spot_img

Þrjú ráðin kennarar við Kvikmyndalistadeild

Kvikmyndalistadeild Listaháskóla Íslands hefur ráðið þrjá kennara í fastar stöður, þau Brúsa Ólason, Tanyu Sleiman og Ásu Helgu Hjörleifsdóttur.

Þau hafa þegar hafið störf og mynda kjarnann í því teymi sem mun móta deildina undir stjórn Steven Meyers.

Ása Helga Hjörleifsdóttir hefur verið ráðin í stöðu dósents í kvikmyndagerð. Ása Helga handritshöfundur og leikstjóri, fædd árið 1984. Hún lauk BA prófi í almennri bókmenntafræði frá Háskóla Íslands og vann um tíma við bókagagnrýni og útvarpsþáttagerð á Rás 1. Árið 2008 flutti hún til New York til að læra kvikmyndagerð í Columbia háskóla, og lauk þaðan MFA prófi með ágætiseinkunn vorið 2012. Ása hefur skrifað og leikstýrt fjölda stuttmynda, og ber helst að nefna myndirnar Ástarsaga (2012, sem komst m.a. í lokaúrtak fyrir Óskarverðlaunin í flokki útskriftarmynda úr kvikmyndaskólum), og Þú og ég (2015). Fyrsta kvikmynd Ásu í fullri lengd, Svanurinn, sem er hennar aðlögun á samnefndri skáldsögu Guðbergs Bergssonar, var heimsfrumsýnd á kvikmyndahátíðinni í Toronto 2017, ferðaðist um heiminn og vann til fjölda verðlauna. Í september 2022 var nýjasta kvikmynd Ásu, Svar við bréfi Helgu frumsýnd á Íslandi, og í kjölfarið frumsýnd alþjóðlega á Black Nights hátíðinni í Tallinn í nóvember 2022. Samhliða kvikmyndaverkefnum sínum hefur Ása Helga starfað með myndlistarmanninum Ragnari Kjartanssyni, og leikstýrði nú síðast umfangsmiklu vídeó- og performance verki hans Santa Barbara í Moskvu sem stóð yfir frá 4. desember 2021 til 24. febrúar 2022.

Brúsi Ólason hefur verið ráðinn í stöðu lektors í kvikmyndagerð. Brúsi er leikstjóri, klippari og handritshöfundur. Hann útskrifaðist með BA gráðu í kvikmyndafræði með ritlist sem aukagrein frá Háskóla Íslands árið 2014 og árið 2020 útskrifaðist hann með MFA gráðu í kvikmyndaleikstjórn frá Columbia háskóla í New York. Stuttmyndir hans, Sjáumst frá 2017, Viktoría frá 2018 og Dalía frá 2020 ferðuðust allar um heim og hafa unnið til verðlauna víðsvegar. Hann vann einnig sem klippari að myndum á borð við Materna frá 2020 og Ágúst himinn frá 2021 sem báðar hlutu verðlaun á virtum kvikmyndahátíðum. Hann vinnur nú að sinni fyrstu mynd í fullri lengd sem leikstjóri.

Tanya Sleiman hefur verið ráðin í stöðu lektors í kvikmyndagerð. Tanya er með meistaragráðu í heimildamyndagerð frá Stanford-háskóla og bakkalárgráðu í miðausturlandafræðum frá Kaliforníu-háskóla. Hún hefur starfað sem kvikmyndagerðarkona, kennari og fræðimaður og hefur hlotið ýmsar viðurkenningar og verðlaun m.a. rannsóknarstyrk frá Fulbright stofnuninni. Kvikmyndir hennar og vídeó-verk hafa verið sýnd á alþjóðlegum kvikmyndahátíðum og sjónvarpsstöðvum, þar á meðal eru myndir hennar A Chronicle of Concrete, heimildamyndin Iraq in the USA, Serious Play: The Worlds of Helen Levitt og Whatever It Takes. Í fræðastörfum sínum hefur hún miðlað ástríðu sinni fyrir hljóði í kvikmyndum á vettvangi Visible Evidence og The Flaherty Film Seminar. Tanja býr einnig yfir áratuga langri reynslu af stjórnun í skólastarfi frá Cornell-háskóla og The New School í New York þar sem hún starfaði með nemendum frá yfir 100 löndum. Sem kennari í kvikmyndagerð mótaði Tanya námskeið í kvikmyndagerð fyrir samfélagslega umbreytingu á vegum NYU Tisch School of the Arts á Kúbu í sex mánuði árið 2011. Hún kenndi einnig námskeið í framleiðslu fyrir sjónvarp, kvikmyndafræði, og kvikmyndaframleiðslu við Diablo Valley College í Kaliforníu og kennir nú við kvikmyndalistadeild LHÍ sem stundakennari. Tanya er stofnandi framleiðslufyrirtækisins Taza Films sem framleiðir auglýsingar, heimildamyndir og leiknar myndir auk þess að veita alþjóðlega ráðgjöf varðandi leiknar myndir og heimildamyndagerð. Sem stendur er Tanya í eftirvinnslu við sína fyrstu mynd í fullri lengd, 95 Lives, og er í þróunarferli með mynd um Nínu Sæmundsdóttur. Hún var nýlega valin til þátttöku í vinnustofu á vegum Evrópusambandsins fyrir höfunda í nýmiðlum og í vinnustofu um sjálfbærni í kvikmyndaframleiðslu á vegum Torino Film Lab.  Tanya býr í Reykjavík ásamt dóttur sinni og er stoltur meðlimur í kórnum Söngfélagið.

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR