Valdís Óskarsdóttir með meistaraspjall á Northern Wave

Valdís Óskarsdóttir (mynd DFI).

Valdís Óskarsdóttir leikstjóri og klippari verður með meistaraspjall á Northern Wave hátíðinni í menningarmiðstöðinni Frystiklefanum á Rifi í Snæfellsbæ föstudaginn 26. október klukkan 18. Nanna Frank Rasmussen, formaður Samtaka danskra kvikmyndagagnrýnenda, leiðir spjallið.

Meistaraspjallið er undir merkjum Wom@rts verkefnisins sem hefur að markmiði að varpa ljósi á framlag kvenna til evrópskar menningararfleiðar og menningarlegrar fjölbreytni, ásamt því að kljást við kynjamisrétti með því að styðja þátttöku þeirra og sýnileika í menningu og listum á þverfaglegum vettvangi.

Í því skyni styður Wom@rts við hreyfanleika á milli greina, þekkingaröflun, búnað, þjálfun og viðburði og miðar auk þess að því að lagfæra neikvæða tölfræði um þátttöku kvenkyns listamanna og kvenkyns sérfræðinga í menningargeiranum og efla þá viðurkenningu sem þeim hlotnast.

Undir yfirskriftinni „Meet the Masters” munu þeir aðilar sem standa að Wom@rts skipuleggja tvo viðburði hver á árunum 2018, 2019 og 2020, samtals 54 viðburði. Meðal annars verður um að ræða vinnusmiðju/meistaraspjall fyrir allt að 30 listakonur, ásamt ráðstefnu fyrir fjölbreyttan hóp kvenna og karla úr hópi listamanna, menningarfrömuða og áhrifaaðila, alls um 100 manns. Reikna má með að náist til að lágmarki 3.500 manns með þessu framtaki.

Valdís er fulltrúi  Wom@rts á Íslandi í samtarfi við Samtök kvenna í kvikmyndum og sjónvarpi á Norðurlöndunum (WIFT Nordic). Valdís mun ræða um vegferð sína í kvikmyndagerð og feril sinn sem klippari og afkastamikill kvikmyndagerðarkona. Hún fæddist á Akureyri árið 1950, útskrifaðist frá Danska kvikmyndaskólanum árið 1991 með meistaragráðu í klippingu. Hún er m.a. þekkt fyrir að hafa klippt Festen (1998), Sveitabrúðkaup (2008, einnig leikstjóri) og Eternal Sunshine of the Spotless Mind (2004), en fyrir þá mynd hlaut hún BAFTA-verðlaunin árið 2005. Seinast leikstýrði hún Kóngavegi (2010) og vann Edduverðlaunin fyrir klippingu á þáttunum Fangar (2018). 

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR