spot_img

Niðurskurðurinn: Menningarlegt stórslys í aðsigi

Rætt var við Hilmar Sigurðsson og Kristínu Andreu Þórðardóttur framleiðendur í Lestinni á Rás 1 um stöðuna í kvikmyndaframleiðslu á Íslandi eftir þriðjungs niðurskurð Kvikmyndasjóðs. „Ég bara held að þetta séu mistök hrein og klár,“ segir Hilmar.

Segir á vef RÚV:

Í vikunni var fjárlagafrumvarp næsta árs kynnt og fólk í kvikmyndabransanum rak margt í rogastans. Í því koma fram fyrirætlanir um að lækka framlag til Kvikmyndasjóðs Íslands um þriðjung, úr rúmum einum og hálfum milljarði í milljarð. 2020 var ítarleg og metnaðarfull kvikmyndastefna unnin í samstarfi við fagfólk úr kvikmyndaiðnaðinum og átti að gilda til tíu ára. „Hér er lögð fram og samþykkt kvikmyndastefna sem virðist alveg hafa gleymst þegar að einhverjir fóru að fikta í fjárlögunum,“ segir Hilmar Sigurðsson, framkvæmdastjóri Saga Film.

Núverandi ríkisstjórn og menningarmálaráðherra komu í byrjun árs á fyrirkomulagi sem kveður á um 35% endurgreiðslu á öllum kostnaði sem fellur til í stórum kvikmyndaverkefnum. Þeirri aðgerð er ætlað að laða til landsins fjölda erlendra bíómynda og sjónvarpsþátta og þar af leiðandi skapa vinnu fyrir íslenska kvikmyndaiðnaðinn. Þetta fyrirkomulag virðist hafa borið árangur en nýverið var tilkynnt að tökur á fjórðu þáttaröð af True Detective, sem framleidd er að HBO sjónvarpssamsteypunni, fari fram á Íslandi. Innlent fagfólk vinnur við þessi stóru erlendu verkefni og öðlast mikilvæga reynslu. „Þetta er náttúrulega þjónusta,“ segir Kristín Andrea Þórðardóttir, kvikmyndagerðarkona, framleiðandi og einn af skipuleggjendum Skjaldborgarhátíðarinnar. Hún bætir við að með stórum erlendum verkefnum komi yfirhönnuðir og kvikmyndatökustjórar jafnan með verkefninu til landsins. „Það er kannski ekki mikið af kreatífum ákvörðunartökum sem að okkar fagfólk er að taka.“

Árs gömul stefna horfin með einu pennastriki
Framlag ríkisstjórnarinnar til kvikmyndasjóðs jókst í covid-heimsfaraldrinum í þeim tilgangi að glæða líði í iðnaðinn. Í nýjum fjárframlögum virðist sem svo að aukaframlagið verði nú dregið til baka þar sem efnahagsástandið sé komið aftur á flug. Hilmar segir þá ákvörðun ósanngjarna. „Sérframlögin vegna covid námu um 100 milljónum þannig að ef að 400 milljón króna frádráttur er út af covid eins og okkur er sagt í ráðuneytinu þá er það ansi hressileg ávöxtun hjá ríkissjóði og hreinlega bara rangar forsendur.“

„Ég held að einhver hafi gleymt kvikmyndastefnunni þarna og ætlað að núlla hana út með einu pennastriki,“ segir Hilmar. Markmið kvikmyndastefnunnar var að skapa auðuga kvikmyndamenningu hérlendis, sem styrkir sjálfsmynd þjóðarinnar og eflir íslenska tungu. Að bjóða fjölbreyttari og metnaðarfyllri kvikmyndamenntun, að styrkja samkeppnisstöðu greinarinnar og að Ísland verði þekkt alþjóðlegt vörumerki á sviði kvikmyndagerðarinnar. Stefnan á að gilda til tíu ára eða til ársins 2030 og það kemur Hilmari á óvart að hún virðist gleymd þrátt fyrir að vera aðeins rétt um árs gömul. „Okkur finnst mjög merkilegt að hún bara hverfi þarna.“

“Tryggja þarf íslenskri kvikmyndagerð bestu mögulegu aðstæður til að vaxa og dafna. Með kvikmyndastefnu er vörðuð raunsæ en metnaðarfull braut til ársins 2030,” skrifaði Lilja D. Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, í útgefinni Kvikmyndastefnu.

Umræður hafa meðal annars snúist um samanburð á lækkun á framlagi til Kvikmyndasjóðs, sem ætlaður er innlendri framleiðslu, og svo fyrirkomulagi um þriðjungs endurgreiðslu sem fer til stórra, gjarnan erlendra, kvikmyndaverkefna. Umræðan sprettur fram í kjölfarið á tilkynningu um að tökur á fjórðu þáttaröð þáttanna True Detective muni fara fram á Íslandi. Það verður langstærsta kvikmyndaverkefni sem gert hefur verið hér á landi og er umfang þess áætlað um 9 milljarðar króna. Það slær margt innlent kvikmyndagerðarfólk að áhersla sé lögð á erlend verkefni fremur en innlend. „Það sem er óeðlilegt í þessu er að skera niður kvikmyndasjóð ef það er verið að nota forsendurnar að það sé verið að auka í endurgreiðslurnar,“ segir Hilmar.

„Ég held að það eigi að vera pláss fyrir bæði,“ segir Hilmar. Í kvikmyndastefnunni kom fram skýr vilji um að kvikmyndagerð verði stóriðnaður. „Ef við ætlum okkur að vera þessi stóriðnaður, sem að við sannarlega erum á leiðinni að verða og orðin að einhverju leyti, við erum ár eftir ár með yfir 20 milljarða veltu í greininni, þá þurfum við þessi stærri verkefni líka með ef við ætlum að taka næsta skref.“

„Mér finnst mjög mikilvægt að við séum að hugsa um fagið sem eina heild,“ segir Kristín. Hún segir mistök að nýta ekki krafta innlends fagfólks til að segja innlendar sögur. „Það er gríðarlega mikið af góðu og hæfu fagfólki í öllum deildum sem að við höfum yfir að búa. Það að nýta þessa krafta líka til að segja íslenskar sögur og spegla okkur sem þjóð í okkar sögum, lítil þjóð sem á kannski smá undir högg að sækja út af erlendu efni sem við erum stöðugt að horfa á.“

Íslensk kvikmyndagerð stendur vörð um íslenska tungu
Fyrirkomulagið um endurgreiðslur kvikmyndaverkefna nýtast fyrst og fremst stórum verkefnum því þar er krafa um ákveðin skilyrði. „Þröskuldarnir eru 350 milljón króna velta, 50 manns í kvikmyndatökuteymi eða í teymi, það má vera eftirvinnsla inni í því líka og svo lágmark 30 tökudagar í verkefninu,“ segir Hilmar. Íslenskar sjónvarpsþáttaraðir af stærri gerðinni rúmast innan þessa ramma og einhverjar kvikmyndir, en ekki síst stór erlend verkefni.

Stóru erlendu verkefnin bjóða starfsfólki upp á meiri stöðugleika en oft þekkist í kvikmyndabransanum og því flykkist innlent fagfólk að þeim. „Fólk eðlilega flykkist í svona verkefni. Níu mánaða stabílt verkefni það er bara ekki til hjá þeim sem vinna alla jafna sem verktakar, þannig að ég skil það líka.“

Fyrir vikið reynist erfitt að manna minni verkefni á meðan að svona stórt verkefni er í gangi og þetta hefur því áhrif á kvikmyndaiðnaðinn sem heild. Kristín segir að innlent fagfólk öðlist dýrmæta reynslu við að vinna að stórum verkefnum en það sé mikilvægt að nota hana líka til að segja innlendar sögur. „Við séum jafnframt að flexa þessa vöðva í erlendum verkefnum og svo að segja íslenskar sögur, það meikar ekki sens að hugsa þetta ekki sem eina heild.“

Hilmar minnir á að innlend kvikmyndagerð styrki stöðu íslenskrar tungu, en áhyggjuraddir um framtíð hennar heyrast reglulega. „Við þurfum að átta okkur á því að þetta er menning, þetta er tungumál, við tölum íslensku. Ég veit ekki betur en að við séum öll að hræðast að hún sé að gefa eftir.“

Hrein og klár mistök
Erlendu stórverkefnin eru mikilvæg fyrir íslenskan kvikmyndaiðnað að mati Hilmars og Kristínar. Þau auki reynslu fagfólks, séu góð landkynning og skapi tekjur. Mýmargar skýrslur hafa sýnt fram á að styrkir til kvikmyndagerðar skili sér aftur til samfélagsins að sögn Hilmars. „Þegar kemur að útgreiðslunni þá er þetta búið að fara um allt í samfélagið. Það er búið að nota þriðjung af þessu í ferðaþjónustuna, þriðjung af þessu í laun, verktakagreiðslur beint til Íslendinga.“ Hann segir erlent fjármagn sem kemur til landsins með erlendum verkefnum vera gjaldeyrisskapandi.

Þau trúa því bæði og vona að niðurskurður til Kvikmyndasjóðs verði endurskoðaður. „Ég bara held að þetta séu mistök hrein og klár,“ segir Hilmar. Hann minnir á kvikmyndastefnuna sem fallið hefur milli skips og bryggju. „Það getur ekki verið að í fjárlagafrumvarpi eigi bara að taka hana af, samþykkt af ríkisstjórn og lögð fram að ráðherra, bara í einu vetfangi. Ég bara trúi því ekki.“

Kristín tekur í sama streng. „Ég held bara að það hljóti að vera að þessi góða vinna sem fór fram og þessi stefna sem að var sett fram eftir mjög mikla og ítarlega vinnu þar sem atvinnulífið kom að borðinu og stjórnvöld og fagfólk úr okkar fagi. Þetta var gríðarlega mikil rýnivinna sem fór fram. Ég held að það hljóti að vera að þessi umræða verði tekin upp á grundvelli þess að minna á þessa góðu vinnu.“

HEIMILDruv.is
Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR