Svar við bréfi Guðrúnar

Grein mín um hvernig konum í leikstjórastóli hefur fjölgað á undanförnum árum var ekki beint hugsuð sem svar við grein/útvarpspistli Guðrúnar Elsu Bragadóttur sem ber fyrirsögnina Konur leikstýra aðeins 10% íslenskra kvikmynda. Frekar má segja að hún hafi verið innblástur til að skoða málin frá öðru og nærtækara sjónarhorni. En Guðrún hefur skrifað svargrein og hér er svar við henni.

Ég þekki ágætlega til þeirrar sögu sem Guðrún vísar til og geri ekki athugasemdir við niðurstöður hennar nema að einu leyti. Kem að því rétt strax.

Já, konur hafa leikstýrt fáum bíómyndum

Að sjálfsögðu er ljóst að konur hafa leikstýrt fáum íslenskum bíómyndum ef litið er yfir söguna. Þetta eru ekki beinlínis tíðindi.

Þær niðurstöður rannsóknar Guðrúnar að konum hafi fækkað í ýmsum öðrum baksviðsstörfum íslenskrar kvikmyndagerðar á undanförnum árum komu mér þó á óvart. Þá er væntanlega átt við hlutfallslega því myndum og þeim sem gera þær hefur fjölgað mjög eftir aldamót. Það er þarft að fá svona tölur fram, en mikilvægt að þetta sé skýrt og gegnsætt.

Það sem ég hinsvegar hnaut um í grein Guðrúnar var þetta, sem hún orðar svo í svargrein sinni:

„Ég geng reyndar líka svo langt að uppfæra tölur Hagstofunnar svo að síðustu tvö ár áratugarins sem var að líða séu tekin með, en komst því miður að þeirri niðurstöðu að tölfræðin stendur óbreytt.“

Ef þú bætir þessum tveimur árum við hið áratuga stóra mengi (1949-2017) þá breytist hlutfall auðvitað ekki að marki.

Að beita þessari aðferð kann að vera freistandi þegar viðkomandi vill undirstrika niðurstöður sínar. Þetta er ekki rangt í sjálfu sér en getur verið að það sé pínulítið misvísandi? Hefur myndum kvenna ekki fjölgað á undanförnum árum eins og Guðrún ýjar að?

Mér fannst forvitnilegt að skoða þetta, þar sem ég fylgist ágætlega með íslenskri kvikmyndagerð. Ég spurði mig hvort þetta gæti verið, hvort öll þessi umræða um þátttöku kvenna í lykilpóstum kvikmyndagerðar sem staðið hefur í um áratug, hafi ekki skilað neinu.

Myndum eftir konur hefur fjölgað á undanförnum árum

Uppstilling Guðrúnar dregur ekki fram þá þróun sem átt hefur sér stað undanfarin ár og heldur áfram.

Lesandi/hlustandi fær því þá mynd af stöðunni að hún hafi versnað uppá síðkastið. Raunin er önnur varðandi myndir kvenna eins og samantekt mín sýndi frammá. Þeim hefur fjölgað. Miðað við að ljóst er af skrifum Guðrúnar að hún er áfram um málstaðinn mætti ætla að hún fagnaði þessu. Það er ekki svo og athyglisvert út af fyrir sig.

Það er villandi að segja í fyrirsögn að konur leikstýri 10% islenskra kvikmynda (Hagstofan, sem Guðrún vísar til, segir reyndar 12-13% eftir því við hvaða tímabil er miðað). Nákvæmara væri að segja að konur hefðu lengst af leikstýrt litlum hluta íslenskra kvikmynda (staðan er breytileg eftir tímabilum), en á undanförnum árum hefði hlutfallið hækkað mikið, um það bil tvöfaldast sé miðað við 2016-2019.

Hún gagnrýnir mig fyrir að „handvelja tímabil“ og gefur þannig í skyn að ég sé að velja tímabil eftir minni hentisemi til að þjóna einhverjum málstað. Þetta stenst auðvitað ekki skoðun. Ég er að skoða síðustu ár og spyrja hvort myndum kvenna hafi fjölgað á þeim tíma. Það er alveg skýrt í greininni.

Til samanburðar tek ég tíu ár þar á undan. Samanburðurinn sýnir ákveðna þróun. Alveg eins má skoða síðustu 35 ár þar á undan, síðustu fimm ár þar á undan, eða jafnvel fara alla leið til 1949 eða 1924 (íslensk kvikmyndasaga er pínu snúinn varðandi upphafspunkta), hlutföllin myndu ekki breytast að ráði, eins og kemur fram í upphaflegri grein Guðrúnar.

Ég valdi að skoða tímabilið frá 2016 vegna þess að ár hófst áhugaverður kafli í íslenskri kvikmyndasögu, sem ég uppgötvaði þegar ég var að skoða gögnin. Þarna hófst semsagt árleg samfella í myndum eftir konur sem ekki hefur áður verið jafn löng, séu væntanlegar myndir kvenkyns leikstjóra teknar með, sem er ekki óeðlilegt tel ég þar sem tökum á þeim flestum er lokið og sumar tilbúnar og hafa verið boðaðar á þessu ári, aðrar á næsta, enn aðrar er óvíst um á þessu stigi. Þetta hefur ekki áður gerst í þessum mæli.

Áður hefur verið eitt fjögurra ára tímabil (2001-2004) þar sem ein mynd á ári eftir kvenkyns leikstjóra kom fram, alls fjórar. En sú samfella slitnaði. 2016-2019 komu út sex myndir eftir kvenleikstjóra.

Auk fjölgunarinnar á síðustu árum er þetta hinsvegar vísbending um að breytingar séu að eiga sér stað. Það þýðir ekki að ég sé að segja að allt sé í himnalagi, eins og Guðrún ýjar að, til dæmis með þessari setningu:

„Ástæðan fyrir því að ég læt þessa tölfræði ekki vera og hugsa um eitthvað annað er hættan á því að fólk fari að ímynda sér að staða kvenna sé að lagast smám saman og að við þurfum ekkert að pæla í því meir.“

Þetta er kunnugleg aðferð og kallast að gera fólki upp skoðanir. Reistur er strámaður og hann felldur glæsilega.

Ögn um mælskulist og melódramatík

Guðrún virðist telja að mitt agenda með greininni snúist á einhvern hátt um að villa um fyrir fólki. Að þar megi

„greina mælskulist, svokallaða. Það sem er undir eru ekki upplýsingar, heldur það hvernig þær eru settar fram svo áhrifin verði sem mest.“

Og síðar heldur hún áfram í sama dúr:

„Í raun er það merkilegasta við grein Ásgríms að aðferðir hans hafi ekki málað stöðu kvenna enn bjartari og uppörvandi litum, vegna þess að sama hvað hann reynir— og hann seilist lengra en nokkur málefnaleg umræða þolir, þ. á m. að spá í spilin um mögulega framtíð og að taka með óútkomnar myndir, en frumsýning þeirra gæti frestast eins og oft er raunin—þá eru heimturnar furðu fátæklegar.“

Áhugaverð viðbrögð. Það sem vakti fyrir mér var að skoða hvernig þróunin hefur verið á undanförnum árum. Hefur eitthvað breyst? Hversvegna velur Guðrún að gera mér upp einhverskonar undirliggjandi agenda? Telur hún rangt að spyrja þessarar spurningar? Getur hún hrakið þau gögn sem sýna að myndum kvenna hafi fjölgað á undanförnum árum? Sjálf viðurkennir hún í svargrein sinni að fjölgun hafi orðið:

„En ef við tökum þessar tvær með telst mér svo til að um fjórðungur frásagnarkvikmynda í fullri lengd á tímabilinu 2016–2020 sé leikstýrt eða meðleikstýrt af konu, sem er vissulega fínt hlutfall, en spannar bara fimm ár.“

Fínt hlutfall segir Guðrún. Hennar orð, ekki mín. Ég legg aðeins fram gögnin, geri grein fyrir forsendum þannig að lesandinn geti séð hvað ég er að vísa til og set fyrirvara þar sem þörf er.

Síðan bæti ég við þeim myndum kvenna sem eru væntanlegar á næstu mánuðum og misserum (að sjálfsögðu gerði ég grein fyrir þeim möguleika að sýningartímar gætu færst til á þeim, sem og á öðrum myndum). Um leið er verið að halda áfram að undirbúa næstu verkefni, bæði kven- og karlleikstjóra. Og svo videre. Þróunin síðustu ár bendir til þess að þátttaka kvenleikstjóra og einnig kvenhandritshöfunda verði áfram mun meiri en áður var.

Guðrún gagnrýnir það einnig og aftur missir hún marks. Það er eðlilegt að nefna þessi verk til að sýna hvert stefnir. Þetta eru ekki verkefni sem eru í kollinum á fólki, þetta eru verkefni sem flest hafa verið tekin upp og eru í eftirvinnslu eða jafnvel tilbúin. Ég var einfaldlega að benda lesendum á hvert stefnir í kjölfar mikillar umræðu um þessi mál um árabil og viljayfirlýsinga um að freista þess að laga stöðuna. Þetta snýst um að gefa lesandanum hugmynd um það sem er í gangi og það sem er framundan. Ég aðgreindi þessi verk frá þeim sem þegar eru komin út, lesandinn gat því metið þetta sjálfur.

Varðandi leiknu þáttaraðirnar nefni ég þær vegna þess að mikil aukning hefur orðið í gerð þeirra á undanförnum árum. Segja má að regluleg framleiðsla þeirra hafi byrjað 2007 með Næturvaktinni og Pressu.

Hvernig skal skoða hvort aukning hafi orðið?

Smá talnaleikur, annað sjónarhorn á tölurnar. Ég skal reyna að vera skýr með forsendurnar.

Í skýrslu Hagstofunnar frá 2018, sem Guðrún leggur útaf, eru nefndar fjórar myndir kvenna 2010-2017. Það er reyndar ekki alveg nákvæmt, þarna hefur væntanlega gleymst kvikmyndin L7: Hrafnar, sóleyjar og myrra (2011) eftir Eyrúnu Ósk Jónsdóttur og Helga Sverrisson. Hinar eru Kóngavegur, Sundáhrifin, Svanurinn og Sumarbörn.

Myndirnar eru því fimm á þessum átta árum, eða rétt rúmlega 0,6 á ári (0,5 ef fjórar myndir). Skýrslan kom út 2018 og nær því ekki lengra.

2018-2019 eru sýndar 3 myndir kvenna, eða 1,5 á ári. Litlar tölur og stutt tímabil já, en veruleg aukning. Og athugið að þetta hlutfall hefur aldrei verið svona hátt áður. Þessi fjögur ár sem ég nefndi áðan (2001-2004) var hlutfallið 1 mynd á ári.

Þetta er vísbending um að myndum sé að fjölga og þegar væntanlegar myndir kvenna eru teknar inn í mengið, alls sjö talsins, verður hlutfallið mun hærra, eða 2,5 myndir eftir konur á ári að meðaltali 2018-2021. Það er verulegt stökk frá 0,6 myndum á ári. Sé bætt einu ári við væri hlutfall sama fjölda mynda 2 á ári. Einnig mikil aukning, en um leið mætti spyrja hvort þá hefðu ekki bæst við einhverjar myndir eftir konur og hvort þær hefðu áhrif á þetta hlutfall. Aftur, ég er ekki að segja að þetta sé svona, ég er að segja að það er líklegt að þetta verði svona.

Þessi uppstilling segir hinsvegar ekki til um hlutfallið milli mynda karla og kvenna, né um hlutfallslega aukningu mynda eftir konur. Það er að finna í grein minni.

Ef við sleppum hinum væntanlegu myndum eftir konur og skoðum eingöngu þessi fjögur ár 2016-2019 miðað við til dæmis fjögur árin þar á undan og einnig átta árin þar á undan, lítur dæmið svona út:

2012-2015: Alls 0 myndir.

2008-2015: Alls 4, eða 0,5 á ári.

2016-2019: Alls 6 myndir, eða 1,5 á ári. Það er fjórföldun frá meðaltali síðustu átta ára þar á undan.

Aðrar samanburðartölur má prófa. Niðurstaðan verður aukning á undanförnum árum.

Hverjum finnst þetta fínt? Sjálfur nefni ekkert um það. Guðrúnu finnst hinsvegar fjórðungshlutur kvenna vera „fínt hlutfall“.

Fínt að ræða málin, en ég hlýt að frábiðja mér orðagjálfur um „melódramatík“, „mælskulist“ og „krassandi tölur“ og að mér séu gerð upp einhver annarleg sjónarmið. En það er ágætt að Guðrún viðurkennir að stunda hártoganir. Eftir stendur óhrakið að myndum eftir konur hefur fjölgað á undanförnum árum og margar vísbendingar eru um að sú þróun haldi áfram.

Það þýðir hvorki að allt sé í fína lagi og enn síður að þessi mál séu af dagskránni.

Ásgrímur Sverrisson
Ásgrímur Sverrisson
Ásgrímur Sverrisson er kvikmyndagerðarmaður og ritstjóri Klapptrés.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR