Morgunblaðið um “Lof mér að falla”: Vandað og áhrifaríkt

Helgi Snær Sigurðsson hjá Morgunblaðinu skrifar um Lof mér að falla eftir Baldvin Z og segir hana vandaða og áhrifaríka, en veltir fyrir sér hvort ganga hefði mátt enn lengra í að sýna hörmungar dópheimsins. Hann gefur myndinni fjórar stjörnur.

Helgi Snær segir meðal annars:

Baldvin og Birgir segja þessa átakanlegu sögu af nákvæmni og næmni og handritið ber þess merki að mikil rannsóknarvinna liggur að baki. Það er enda byggt á sönnum atburðum og frásögnum úr íslenskum fíkniefnaheimi og að stóru leyti á dagbókum Kristínar Gerðar Guðmundsdóttur sem svipti sig lífi fyrir 17 árum eftir að hafa háð harða baráttu við eiturlyfjafíkn og afleiðingar hennar. Dagbók þessi er stórmerkileg og hryllileg heimild sem sýnir hversu ógurlegu valdi fíknin nær á líkama og sál neytandans og hvernig farið er með ungar konur í neyð sem háðar eru fíkniefnum. Þær eru misnotaðar kynferðislega og beittar hroðalegu ofbeldi af körlum sem við áhorfendur höfum ekki hugmynd um hverjir eru en þeirra á meðal eru víst dagfarsprúðir fjölskyldufeður og virtir samfélagsþegnar. Baldvin og Birgir tóku einnig viðtöl við þrjár stúlkur sem höfðu verið og eru í eiturlyfjaneyslu og vísa einnig í líf Sissu, dóttur Jóhannesar Kr. Kristjánssonar, sem dó ung úr eiturlyfjaneyslu.

Þessari hryllilegu tilveru koma Birgir og Baldvin vel til skila í kvikmyndinni og sorgarsaga Kristínar Gerðar er heimfærð upp á báðar aðalpersónurnar. Magnea lendir í sumu, Stella í öðru. Ef eitthvað er hefði mátt ganga enn lengra í að sýna hversu viðbjóðslegur þessi heimur er en Baldvin sagði í fyrrnefndu viðtali að „hlutirnir hefðu verið tónaðir mjög mikið niður“. Sú leið var valin að sýna frekar afleiðingar ofbeldisins og líkamleg ummerki, upphaf þess og endi. Hvers vegna dregið var þannig úr fylgir ekki sögunni og ég velti fyrir mér hvaða tilgangi það þjóni öðrum en að hlífa áhorfendum. Er ástæða til þess þegar verið er að segja svona sögu?

Leikkonurnar ungu, Elín og Eyrún, standa sig virkilega vel og þá ekki síst í ljósi þess hversu litla reynslu þær hafa af því að leika. Og hlutverkin eru afar krefjandi að auki og hljóta að hafa reynt mjög á þær. Galli þykir mér þó hversu samtöl þeirra Magneu og Stellu eru oft óskýr. Líklega var ætlunin að líkja sem best eftir talsmáta unglinga og þá líka þvoglumælgi en meira máli hlýtur að skipta að bíógestir skilji um hvað er rætt.

[…] Að öllu þessu sögðu er niðurstaðan sú að hér er vandað verk á ferð, ekki gallalaust en vissulega áhrifaríkt.

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR