illmenni enda eru ekki allar dömurnar mótfallnar því að hann snerti sig.

Það er hins vegar áhugavert og um leið varasamt að kynferðisbrotamaður sé miðpunkturinn í gríninu. Sumum atriðunum, eins og þegar Klemens áreitir Steinunni (Ilmur Kristjánsdóttir) kynferðislega, er stillt upp eins og grínatriðum en eru það í raun ekki. Undirrituð og ungmennin sem sátu við hliðina á henni áttu t.d. erfitt með að horfa á atriðið en margir í salnum hlógu. En það eru oft atriði þar sem maður veit ekki hvort maður á að hlæja eða líða óþægilega sem líta má á sem bæði kost og galla myndarinnar. Það eru hins vegar mörg hefðbundin grínatriði sem eru bráðfyndin. Eins og öll atriðin þar sem Jón Gnarr og Eggert Þorleifsson leika snobbaða gagnrýnendur í sjónvarpsþætti sem fær heitið Listalíf. Atriðin með Hilmi Snæ þar sem Sigurjón Kjartansson leikstjóri gengur alla leið inn í klisjuna eru dásamleg, eins og til dæmis hallærislegu tónlistarmyndböndin með Klemens. Myndin nær svo algjöru hámarki eftir hlé, í atriðinu þar sem kammersveitin spilar á tónleikum með dauðan sellóleikara, Klemens.

Myndin lítur hins vegar út fyrir að vera sjónvarpsmynd að því leyti að það sést vel að hún hefur verið gerð fyrir lítinn pening og kvikmyndatakan eftir Bergstein Björgólfsson er ekki eins og best verður á kosið þó að hann sé nú vanalega kallaður Besti. Leikurinn er fremur ýktur en það gengur í grínmynd eins og þessari. Að því sögðu er Fullt hús þess virði að sjá ef þú ert ekki búinn að horfa á stikluna. Um er að ræða skemmtilega og fyndna mynd með hlaðborði af góðum, íslenskum leikurum sem á þó líklega ekki eftir að eldast jafn vel og aðrar klassískar, íslenskar grínmyndir, eins og Stella í orlofi (1986) eftir Þórhildi Þorleifsdóttur.

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR