Hugrás um „Söng Kanemu“: Sungið milli menningarheima

„Yfir myndinni allri er hjartanlegur bjarmi, hún er fumlaus og á sannarlega erindi,“ segir Björn Þór Vilhjálmsson um heimildamyndina Söngur Kanemu á Hugrás.

Björn Þór skrifar meðal annars:

Söngur Kanemu snýst öðrum þræði um rætur og hvernig sjálfsskilningur okkar er samfélagslega mótaður. Nú er Ísland einsleitt land og blöndun menningarheima hefur jafnan verið af skornum skammti, þótt það sé sem betur fer að breytast í hnattvæddum og samtengdum heimi. En hörundslitur Ernu hefur óhjákvæmilega stillt henni upp á örlítið sérstökum stað hér á hvíta Íslandi, að upplifa sig öðruvísi er auðvitað ekki óvanalegt en það að mismunurinn sé sjáanlegur, óumflýjanlegur í sjálfri líkamsgerðinni, kann að vekja spurningar – ekki endilega frá öðrum heldur spurningar sem maður spyr um sjálfan sig, og hafa þannig djúpstæð áhrif á manns innra líf og mynd af sjálfum sér, skilgreining er ávallt samþætt skilningi. Í staðinn fyrir að kveða svona spurningar í kútinn, hafna eða bæla, opnar myndin fyrir skoðun og hugleiðingu um þær. Auðvitað er Sambía allt öðruvísi en Ísland. Auðvitað skiptir máli að reyna að skilja lykilhluta af uppruna sínum. Þessi opna og jákvæða umföðmun á mismun er hluti af því sem gerir Söng Kanemu jafn gleðiríka og ánægjulega og raun ber vitni. Áhorfandi getur ekki verið ósammála Ernu um gildi þess að kynnast þessum nýja menningarheimi, framandi sem hann kann að vera.

Það að standa svona á milli tveggja heima þarf auðvitað ekki að hamla nokkrum hlut, rýra eitt eða neitt; þvert á móti, það auðgar litróf lífisins og gefur sjálfinu tækifæri til að stækka og verða víðsýnna. Hér gegnir tónlistin mikilvægu hlutverki, það er tónlistin sem brúar bilið og skapar rými til að yfirstíga mismun, bæði fyrir Ernu og fjölskyldu hennar í Sambíu, sem auðvitað mætir jafnframandi einstaklingi í Ernu og hún í þeim.

 

Söngur Kanemu er afskaplega vel gerð heimildarmynd, mæðgnanándin í viðtölunum við Ernu og Auði er næstum áþreifanleg, allavega takast þær á við burðarhlutverk sín í myndinni af stökustu prýði, það sem þær hafa að segja er forvitnilegt, einlægt og algjörlega laust við tilgerð. Myndskeiðin sem sýna Ernu eina eða með systur sinni í Sambíu eru oft ótrúlega falleg, jafn vel til fundin og þau eru römmuð og tekin. Myndavélin er jafnan í mikilli nánd við persónurnar en hún er líka sérlega hreyfanleg (sumar hreyfingar myndavélarinnar eru reyndar furðu metnaðarfullar miðað við aðstæðurnar sem áhorfandi getur ímyndað sér að hafi markað tökurnar) og fangar vel félagsleg rýmisvensl milli fjölskyldunnar sem ferðast hefur til Sambíu og heimafólksins. Viðtölum við Ernu þar sem hún veltir vöngum um upplifun sína og reynslu er haganlega skeytt saman við atburðina sjálfa. Og svo er það tónlistin fallega sem ómar yfir framvindunni og nær ákveðnum hápunkti í blálokin þegar systurnar vinna og flytja saman lag sem rætur á að rekja til og kallast á við ömmu þeirra, Kanemu. Yfir myndinni allri er hjartanlegur bjarmi, hún er fumlaus og á sannarlega erindi.

Sjá nánar hér: Sungið milli menningarheima | Hugrás

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR