Frá #metoo konum í sviðslistum og kvikmyndagerð: Yfirlýsingar eru ekki nóg

#metoo hópurinn sem á dögunum sendi frá sér yfirlýsingu undir heitinu Tjaldið fellur, hefur sent frá sér aðra yfirlýsingu þar sem viðbragða er krafist frá fagfélögum í kvikmyndagerð og sviðslistum.

Yfirlýsingin er svohljóðandi:

Síðustu sólarhringa hafa frásagnir kvenna af áreitni, mismunun og ofbeldi verið að líta dagsins ljós. Ljóst er að staðan er grafalvarleg. Margar konur innan stéttarinnar eiga erfitt með að vinna störf sín eða iðka nám sökum áreitni, ofbeldi eða kynbundinnar mismununar, þær vita ekki hvert þær eiga að leita þegar á þeim er brotið og fá í sumum tilvikum ekki stuðning þegar þær segja frá. Þar sem fastráðningar eru afar sjaldgæfar innan stéttarinnar eru langflestar konur sjálfstætt starfandi og það hefur ekki tíðkast að sjálfstæð sviðslista- eða kvikmyndaverkefni séu með trúnaðaraðila innbyrðis. Í stétt þar sem atvinnuöryggið er nær ekkert skiptir orðsporið öllu máli. Því miður eru fordæmi fyrir því að konur sem staðið hafa á rétti sínum, ásamt konum sem látið hafa vita af ofbeldi sem þær eru beittar, fái á sig orð fyrir að vera erfiðar í samstarfi með tilheyrandi tekjutapi og útskúfun. Gerendur sem hafa verið reknir vegna áreitni eða ofbeldis á einum stað eru einfaldlega ráðnir annars staðar. Mikil hreyfing er á fólki í stéttinni og konur eiga sífellt von á að vinna með geranda sínum í næsta verkefni. Þetta stuðlar ennfremur að þöggun. Mikið verk er fyrir höndum ef konur eiga að njóta sömu tækifæra og karlar í okkar stétt. Sú orka sem konur þurfa að verja í að takast á við óviðeigandi athugasemdir, káf, klípingar, niðurlægjandi hegðun og ofbeldi er ólíðandi og heldur aftur af þeim bæði í leik og starfi.

Síðustu sólarhringa hafa stofnanir og samtök brugðist við með því að senda frá sér yfirlýsingar, þótt sumsstaðar ríki enn ærandi þögn, til að mynda í Menntamálaráðuneyti og Kvikmyndaskóla Íslands. Síðasta yfirlýsingin kom frá SAVÍST, nam einungis 74 orðum og vekur fleiri spurningar en hún svarar. Við krefjumst þess að orðum fylgi athafnir og skorum á fagfélögin okkar um að svara neyðarkallinu sem konur í stéttinni hafa sent út.

Við beinum orðum okkar til ykkar:

Birna Hafstein, Félag íslenskra leikara
Friðrik Þór Friðriksson, Samtök kvikmyndaleikstjóra
Fahad Jabali, Félag kvikmyndagerðarmanna
Irma Gunnarsdóttir, Félag íslenskra listdansara
Katrín Gunnarsdóttir, Danshöfundafélag Íslands
Kristinn Þórðarson, Samband íslenskra kvikmyndaframleiðanda
Margrét Örnólfsdóttir, Félag leikskálda og handritshöfunda
Páll Baldvin Baldvinsson, Félag leikstjóra á Íslandi
Rebekka Ingimundardóttir, Félag leikmynda- og búningahönnuða

Sem formenn fagfélaganna sem gæta hagsmuna okkar skorum við á ykkur að kynna umbótatillögur innan þriggja mánaða, sem unnar eru af hópi þar sem hvert fagfélag á sér fulltrúa. Í anda lýðræðis og gagnsæis leggjum við til að meðlimir hvers fagfélags fái að tilnefna fulltrúa á sínum vegum og að þið auglýsið eftir slíkum tilnefningum innan ykkar raða.

Berist ábending þess efnis að tilnefndir fulltrúar séu vanhæfir til að gegna þessu hlutverki verði tekið mark á því, enda er það síst til þess valdið að vekja traust ef sjálf umbótavinnan er sett í hendur gerenda. Þá viljum við að þolendur innan okkar raða fái að samþykkja og leggja til breytingar á þeim umbótum sem verða til í ferlinu áður en til framkvæmda kemur, enda vita þær best hverjar þarfir þolenda eru.

Tjaldið er fallið og tími aðgerða er runninn upp.

Fyrir hönd #metoo kvenna í sviðslistum og kvikmyndagerð,

Þórdís Elva Þorvaldsdóttir
Hreindís Ylva Garðarsdóttir Holm
Anna Lísa Björnsdóttir
Ósk Gunnlaugsdóttir
Silja Hauksdóttir
Sara Marti Guðmundsdóttir
Brynhildur Björnsdóttir

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR