Fréttablaðið um „Svaninn“: Svífur á sálina í firnasterku látleysi sínu

„Djörf tilraun sem gengur upp og skilar sér í eftirminnilegri mynd sem engin hugsandi manneskja má missa af,“ segir Þórarinn Þórarinsson í Fréttablaðinu um Svaninn eftir Ásu Helgu Hjörleifsdóttur.

Úr umsögninni:

Ása Hjörleifsdóttir sýnir ákveðna dirfsku með því að gera sína fyrstu kvikmynd í fullri lengd eftir skáldsögunni Svanurinn eftir Guðberg Bergsson. Góðu heilli tekst henni frábærlega upp og flýgur á vængjum Svansins beinustu leið í hóp áhugaverðustu kvikmyndaleikstjóra landsins.

Bók Guðbergs er áleitin, eftirminnileg og falleg en um leið óvægin. Hún er ekki sú einfaldasta til þess að laga að kvikmyndaforminu en þegar Ásu tekst best upp fangar hún þann galdur sem fólginn er í texta Guðbergs af stakri snilld.

Eini raunverulegi gallinn við þessa heillandi kvikmynd liggur í vali á frásagnarhætti. Í sögu Guðbergs vomaði fjarlægur og alvitur sögumaðurinn hátt yfir persónunum og sögusviðinu. Ása velur þann kost að draga sjónarhornið niður á jörðina en handritið er samt í viðjum texta Guðbergs sem gerir framvinduna á stundum áberandi kaflaskipta. Dálítið eins og tekinn sé fyrir einn kafli og síðan flett yfir í annan. Frásögnin höktir þó ekki en þetta truflar stundum flæðið sem þess á milli er svo undurljúft og seiðandi.

[…]

Kvikmyndatakan er undurfögur og fangar á einhvern seiðandi hátt sjónarhorn barnsins sem horfir á fólk og atburði án þess að skilja almennilega hvað er að gerast og hvað fólkinu gengur til. Íslensk náttúra og fagurt og háskalegt landslagið njóta sín einnig feikivel í tökunum. Náttúran og landið voru sprelllifandi í myndrænum texta Guðbergs og sama gildir um kvikmyndina. Náttúruöflin eru fljótandi umgjörð sögunnar.

Sagan og frásagnarmátinn reyna verulega á leikarana sem standa sig upp til hópa með stakri prýði. Að öðrum ólöstuðum er þó Gríma Valsdóttir stjarna myndarinnar. Alveg frábær í túlkun sinni á stúlkunni. Hún skilar flóknum tilfinningum með látbragði, svipbrigðum og orðum af mögnuðu næmi. Leikstjóri sem nær að laða slíkt fram hjá barni hlýtur, eins og leikarinn, að búa yfir einhvers konar náðargáfu.

Svanurinn er undurfögur kvikmynd, hugvekjandi og mannbætandi upplifun sem æskilegt er að njóta til fullnustu í bíósal.

Sjá nánar hér: visir.is

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR