Gagga Jónsdóttir: Var stödd á tímamótum og ákvað að taka stökkið

Gagga Jónsdóttir ræðir við Sigurlaugu M. Jónasdóttur í þættinum Segðu mér á Rás 1 um bíómyndarfrumraun sína Saumaklúbbinn, sem frumsýnd er í vikunni.

Segir á vef RÚV:

„Það var alveg svolítið taugaáfall,“ segir Gagga Jónsdóttir kvikmyndagerðakona sem var orðin áttavillt í lífinu þegar hún tók ákvörðun um að segja já við öllum tækifærum sem henni byðust. Sú ákvörðun varð til þess að handritshöfundurinn settist í leikstjórastólinn og nú í vikunni sendi hún frá sér kvikmynd um íslenskan saumaklúbb.

Gagga Jónsdóttir kvikmyndagerðakona er nánast aldrei kölluð skírnarnafni sínu, sem er Rannveig, og áttar sig jafnan seint þegar hún er ávörpuð sem slík. „Það þarf að kalla svona tvisvar þrisvar, þá lít ég við og bregður eins og einhver sé að skamma mig,“ segir hún glettin. Göggu-nafnið festist við hana þegar hún var barn, og bróðir hennar sem er tveimur árum yngri fór að kalla hana það. „Rannveig er erfitt nafn að bera. Það er stórt og mikið. Ég ætlaði að geyma það til bridds-áranna en ég er ekki búin að læra bridds enn þá,“ segir hún. Kvikmynd Göggu, Saumaklúbbur, var frumsýnd á fimmtudag. Gagga leikstýrir myndinni og skrifar handritið ásamt Snjólaugu Lúðvíksdóttur. Hún kíkti í Segðu mér á Rás 1 og sagði frá saumaklúbbunum sem hún hefur aldrei stofnað og bransanum sem hún hefur lifað og hrærst í frá barnsaldri.

Rúmliggjandi alla ævi en spilaði bridds
Gagga er skírð Rannveig í höfuðið á föðurömmu sinni sem er alnafna hennar. Langmæðgurnar þekktust vel en sú eldri lést árið 2018. Rannveig amma Göggu lamaðist þegar faðir hennar var aðeins sautján ára, á sjöunda áratugnum, sem hafði mikil áhrif á lífsgæði hennar. „Hún var eiginlega rúmliggjandi alla ævina,“ segir Gagga um ömmu sína sem tók upp á ýmsu þrátt fyrir afar takmarkaða hreyfigetu. „Hún spilaði bridds og ræktaði ættgarðinn en því miður gat hún ekki gert allt sem hún vildi.“ Aðspurð hvaða slys hafi orðið til þess að hún lamaðist segir Gagga: „Það er einhver harmur þarna á ferð.“

Kvikmyndagerð er fjölskyldusport
Starfinu í kvikmyndabransanum kynntist Gagga fyrst sem barn. Hún lék í auglýsingum frá sex ára aldri og hreppti hlutverk í kvikmyndinni um Pappírspésa níu ára. Móðursystir hennar Guðný Halldórsdóttir er einn fremsti kvikmyndaleikstjóri Íslands og stjúpfaðir hennar var þýskur kvikmyndagerðarmaður. „Þetta er svona fjölskyldusport.“

Nítján ára lék Gagga í Ungfrúnni góðu og húsinu, í leikstjórn Guðnýjar Halldórsdóttur, kvikmynd sem byggð er á bók Halldórs Laxness afa Göggu. Á kvikmyndasettinu fannst henni hún vera komin heim. „Mér fannst alltaf ótrúlega gaman að koma á sett þegar ég var lítil. Algjör ævintýraheimur, sígaunafílingur, fólk úti um allt og allir hressir og skemmtilegir.“

Þjónustustúlkan var komin með gat í tunguna
Ungfrúin góða á sér stað í hjarta Göggu sem finnst enn gaman að horfa á hana. Myndin var tekin upp í Flatey og í Svíþjóð og tökuliðið var fjölmennt. „Það voru allir rosalega ungir og ferskir. Ég eignaðist nokkra af mínum bestu vinum,“ segir Gagga sem fór með hlutverk þjónustustúlku í myndinni.

Í miðju tökuferlinu í Svíþjóð ákvað Gagga að fá sér gat í tunguna eins og var móðins þegar myndin var gerð árið 1999. Aðstandendur myndarinnar voru ekki hoppandi hressir með þá skyndiákvörðun. „Þetta var períódumynd sem átti að gerast um aldamótin, og þjónustustúlkan var komin með pinna í tunguna,“ rifjar hún upp og hlær. „En þetta var rosalega skemmtilegt. Svo mikið af listamönnum og -konum og mjög gaman. Það var gaman að horfa á hana, horfa til bara og hugsa um hvað tíminn var skrýtinn og fljótur að líða. Hvað maður var lítill kjúklingur.“

„Það var alveg svolítið taugaáfall“
Gagga fékk hugmyndina að Saumaklúbbnum þegar hún var stödd í Berlín og var að fá sér kaffi með Ragnari Hanssyni vini sínum þegar hún nefndi hugmyndina. Hann lagði til að hún hefði samband við Snjólaugu Lúðvíksdóttur, og þannig hófst samstarf þeirra. „Við hittumst í nokkur skipti og það var ótrúlega gaman. Snjólaug er svo til í þetta,“ segir Gagga. „Maður tekur séns, veit ekki hvort þetta gengur upp, en hún tók áhættuna með mér.“

Handritið skrifuðu þær í mars í miðjum heimsfaraldri en tökur hófust í júní. „Þetta gerðist ótrúlega hratt, eiginlega miklu hraðar en ég átti von á,“ viðurkennir Gagga um ferlið. Þær sóttu um framleiðslustyrk hjá KMÍ, fengu úthlutun og þá var ekki aftur snúið. Hún var að skrifa Ófærð með Sigurjóni Kjartans á sama tíma svo það gekk á ýmsu. „Það var alveg svolítið taugaáfall,“ segir hún glettin. Og þrátt fyrir að efasemdir létu á sér kræla um að henni tækist að gera allt í einu þá hafðist þetta allt saman.

Væru ekkert endilega vinkonur í dag
Sjálf er Gagga ekki í saumaklúbbi en móðir hennar er í einum slíkum sem hefur hist reglulega síðan þær voru allar nemendur í Menntaskólanum við Hamrahlíð. „Þær eru flestar sjötugar á árinu og eru eins og þær hafa alltaf verið, bara að reyta af sér og hressar,“ segir hún um vinahóp móður sinnar. En þó hún sé ekki í eiginlegum saumaklúbbi er hún í ýmsum vinahópum með konum og þekkir því týpur og ólík vinkvennasambönd sem urðu henni innblástur í handritasmíðinni. „Mínar konur í myndinni hafa verið í saumaklúbb síðan í menntó, og eins og gengur væru þær ekkert endilega vinkonur í dag,“ segir Gagga. „Þær eru gjörólíkar.“ Innan hópsins eru kunnuglegar erkitýpur, sú stjórnsama, brandarakonan, sú sem er út undan og andlegi leiðtoginn.

Alls konar uppgjör, alls konar læti
Handirtshöfundarnir byggðu þannig á eigin reynslu en söfnuðu líka sögum samferðafólks af saumaklúbbum sem margar voru sprenghlægilegar. „Það er jólahlaðborð og þær eru svo spenntar en einhver gubbar undir jólatréð þegar hún er búin að fá pössun. Alls konar uppgjör og alls konar læti,“ segir Gagga.

Var á tímamótum í lífi sínu
Hún ákvað sjálf að setjast í leikstjórastólinn enda hafði hún lengi átt sér drauma um það, en hafði ekki fundið hugrekki. Nokkrum mánuðum áður en hún átti yngri dóttur sína var hún úti að ganga og hitti fyrir tilviljun Jón Gnarr nágranna sinn á förnum vegi. Það átti eftir að verða örlagafundur. „Ég var á ákveðnum tímamótum í lífi mínu, átti pínu erfitt og var að fóta mig,“ rifjar hún upp. Jón kom að máli við hana og spurði hvort hún vildi ekki leikstýra tveimur þáttum af Ráðherranum sem hann var þá með í smíðum. „Hann bara skellti þessu fram,“ segir hún.

Á þessum tíma hafði hún ákveðið að stökkva á öll tækifæri sem henni byðust og segja aldrei nei. „Ég var búin að fara með mömmuklúbbnum í Bollywood og Beyonce-dansa, var á nælonsokkabuxum og sundbol í Gamla bíó á jólasýningunni því ég sagði bara já takk,“ segir hún og hlær.

„Ég held við þekkjum öll þessar konur“
Þegar hún mætti á fyrsta samlesturinn með leikurum Saumaklúbbsins var hún stressuð til að byrja með, en sú tilfinning varði ekki lengi. „Ég hafði áhyggjur af því hvernig þeim handritið og hvernig ég myndi koma því frá mér, sem ég væri að biðja þær um. Hvað þær væru að spá og hvort við værum á sömu blaðsíðu, sem við vorum,“ segir Gagga. Leikkonurnar Jóhanna Vigdís, Elma Lísa, Edda Björg, Arndís Hrönn og Helga Braga voru allar hæstánægðar með handritið og sínar sögupersónur. „Ég held við þekkjum öll þessar konur og að þær búi inni í okkur öllum,“ segir hún. „Þær eru inni í mér og Snjólaugu og er þeirrar skoðunar að þú skrifir aldrei neitt nema það komi hluti af þér með.“

Það er nóg fram undan hjá Göggu sem er að fara að leikstýra tveimur þáttum í þáttaröðinni Afturelding eftir Hafstein Gunnar Sigurðsson og frænda sinn Dóra DNA. Til þess að halda öllum boltum á lofti og sjálfri sér í góðu formi andlega stundar hún hugleiðslu. „Hugleiðsla er algjörlega frábær. Hún hefur hjálpað mér mikið,“ segir Gagga að lokum. „Hausinn minn er oft hraður en þetta virkar fyrir mig. Mér finnst gott að hafa það rólegt.“

HEIMILDruv.is
Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR