Kvikmyndahöfundar eru illa borgaðir, starfsöryggi lítið en flestir geta ekki hugsað sér að gera annað

Að vera leikstjóri eða handritshöfundur í Evrópu (Ísland þar með talið) er að meðaltali frekar illa borgað og starfsöryggi lélegt. Tekjur ná hámarki um og uppúr fimmtugu en fara síðan hratt lækkandi. Tekjur kvenna eru áberandi minni. Samt geta flestir ekki hugsað sér að gera eitthvað annað. Þetta kemur fram í könnun sem Samtök evrópskra kvikmyndaleikstjóra (FERA) og Samtök handritshöfunda í Evrópu (FSE) létu gera. Bráðabirgðaniðurstöður hafa verið kynntar og þar kemur ýmislegt fróðlegt fram.

Þetta er í fyrsta sinn sem svona könnun um tekjur og starfsaðstæður leikstjóra og handritshöfunda er gerð í Evrópu. Könnunin sýnir að þrátt fyrir gríðarlegt umfang þessa hluta menningariðnaðarins býr þessi hópur við afar ótrygg kjör (sem þarf ekki að koma neinum á óvart sem til þekkir). 3,217 leikstjórar og handritshöfundar tóku þátt í könnuninni. Þeir starfa í 26 löndum. Sjá nánar hér að neðan.

Hver er hinn dæmigerði evrópski kvikmynda- og sjónvarpshöfundur?

Flestir þeirra starfa sjálfstætt (85%). Flestir hafa einhverjar aðrar tekjur einnig til að ná endum saman.

Hinn dæmigerði karlkyns leikstjóri er 48 ára og hefur starfað sem slíkur í 17 ár. Hann vinnur að meðaltali 45 tíma á viku. Hann hefur að meðaltali 3,2 milljónir króna í árstekjur eftir skatt (tæpar 266 þúsund krónur á mánuði). Aðeins hluti teknanna koma frá vinnu við leikstjórn.

Hin dæmigerða kvenkyns leikstýra er 44 ára og hefur starfað sem slík í 13 ár. Hún vinnur 45 tíma á viku að jafnaði. Árstekjur hennar eru að jafnaði rúmlega 2,2 milljónir króna eftir skatt (um 184 þúsund á mánuði). Aðeins hluti teknanna koma frá vinnu við leikstjórn.

Hinn dæmigerði karlkyns handritshöfundur er 46 ára og hefur starfað við fagið í 14 ár. Hann vinnur 40 tíma á viku. Árstekjur hans eru um 3,7 milljónir króna eftir skatt (ca. 308 þúsund á mánuði). Mikill meirihluti tekna kemur frá skrifum.

Hinn dæmigerði kvenkyns handritshöfundur er 44 ára og hefur starfað við fagið í 12 ár. Hún vinnur 40 tíma á viku. Árstekjur hennar eru rúmar 3,3 milljónir króna eftir skatt (ca. 275 þúsund á mánuði). Mikill meirihluti tekna kemur frá skrifum.

Sjá nánar á myndinni að neðan.

Aðrar upplýsingar, um t.d. tekjur á mismunandi tímabilum, hvernig fólk nær endum saman og starfsmetnað þrátt fyrir mikið óöryggi má skoða á skýringamyndum fyrir neðan.

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR