Brúsi Ólafsson um „Viktoríu“: Ósungnar hetjur

Brúsi Ólafsson leikstjóri stuttmyndarinnar Viktoría.

Á Hugrás ræðir Kjartan Már Ómarsson við leikstjórann Brúsa Ólason um Viktoríu, stuttmyndina sem vann Sprettfisksverðlaunin á Stockfish.

Úr viðtalinu (sjá hlekk neðst til að lesa allt viðtalið sem er langt og ítarlegt):

Ég tók strax eftir því að sögusviðið er utan höfuðborgarinnar, alveg eins og í myndinni þinni Sjáumst, sem var sýnd á RIFF í fyrra þar sem Selfoss var mjög áberandi, jafnvel í aðalhlutverki. Sveitaþemað hefur verið nokkuð áberandi bæði í íslenskum bókmenntum og kvikmyndum allt frá upphafi. Ertu að setja mark þitt á hefðina? Er enn þörf á að fjalla um sveitina í íslenskri menningu? Hvað ræður vali þínu á að sögusviðið sé í sveit?

Ætli það sé ekki aðallega það að ég hef aðgang að sveitinni og hún er mjög sjónræn í grunnin. Ég hugsa reyndar alltaf um Sjáumst sem Selfoss-mynd þótt hún byrji þarna aðeins fyrir utan bæinn. En Viktoría er vissulega íslensk sveitamynd og stígur inn í þá hefð. Ég ólst náttúrulega upp í sveit svo sá heimur er mér mjög kær og ég ætla rétt að vona að ég sé ekki of seinn í partíið og þurfi bara að segja sögur af borginni. En að öllu gamni slepptu þá held ég að það sé jafnvel ennþá mikilvægara að segja sögur af sveit í dag þar sem það hefur aldrei verið breiðara bil á milli borgarinnar og sveitarinnar menningarlega. Það er orðið mjög óalgengt að börn fari í sveit yfir sumar og ef það er gert þá er það yfirleitt ekki nema 2 vikur í senn. Það er líka orðið þannig að landsbyggðinni er oftar en ekki stillt upp sem andstæðum menningarheimi við borgina á neikvæðan hátt. Þetta er því að verða menningarheimur sem við í borginni höfum sífellt veikari tengingu við og er því verðugur allri þeirri athygli sem við getum gefið honum.

Tónlist er notuð mjög sparlega og umhverfishljóð verða mjög áþreifanleg fyrir vikið. Þegar henni bregður fyrir er það strengjahljóðfæri, eða mjög organísk og náttúrulegt hljóð. Útvarpið í eldhúsinu staðsetur áhorfendur í tíma og spilar kafla úr tveimur/þremur íslenskum dægurlögum. Gætirðu rætt aðeins notkun þína á tónlist?

Í Viktoríu vann ég með Daða Frey Péturssyni að tónlistinni og við vorum sammála um að þetta væri mynd sem ætti ekki að vera með mjög áberandi kvikmyndatónlist. Við töluðum líka um að við vildum helst hafa sem náttúrulegasta tónlist og sem minnst af raftónlist, þó það sé kannski það sem Daði er hvað þekktastur fyrir. Daða tókst að vinna þessa fallegu og ljúfu tónlist sem slæðist inn á nokkrum vel völdum augnablikum í myndinni þrátt fyrir miklar annir og ég hefði ekki geta beðið um betri tónlist fyrir þessa mynd. Hvað popptónlistina varðar var ég búinn að skrifa popplögin inn í handritið nánast frá fyrsta uppkasti. „Einhvern tíma“ með Villa Vill fannst mér passa því það upphefur á vissan hátt fólkið sem vinnur sig í gegnum lífið án þess að elta draumana en lifir samt sem áður í sátt við lífið. Ég vona að það eigi að einhverju leyti við Viktoríu. „Sólstrandagæi“ fannst mér aðallega fyndið að setja inn sem lag sem fer í taugarnar á Viktoríu á þessum tímapunkti. Hljóðheimurinn fyrir utan tónlistina varð til í samvinnu við Jóhann Vigni Vilbergsson sem sá um alla hljóðvinnu í eftirvinnslunni. Líklega var það í þeirri vinnu sem ég lærði persónulega mest um kvikmyndagerð í þessari mynd þar sem við vorum að skapa upplifun í gegnum hljóð á hátt sem ég hafði aldrei gert áður, svo náðum við líka að setja inn nokkur smáatriði sem engin tekur eftir en ég vona að bæti við heildarupplifunina af myndinni.

Þótt sögusviðið sé kannski smátt í sniðum er söguheimurinn, sem lúrir utan við eiginlega frásögn, nokkuð stærri, nær til Reykjavíkur og jafnvel Bandaríkjanna (þú gerðir svipaða hluti í Sjáumst). Þykir þér mikilvægt að gefa tilfinningu fyrir stærra rými í svona „smárri“ sögu?

Já, ég er hrifinn af því að finna fyrir stærri heiminum. Það er bara einfaldlega raunin í dag vegna hnattvæðingar. Meira að segja kona sem er hugsanlega búin að búa alla sína ævi á sveitabæ er með skýrar tengingar út fyrir Ísland. Þótt myndin fjalli í megin dráttum ekki um hnattvæðingu þá má vissulega finna fyrir henni í heiminum sem umlykur myndina.

Þú skapar eyður í frásögninni. Þykir þér mikilvægt að halda einhverju opnu fyrir áhorfandann til þess að virkja hann, eða þjóna eyðurnar öðrum tilgangi? 

Þetta á mjög vel við í beinu framhaldi af síðustu spurningu því stuttmyndin er á vissan hátt erfið viðeignar. Það er hægt að gera einfalda stuttmynd sem á algjörlega heima innan þess tímaramma sem hún gerist í en þá er hættan að það sitji ekkert eftir þegar myndin er búin. Önnur hætta er að gera stuttmynd sem ætlar sér of mikið innan tímarammans. Þá getur áhorfandinn staðið upp og liðið eins og það sé ekki nægilega sterk eða skýr úrlausn. Mín upplifun er sem sagt sú að maður þarf að reyna að skapa heim sem nær út fyrir það sem einföld saga nær utan um eða segja sögu sem býr til eitthvað stærra samhengi þrátt fyrir að eiga sér stað í frekar smáum heim eða einhverskonar bland af þessum andstæðum. Viktoría býr vissulega til stærri heimi en á sama tíma er sagan aðeins stærri en það sem fyrir augu ber í myndinni. Ég er ekki viss um að þetta gangi fullkomlega upp hjá mér en ég er vissulega sáttur við niðurstöðuna og hlakka til að læra betur inn á frásagnarformið sem stuttmyndin er á meðan ég undirbý mig fyrir stærri verkefni.

Það er eftirtektarvert að þú miðlar miklum upplýsingum myndrænt. Þar má nefna þegar aðalpersónan, Viktoría, skoðar gamlar slæður á meðan hún talar við dóttur sína í síma. Er þetta eitthvað sem þú gerðir sérstaklega í þessu tilfelli eða partur af persónulegri hugmyndafræði að kvikmyndir eiga að vera myndrænn miðill umfram allt?

Fyrsta viðbragðið mitt við þessari spurningu var að segja að það væri kannski ekki persónuleg hugmyndafræði sem stýrði þessu en því meira sem ég hugsaði um þetta því meira fannst mér það raunin. Þó að upplýsingum sé vissulega komið til skila í gegnum samtal þá verður alltaf að vera eitthvað sjónrænt við það í þessum miðli. Í Viktoríu tókst mér til dæmis í þessari senu sem þú minnist á að koma upplýsingum til skila í gegnum samtal mæðgnanna á sama tíma og ég er að bæta við upplýsingum með slæð-umyndunum sem bera fyrir augu. Það er líka ekki hjá því komist að veita upplýsingar um sambönd persóna og/eða ástand eftir því hvernig þú stillir þeim upp. Þannig það er kannski ekki spurning um hvort kvikmyndir eigi að vera myndrænn miðill umfram allt, hann bara er það. Þannig í stuttu máli: jú ætli þetta sé ekki persónulega hugmyndafræði hjá mér.

Í framhaldi af þessari spurningu þá langar mig að spyrja: Það sést á gömlu myndunum sem Viktoría skoðar að þar eru börnin að taka þátt í störfum á bænum, að heyja t.d. og sinna öðrum búverkum. Á sama tíma er hún að tala við dóttur sína sem er greinilega í listnámi í Bandaríkjunum sem tjáir henni að hún muni ekki koma heim að hjálpa til yfir sumarið á bænum. Er þetta þróun sem þú sérð fyrir þér í samfélaginu? Eru börn vinnandi fólks að væflast út um allan heima að leika sér með hugmyndir á meðan búið heima koðnar niður?

Ég ætla nú ekki að alhæfa um það að þetta sé þróun sem ég sé á samfélaginu. Frekar að þetta sé svona framsetningin á minni persónulegu upplifun á því samviskubiti sem ég finn fyrir verandi barn vinnandi fólks sem er úti í heimi að leika sér með hugmyndir á meðan búið er kannski ekki að koðna niður en það er ekki á sama stað og það var áður fyrr. Ég er  því fremur að játa á mig persónulega vankanta en að segja eitthvað um þróun í samfélaginu í þessu tilfelli.

Það eru greinileg kynslóðaskil. Unga parið á næsta bæ hefur svo að segja skipt um búgrein og snúið sér að ferðamennsku. Rekur gisti- og morgunverðarstað sem gefur vel af sér. Þar á bæ eru eins umræður um málverk þar sem skilur á milli gamals sveitaraunsæis og módernískari verka í fagurfræðilegum smekk. Yngri konan vill henda þessu gamla púkó málverki af „gamla bænum“ og fá sér eitthvað nýrra. Er þetta spurning um að yngri kynslóðin sé að svíkja ræturnar eða þörf þeirra eldri að aðlagast breyttum aðstæðum? 

Til að byrja með þá langar mig að minnast á það að þessi þróun að snúa sér að ferðamennsku og/eða stækka búið sem unga parið er að reyna að gera er ákveðin þróun sem ég hef tekið eftir. Það er komin miklu sterkari markaðshugsjón í unga bændur sem gerir þá mun metnaðarfyllri. Aftur á móti er Viktoría föst í fortíðinni að einhverju leyti en á sama tíma er bónda eins og henni kannski ekki ætlað að taka þátt í framtíðinni. Það er ef til vill stóra spurningin í þessari mynd. Getur kona eins og Viktoría haldið áfram að gera það sem hún elskar án þess að breytast og ef hún breytist mun hún enn elska það sem hún er að gera.

Þá er önnur hugmynd sem hefur sótt á mig, sem er að „við“ séum að tapa mennskunni. Þar sem tæki eru að koma í stað fólks. Viktoría og Pawel tala ekki saman til dæmis. Hann fiktar í símanum sínum frekar en að ræða við hana. Fjölskyldan sem hjálpaðist að við búverkin áður er horfin og við eru teknar mjalta- og sláttuvélar. En þá er maðurinn líka háður þessum tækjum og glataður ef þau bila. Gætirðu rætt aðeins hugmyndir þínar með þetta?

Tæknin er mjög tvíeggja sverð þegar kemur að mennskunni. Þegar einhver eins og Viktoría skilur ekki tæknina fyllilega þá einangrast hún í dag því svo stór hluti af okkar samfélagslega lífi á sér stað í gengum Netið. Þessi þróun gerir það samtímis að verkum að við eigum erfiðara með samskipti  í raunveruleikanum og við eigum auðveldara með samskipti langt út fyrir það sem hægt var áður fyrr. Viktoría er ekki með snjallsíma og þess vegna talar hún við dóttur sína í gamlan gsm-síma og sér hana því ábyggilega mjög sjaldan. Pawel er með snjallsíma og er að hlæja að pólskum brandara því hann á líklega í stöðugum samskiptum við vini og vandamenn í Póllandi í gegnum samfélagsmiðla. Vissulega virðist það vera þannig fyrir Viktoríu að við séum að tapa mennskunni en spurningin er kannski hvert hún er farin en ekki hvort hún er horfin.

Sjá nánar hér: Ósungnar hetjur | Hugrás

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR