spot_imgspot_img

Morgunblaðið um „Lóa“: Krúttlegheit og góðir grínsprettir

Helgi Snær Sigurðsson skrifar í Morgunblaðið um Lói – þú flýgur aldrei einn og gefur henni fjórar stjörnur.

Úr umsögninni:

Teiknimyndin um Lóa er ákaflega falleg á heildina litið, þökk sé einhverjum krúttlegasta fugli sem rýnir minnist að hafa séð á hvíta tjaldinu og ægifögru landslagi sem prýðir myndina frá upphafi til enda. Augljóst er að fyrirmyndin er Ísland að sumri og vetri; iðagrænir vellir, fíflar og mosavaxnir steinar eru listavel teiknaðir og málaðir og það sama má segja um snævi þakin fjöll í vetrarhluta myndarinnar. Persónurnar sem Gunnar hefur skapað eru bæði skondnar og litríkar og fálkinn Skuggi er skemmtilega ógnvekjandi.

Myndin á nokkra góða spretti hvað grín varðar en þó sérstaklega þegar hegðun dýranna minnir hvað mest á hegðun manna, t.d. þegar refurinn bregður sér óvænt í hlutverk sjónvarpskokks og kennir bíógestum að undirbúa rjúpu til matreiðslu og er kryddið þar lykilatriði. Reyndar hefði meira grín verið vel þegið inn á milli krúttlegra atriða og hættuatriða og auðvitað má eins og í flestum teiknimyndum finna nokkur fyrirsjáanleg atriði í Lóa (11 ára sonur rýnis spáði til að mynda fyrir um dauða lóupabbans og æsileg endalokin) sem kemur þó ekki mikið að sök.

Sagan er einföld, ef til vill of einföld í þeim skilningi að meira hefði mátt gerast í henni en myndinni vindur samt sem áður vel og örugglega fram og lengdin er kjörin fyrir unga áhorfendur, 83 mínútur. Eitt atriði vafðist fyrir rýni sem er ekki viss um hvað handritshöfundur var að fara með því en það er þegar fálkinn Skuggi ávarpar spegilmynd sína í ísnum og hún talar til hans á móti og reynist vera kvenfálki. Í það minnsta kallar Skuggi fuglinn „elskuna“ sína en elskan skammar hann fyrir að vera ekki nógu duglegur við lóuveiðarnar og segir að hann verði að standa sig betur. Hvort þarna er kominn framliðinn fyrrverandi maki Skugga eða annað sjálf hans og það kvenkyns er á huldu og hefði verið gaman að fá skýringar handritshöfundar á þessum furðulega en þó skemmtilega þætti í sögunni.

Annað skrítið var svo að lóuungarnir stækkuðu ekkert á heilum vetri og að Lói virtist sakna kærustu sinnar meira en móður. Og auðvitað er líka skrítið að lóuungi eigi kærustu, ef út í það er farið, en margt skrítnara hefur nú sést í teiknimyndum. Tónlist Alta Örvarssonar bætir við upplifunina eins og kvikmyndatónlist á að gera og sama má segja um grípandi lokalag Gretu Salóme og tregafullan söng Högna Egilssonar um miðja mynd, þegar öll von virðist úti.

Leikarar í íslenskri talsetningu standa sig einkar vel, barnungir jafnt sem þrautreyndir atvinnuleikarar og má þar sérstaklega nefna Matthías Matthíasson í hlutverki Lóa, Jóhann Sigurðarson í hlutverki rjúpunnar Karra og Guðjón Davíð Karlsson, Góa, sem leikur Mússa, mús sem talar með ítölskum hreim, einhverra hluta vegna. Talsetningin er á heildina litið mjög fagmannleg og blæbrigðarík. Ekki verður annað séð en að leikstjórinn Árni Ólafur Ásgeirsson hafi skilað sínu verki eins vel og hægt er líkt og stjórnandi kvikunar, Dirk Henrotay, þó að greina megi smávandræði þegar kemur að rennandi vatni en það mun vera ein helsta martröð þeirra sem leggja þetta krefjandi fag fyrir sig, teiknimyndagerð.

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR