spot_img

Dregið úr fyrirhuguðum niðurskurði Kvikmyndasjóðs

Menningar- og viðskiptaráðuneytið hefur sent frá sér tilkynningu þar sem segir að stefnt sé að því að draga úr fyrirhuguðum niðurskurði til Kvikmyndasjóðs um 250 milljónir króna.

Samkvæmt heimildum Klapptrés er þetta í samræmi við það sem búist hefur verið við á undanförnum vikum eftir viðræður milli kvikmyndagerðarmanna og stjórnvalda.

Til stóð að skera framlög til Kvikmyndasjóðs og Kvikmyndamiðstöðvar niður um alls 483,6 milljónir króna í fjárlagafrumvarpinu sem lagt var fram í september. Hefði það numið um 28,8% niðurskurði milli ára.

Í stað þess mun niðurskurður nema 233,6 milljónum króna, eða sem nemur um 15%. Þessi upphæð samsvarar um það bil algengum styrkjum til tveggja bíómynda, svo dæmi séu nefnd.

Segir í tilkynningunni:

Við 2. umræðu fjárlagafrumvarps má vænta þess að lagt verði til að 100 milljónir króna verði lagðar til Kvikmyndasjóðs auk þess sem menningar- og viðskiptaráðuneytið mun leggja fram 150 milljón króna viðbótarframlag. Árið 2023 fær Kvikmyndasjóður því 1328,9 milljónir króna til að standa undir fjármögnun verkefna sem þegar hafa hlotið vilyrði eða sjóðurinn er skuldbundinn með samningi.

Ekki kemur fram í tilkynnningunni hvort Kvikmyndamiðstöð verði áfram skorin niður um 50,5 m.kr. miðað við fyrra ár.

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR