spot_img

Hildur Guðnadóttir fær Golden Globe fyrir tónlistina í “Joker”

Hildur Guðnadóttir tónskáld hlaut í nótt Golden Globe-verðlaunin fyrir tónlistina í kvikmyndinni Joker. Hildur er aðeins önnur konan til að vinna verðlaunin fyrir frumsamda kvikmyndatónlist og sú fyrsta sem vinnur þau ein.

Þetta kemur fram á Vísi og þar segir ennfremur:

Hildur notaði tækifærið í þakkarræðunni og þakkaði fjölskyldu sinni og samstarfsmönnum, leikstjóranum Todd Phillips og aðalleikaranum, Joaquin Phoenix. Þá tileinkaði hún verðlaunin Kára, syni sínum. „Þessi er fyrir þig,“ sagði Hildur á íslensku og lauk þar með máli sínu. Ræðu hennar má sjá hér fyrir neðan.

Að lokinni ræðunni ræddi Hildur við fréttamenn, með Golden Globe-styttuna í fanginu, og var m.a. spurð að því hvernig það væri að vera komin á mála hjá þekktum leikstjórum á borð við áðurnefndan Phillips.

„Ég hef tekið eftir örlítilli þreytu síðasta áratuginn eða svo varðandi það að treysta konum fyrir þessum stærri verkefnum. En ég held, vegna þeirrar vitundarvakningar sem hefur orðið síðustu ár um stöðu kvenna í bransanum, að ég hafi notið mjög góðs af því. Ég held að fólk sé opnara fyrir því að treysta konum í dag,“ sagði Hildur m.a. í svari sínu.

Hildur hefur farið sannkallaða sigurför um Hollywood undanfarin misseri. Hún vann Emmy-verðlaun fyrir tónlistina í þáttunum Chernobyl í september, World Soundtrack Awards í október, og var tilnefnd til Grammy-verðlauna fyrir sama verk í nóvember en sú verðlaunaafhending fer fram í lok janúar.

Þá er tónlist hennar í Joker ein af fimmtán verkum sem koma til greina í flokknum besta frumsamda kvikmyndatónlistin á Óskarsverðlaununum í ár.

Eins og áður segir er Hildur aðeins önnur konan til að vinna Golden Globe-styttuna í flokki kvikmyndatónlistar. Tónskáldið Lisa Gerrard hlaut þau ásamt kollega sínum, Hans Zimmer, fyrir tónlistina í kvikmyndinni Glatiator árið 2000.

Þá er Hildur annar Íslendingurinn til að vinna verðlaunin fyrir kvikmyndatónlist. Jóhann Jóhannsson vann Golden Globe árið 2015 fyrir tónlistina í kvikmyndinni The Theory of Everything og var tilnefndur 2017 fyrir Arrival. Þau Hildur voru samstarfsfólk í mörg ár.

Sjá nánar hér: Hildur Guðnadóttir vann Golden Globe – Vísir

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR