Menningarvefur RÚV um „Lof mér að falla“: Mikilvæg mynd um grimman heim eiturlyfjaneyslu

„Það er mikilvægt að sem flestir unglingar og foreldrar sjái þessa mynd og ræði saman um efni hennar,“ segir Marta Sigríður Pétursdóttir gagnrýnandi Menningarvefs RÚV um Lof mér að falla Baldvins Z.

Marta Sigríður segir meðal annars:

Ég verð að viðurkenna að þegar ég las um myndina, tilurð hennar og þá staðreynd að það eru karlmenn sem miðla hér viðkvæmum reynslusögum kvenna sem hafa orðið fyrir óbærilega hræðilegu ofbeldi af hálfu karlmanna, fylltist ég ákveðnum efasemdum. Það er mikilvægt fyrir þá sem hafa það vald í hendi sér að búa til kvikmyndir sem geta náð til gríðarlegs fjölda áhorfenda og fengið til þess fjármagn, að þeir geri sér grein fyrir þeirri ábyrgð sem því fylgir. Það skiptir máli hvernig við segjum sögur sem tilheyra ekki okkar eigin reynsluheimi hvort sem það eru kvikmyndir, ljósmyndir eða bókmenntir.

Miðað við markaðsetningu myndarinnar, plakat sem sýnir innilegt og rómantískt augnablik á milli Stellu og Magneu, var ég með áhyggjur af því að myndin myndi hugsanlega falla í þá gryfju að blætisgera fíkniefnaneyslu, ofbeldi gegn konum og ástir á milli kvenna. Semsagt enn ein kvikmyndin gerð af karlmönnum sem sýnir vægðarlaust ofbeldi gegn konum og hlutgerir þær.

Sem betur fer fellur ‘Lof mér að falla’ aldrei í þá gryfju og Baldvini Z tekst að gera viðkvæmum efniviðnum einstaklega góð skil og hann stendur fullkomlega undir þeirri ábyrgð og trausti sem honum sem leikstjóra og handritshöfundi er sýnt af hálfu kvennanna sem deildu með honum sögum sínum og aðstandendum þeirra og Kristínar Gerðar. Það er augljóst að Baldvin býr yfir mikilli tilfinningagreind og næmni sem skilar sér í áhrifamikilli kvikmynd sem gerir harmleiknum skil án þess að sýna aðalpersónunum vanvirðingu eða svala gægjuþörf linsunnar. Enda á allt hrottalegasta ofbeldið sér stað fyrir utan kvikmyndarammans, við vitum hvað er að gerast og það er nóg. Sama hversu illa farin Magnea er af neyslu og ofbeldi er mennskan aldrei tekin af henni. Það er mikil kúnst að sýna hvernig fíkn og ofbeldi getur leikið manneskjur grátt án þess að gera það að grótesku sjónarspili, en það er mikilvægt að ögra slíkum staðalímyndum um fíkla og ‘Lof mér að falla’ gerir það svo sannarlega og án þess að vera með predikunartón.

Sjá nánar hér: Mikilvæg mynd um grimman heim eiturlyfjaneyslu

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR