[Stikla, plakat] „Lói – þú flýgur aldrei einn“, frumsýnd 2. febrúar 2018

Stikla teiknimyndarinnar Lói – þú flýgur aldrei einn hefur verið opinberuð. Myndin verður frumsýnd 2. febrúar næstkomandi.

Hilmar Sigurðsson, framleiðandi segir:

„Það er farið að styttast verulega í frumsýningu á þessu risavaxna verkefni sem hafin var vinna við fyrir að verða fimm árum síðan. Eftir langan og strangan þróunar- og fjármögnunarferil hófst framleiðsla myndarinnar á fullu fyrir um tveim árum hér á Íslandi og í Belgíu. Að baki eru um 140 mannár og nú sjáum við til lands í þessu risavaxna verkefni og hlökkum til frumsýningar í byrjun febrúar.“

Myndin fjallar um lóuungann Lóa, sem er ófleygur að hausti þegar farfuglarnir halda suður á bóginn. Lói þarf að lifa af harðan vetur, grimma óvini og takast á við sjálfan sig til að sameinast ástinni sinni að vori.

Myndin hefur verið seld til sýninga í kvikmyndahúsum í yfir 60 löndum, en ARRI Media selur. GunHil framleiðir en aðstandendur þess fyrirtækis voru framleiðandi og leikstjóri á Hetjur Valhallar – Þór, fyrstu íslensku teiknimyndinni í fullri lengd og er enn mest sótta íslenska kvikmyndin utan landsteinanna.

Framleiðslukostnaður Lóa – þú flýgur aldrei einn er um einn milljarður króna og hún er unnin í samframleiðslu með belgíska teiknimyndafyrirtækinu Cyborn. Sena dreifir myndinni á Íslandi.

Leikstjóri er Árni Ólafur Ásgeirsson, söguna skrifaði Friðrik Erlingsson og Gunnar Karlsson er aðstoðarleikstjóri og hönnuður útlits. Matthías Matthíasson og Rakel Björgvinsdóttir hrepptu hlutverk Lóa og Lóu eftir umfangsmikla hlutverkaleit þar sem nær 200 ungmenni komu í prufutökur. Meðal annara leikara í íslensku útgáfunni eru Ólafur Darri Ólafson, Arnar Jónsson, Þórunn Erna Clausen og Hilmar Snær Guðnason.

Tónlistin er í höndum Atla Örvarssonar og er umfangsmesta tónlistarverkefni sem ráðist hefur verið í fyrir kvikmynd hér á landi.

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR