LÓA – GOÐSÖGN VINDANNA forseld víða

Sölufyrirtækið The Playmaker forseldi Lóu - goðsögn vindanna til margra landa á European Film Market sem fram fór samhliða nýyfirstaðinni Berlínarhátíð.

Variety skýrir frá.

Lóa – goðsögn vindanna er óbeint framhald teiknimyndarinnar Lói – þú flýgur aldrei einn (2018). Samkvæmt goðsögninni eru lóurnar sendiboðar vorsins og án þeirra kemur sumarið ekki á norðurhvel jarðar. Þegar heiminum er ógnað með endalausum vetri safnar ung hugsjónarík lóa saman hópi nýfleygra til að koma í veg fyrir áætlanir hinnar illu ísdrottningar. Lóa yfirgefur kærasta sinn og þægilegt líf þeirra í suðri til að halda norður í félagi við nýja vini sína til að takast á við ísdrottninguna og hinn ógurlega hrafnaher hennar, með það að markmiði að tryggja komu vorsins og uppfylla forna goðsögn.

Ottó Geir Borg og Árni Ólafur Ásgeirsson heitinn (sem leikstýrði fyrri myndinni) skrifuðu drög að handriti nýju myndarinnar, en síðan tók Gunnar Karlsson við því verki. Hann verður jafnframt leikstjóri verksins. Myndin er framleidd af Hilmari Sigurðssyni og Hauki Sigurjónssyni fyrir GunHil og meðframleidd af Viviane Vanfleteren og Veerle Appelmans hjá Vivi Films í Belgíu. Verkefnið nýtur stuðnings Kvikmyndamiðstöðvar Íslands. Áætluð frumsýning er á fyrri hluta árs 2026.

Dreifingaraðilar í Frakklandi, Póllandi, Grikklandi, Mið-Austurlöndum og N-Afríku, Eystrasaltslöndunum, Búlgaríu, fyrrum löndum Júgóslavíu og Tyrklandi hafa tryggt sér verkið.

HEIMILDVariety
Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR