WIFT: Óttast að niðurskurðurinn bitni á stöðu kvenna í geiranum

WIFT, félag kvenna í kvikmyndum og sjónvarpi á Íslandi, hefur sent frá sér tilkynningu þar sem niðurskurður til Kvikmyndasjóðs er fordæmdur.

Tilkynningin er svohljóðandi:

Ákall til ríkisstjórnar Katrínar Jakobsdóttur,

WIFT, félag kvenna í sjónvarps- og kvikmyndagerð á íslandi, fordæmir frestun á fyrirhugaðri uppbyggingu kvikmyndaiðnaðarins og niðurskurð til kvikmyndamiðstöðvar.

Það vekur undran að skera niður þegar nýbúið er að leggja fram Kvikmyndastefnu til næstu 10 ára, setja á fót háskólanám í kvikmyndagerð í Listaháskólanum og setja upp nýjan
fjárfestingasjóð fyrir sjónvarpsþáttagerð?

Undanfarið hefur langþráð uppsveifla orðið í kvikmyndum eftir kvenleikstjóra sem hefur beðið hnekki í áraraðir. Loksins hefur sjónarhorn kvenna fengið að njóta sín í kvikmyndum í fullri lengd og sjónvarpsþáttaröðum.

Loforð um bjarta framtíð í nýrri stefnumótun kvikmyndaiðnaðarins til 2030 hljómuðu vel en með tillögum í nýju fjárlagafrumvarpi, sem gengur þvert á fyrrgreinda kvikmyndastefnu ríkisstjórnarinnar, óttumst við að niðurskurðurinn bitni á stöðu kvenna í geiranum. Ef núverandi tillögur ná fram að ganga er ljóst að framleiðsla dregst saman á næstu árum, með tilheyrandi afleiðingum.

Stjórn WIFT skorar á ríkisstjórn Íslands að endurskoða tillögur um fjármagn til kvikmyndagerðar, samþykkja ekki fjárlagafrumvarpið í óbreyttri mynd og tryggja þannig áframhaldandi uppvöxt fyrir allt íslenskt kvikmyndagerðarfólk.

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR