Stockfish hátíðin kynnir fyrstu gesti og myndir

Norsk/pakistanski leikstjórinn Iram Haq.

Stockfish Film Festival verður haldin í fjórða sinn í Bíó Paradís dagana 1. til 11. mars næstkomandi. Norski leikstjórinn Iram Haq verður sérstakur gestur hátíðarinnar og meðal helstu mynda er Loveless eftir Andrey Zvyagintsev.

Iram Haq

Leikstjórinn Iram Haq kemur í annað sinn á hátíðina en hún var einnig gestur 2016. Haq sýnir nýjustu kvikmynd sína What will people say? sem var nýlega frumsýnd á kvikmyndahátíðinni í Toronto. Myndin er tilnefnd til Drekaverðlaunanna á kvikmyndahátíðinni í Gautaborg. Fyrsta kvikmynd hennar í fullri lengd, I am yours, var einnig frumsýnd á kvikmyndahátíðinni í Toronto árið 2013 og var framlag Noregs til Óskarsverðlauna. Sú mynd hefur unnið til fjölda verðlauna á hátíðum víða um heim.

What will people say? segir frá hinni sextán ára Nisha sem á sér tvö aðskilin líf. Heimavið er hún hin fullkomna pakistanska dóttir en með vinum sínum er hún venjulegur norskur unglingur. Þegar faðir hennar kemur að henni og kærastanum í rúminu skella þessir tveir heimar harkalega saman í einn. Til að sýna fordæmi ákveða foreldrar Nishu að ræna henni og koma henni fyrir hjá skyldmennum í Pakistan en þar, í alls ókunnugu landi, neyðist Nisha til að laga sig að menningu foreldra sinna.

Haq byggir myndir sínar á eigin reynslu en hún er norsk-pakistönsk og þekkir því vel til þeirrar menningarlegu togstreitu sem á sér stað milli þessara tveggja ólíku menningarheima.

Loveless

Loveless vann dómaraverðlaunin í Cannes, er framlag Rússa til Ókarsverðlaunanna og var tilnefnd til Golden Globe sem besta erlenda myndin.

Zhenya og Boris ganga í gegnum grimmilegan skilnað sem einkennist af bræði, vonsku og gagnkvæmum ásökunum. Þau þrá að halda áfram með lífið og hafa bæði kynnst nýjum lífsförunautum. Þeim liggur á að byrja upp á nýtt og snúa við blaðinu jafnvel þótt það feli í sér að yfirgefa tólf ára son sinn Alexey. En eftir að verða vitni af rifrildi foreldra sinna, hverfur Alyosha…

Fræðast má frekar um hátíðina hér: Fyrsti hátíðargesturinn tilkynntur ásamt fjórum myndum!

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR