Fréttablaðið um HÁLFAN ÁLF: Álfagaldur

„Vekur trega og gleði á víxl í einföldu en um leið margræðu listaverki sem er eitthvað annað og miklu meira en heimildarmynd í nokkrum hefðbundnum skilningi,“ segir Þórarinn Þórarinsson í Fréttablaðinu um Hálfan álf eftir Jón Bjarka Magnússon.

Þórarinn skrifar:

Þótt Hálfur álfur, eftir Jón Bjarka Magnússon, sé flokkuð sem heimildarmynd, tollir sá merkimiði ekkert sérstaklega vel við hana þar sem hún er líka eitthvað allt annað og meira.

Hálfur álfur hverfist um ömmu og afa leikstjórans og þá fyrst og fremst afann, sem undir lok langrar ævi vill taka upp nafnið Álfur og meðtaka þannig og fagna sínum innri álfi, á meðan hann undirbýr 100 ára afmælið sitt eða jarðarförina. Allt eftir því hvort kemur á undan.

Jón Bjarki hefur lýst tilurð myndarinnar þannig að þegar hann fór að huga að lokaverkefni sínu í meistaranámi í sjónrænni mannfræði í Berlín hafi hugmyndin um að fylgja ömmu hans og afa eftir með tökuvélina leitað sterkt á hann.

Hann lét slag standa enda tíminn naumur þar sem afi hans, Trausti Breiðfjörð Magnússon, var 99 ára gamall og amma, Hulda Jónsdóttir, var 96 ára, þegar hann hófst handa.

Sannar kvikmyndastjörnur
Trausti var vitavörður og þau Hulda bjuggu á Sauðanesvita við Siglufjörð í hartnær fjóra áratugi. Hálfur álfur er hins vegar rétt rúmlega klukkustundarlöng, en þau heiðurshjón eru svo yndislegur félagsskapur að þau hefðu hæglega getað staðið undir lengri mynd.

Slík er útgeislunin og fegurðin í sambandi þessa roskna andstæðupars; úthverfa náttúrubarnsins, hálfa álfsins, og bókelskrar, jarðbundinnar og innhverfrar kvæðakonunnar.

Þarna birtast tvær manneskjur sem fulltrúar kynslóðar og gildismats sem er á hverfanda hveli. Þau eru eiginlega heil þjóð, eða þjóðir öllu heldur, þar sem þau gætu allt eins verið að syngja og kveðast á í Galway á Írlandi eins og Reykjavík á Íslandi.

Jón Bjarki Magnússon fetar með Hálfum álfi fimlega vandrataða brautina milli þess að vera barnabarn viðfangsefnanna og leikstjóri heimildarmyndarinnar. Fréttablaðið/Ernir
Jón Bjarki tók vissulega djarfa ákvörðun með því að velja jafn persónulegt viðfangsefni og ömmu og afa í sinni fyrstu mynd. Hins vegar er auðvelt að skilja þessa ákvörðun þar sem amma og afi eru kvikmyndastjörnur í sjálfu sér og taka hlutverk sín fallega alvarlega.

Vitinn í myrkrinu
Frásögn Jóns Bjarka sveiflast með viðfangsefnunum og er dásamlega einlæg og blátt áfram, þannig að ekki er annað hægt en að hrífast með frá upphafi til enda. Lífsgleði, bjartsýni og æðruleysi Trausta skín eins og viti í gegnum myndina og myrkur ævikvöldsins, þannig að áhorfandinn sveiflast létt milli trega og gleði.

Barnabarnið og kvikmyndagerðarmaðurinn finnur hárfínt jafnvægi í frásögninni þannig að ljúfsár afraksturinn stendur fullkomlega fyrir sínu. Þar munar líka um kvikmyndatónlist meðframleiðandans, Hlínar Ólafsdóttur, sem fellur ákaflega vel að stemningunni í myndinni og hjá gömlu hjónunum.

Niðurstaða: Óðurinn sem gömlu hjónin Trausti og Hulda syngja og kveða lífinu í Hálfur álfur er svo einstakur að hann kemur við innsta kjarna hins sammannlega.

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR