spot_img

Dagskrá Northern Wave opinberuð

Alþjóðlega kvikmyndahátíðin Northern Wave Film Festival verður haldin hátíðleg í fjórtánda skipti helgina 11.-13. nóvember á Snæfellsnesi.

Sýndar verða stuttmyndir hvaðanæva að úr heiminum auk íslenskra tónlistarmyndbanda og má nú sjá dagskrána í heild sinni á vefsíðu hátíðarinnar.

Sýningarnar fara fram í Frystiklefanum á Rifi annarsvegar og í sundlauginni í Ólafsvík hinsvegar. Einnig verða viðtöl tekin við valda leikstjóra eftir sýningar og boðið verður upp á meistaraspjall með Einari Snorra kvikmyndagerðarmanni.

Í tengslum við hátíðina verður haldin tveggja daga vinnustofa fyrir norrænar kvikmyndagerðarkonur, 21 talsins. Löndin sem taka þátt eru Grænland, Færeyjar, Ísland, Svíþjóð, Noregur, Danmörk og Finnland og eru tveir þátttakendur frá hverju landi og einn leiðbeinandi. Verkefnið gengur út á að fagkonur leiðbeina þátttakendum að taka sín fyrstu skref í kvikmyndagerð og styrkja tengslanetið.

Þess að auki verður boðið upp á sérstaka dagskrá fyrir börn þar sem barnamyndir verða sýndar í sundlauginni, stuttmyndanámskeið haldið með Þóreyju Mjallhvíti og hægt verður að föndra sín eigin kvikmyndaplaköt alla helgina.

Aðgangur að hátíðinni er ókeypis.

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR