Baltasar: Heilla­vænna að kvik­mynda­gerðar­menn horfi fram á veg­inn og bæti það sem bet­ur má fara í stað þess að ráðast hver gegn öðrum

Baltasar Kormákur ásamt Robert Richardson tökumanni (til hægri) við tökur á Adrift á Fiji eyjum (Mynd: Heimir Sverrisson).

Baltasar Kormákur ræðir við Morgunblaðið um Ófærð 2, deilurnar um úthlutun til verkefnisins, tökurnar á Adrift sem er lokið og verkefni framundan.

Fram kemur að tökur á annarri syrpu Ófærðar hefjist eftir tvær vikur á Siglufirði og nágrenni. Baltasar mun leikstýra tveimur þáttanna, Börkur Sigþórsson og Óskar Þór Axelsson snúa aftur og Ugla Hauksdóttir bætist í leikstjórahópinn.

Hér eru brot úr viðtalinu:

Um Ófærð 2:

„Þáttaröðin ger­ist meira á Sigluf­irði og í sveit­inni þar í kring og í Reykja­vík.“

–Verður þá ekki ófært í Ófærð 2?

Baltas­ar hlær. „Nei, nú er það meira svona „trapp­ed“,“ seg­ir hann og vís­ar þar í ensk­an titil þátt­araðanna. Fólk verði fast í bæn­um, öll sund lokuð líkt og í fyrri syrpu.

Baltas­ar átti hug­mynd­ina að sögu beggja þátt­araða og Sig­ur­jón Kjart­ans­son og Bret­inn Cli­ve Bra­dley skrifa hand­rit Ófærðar 2, líkt og fyrri seríu auk þess sem glæpa­sagna­höf­und­ur­inn Yrsa Sig­urðardótt­ir og Mar­grét Örn­ólfs­dótt­ir koma einnig að skrif­um nýju syrp­unn­ar. „Það var mjög gott að fá þær á sín­um tíma og Yrsa er ágæt­lega að sér í jarðeðlis­fræði sem kem­ur að góðum not­um,“ seg­ir Baltas­ar kím­inn, um aðkomu þeirra Yrsu og Mar­grét­ar. Ekki má fara nán­ar út í þá sálma, hvernig jarðeðlis­fræði mun koma við sögu.

Baltas­ar er spurður að því hvort mik­ill mun­ur verði á serí­un­um tveim­ur og seg­ir hann að mun­ur­inn verði hæfi­leg­ur. „Mig lang­ar ekki að end­ur­taka of mikið en vil þó ekki fara með þetta í allt annað þorp eða á allt ann­an stað.“

Um deilurnar um úthlutun til Ófærðar 2:

Ófærð 2 hlaut vil­yrði fyr­ir 60 millj­óna kr. styrk úr Kvik­mynda­sjóði þó að ekki væri búið að klára hand­rit að öll­um þátt­un­um, sem mun vera skil­yrði, eins og fjallað hef­ur verið um í fjöl­miðlum. Hver er þín afstaða í þessu máli?

„Regl­ur úr­eld­ast oft, eins og við vit­um, og menn eru oft að bera sam­an þátt­araðir með fjór­um þátt­um ann­ars veg­ar og tíu þátt­um hins veg­ar. Í heimi sjón­varpsþátta er eng­inn að skrifa tíu þætti og fer svo og reyn­ir að fjár­magna þá. Þetta eru 600 bls. eða þar um bil, rosa­lega mik­il vinna og það er eng­in sjón­varps­stöð sem fer fram á að hand­rit allra þátt­anna séu full­kláruð. Þú skrif­ar yf­ir­leitt „pi­lot“ [fyrsta þátt­inn, innsk.blm.] og svo söguþráðinn áfram og þannig er þetta yf­ir­leitt selt. Við selj­um serí­una á fjór­um þátt­um út um all­an heim, t.d. til BBC og ZDF, stærstu rík­is­sjón­varps­stöðvanna í Evr­ópu. Þær kaupa hana út frá fjór­um þátt­um,“ svar­ar Baltas­ar. „Þessi krafa sjóðsins er í raun al­gjör­lega úr­elt, það eru gerðar meiri kröf­ur um skil á efni í sjóðnum en eru gerðar hjá sjón­varps­stöðvum er­lend­is sem kaupa efnið. Þetta er hvergi ann­ars staðar gert,“ bæt­ir hann við.

–Og það er enn verið að vinna í hand­rit­un­um þegar tök­ur eru hafn­ar, ekki satt?

„Jú, það er verið að þróa þau og breyta þeim og þetta er svo mik­ill mis­skiln­ing­ur, þessi krafa um full­klárað hand­rit. Það hafa aldrei verið fjár­mögnuð full­kláruð hand­rit á Íslandi vegna þess að þú skrif­ar hand­ritið, færð fjár­magn og ert svo að vinna áfram í hand­rit­inu og laga það fram á síðasta dag. Það er verið að ráðast þarna á sjón­varpsþáttaröð sem er senni­lega með meira áhorf er­lend­is en allt ís­lenskt sjón­varps­efni sam­an­lagt,“ svar­ar Baltas­ar. Lands­lagið sé orðið gjör­breytt frá því sem áður var hvað varðar ís­lenska sjón­varpsþætti og styrk­ur­inn til Ófærðar hafi skilað sér marg­falt til baka. „Við erum að koma með pen­inga inn í landið,“ seg­ir Baltas­ar. Það hafi verið óþægi­legt að fylgj­ast með þess­ari umræðu á Íslandi á meðan hann hafi verið í tök­um á Fídjieyj­um og ekki haft tíma til að blanda sér í hana. „Ég tel það heilla­vænna að kvik­mynda­gerðar­menn horfi fram á veg­inn og bæti það sem bet­ur má fara í reglu­um­hverfi sjóðsins í stað þess að ráðast hver gegn öðrum og hengja sig í orðhengils­hátt og úr­elt­ar reglu­gerðir.“

Um Adrift:

Berst þá talið að Adrift, kvik­mynd­inni sem Baltas­ar lauk ný­verið tök­um á en þær fóru fram á Fídjieyj­um í fjóra mánuði og á Nýja-Sjálandi í mánuð. Hand­rit mynd­ar­inn­ar er byggt á sönn­um at­b­urði og seg­ir af ungu pari sem tók að sér að sigla skútu frá Tahítí til San Diego og lenti í versta felli­byl sög­unn­ar á leiðinni. Kon­an, Tami Old­ham, lifði af en unnusti henn­ar, Rich­ard Sharp, drukknaði. Með hlut­verk Old­ham og Sharp fara tvær ung­ar Hollywood-stjörn­ur, Shai­lene Woodley og Sam Clafl­in.

Baltas­ar seg­ir tök­urn­ar hafa gengið rosa­lega vel en þær fóru að stór­um hluta fram á sjó. „Ég var með einn flott­asta kvik­mynda­töku­mann í heimi, Robert Rich­ard­son, þannig að þetta var rosa­lega skemmti­legt,“ seg­ir Baltas­ar en Rich­ard­son hef­ur hlotið Óskar­sverðlaun fyr­ir bestu kvik­mynda­töku þris­var sinn­um, fyr­ir JFKAviator og Hugo og verið til­nefnd­ur sex sinn­um til viðbót­ar. „Við átt­um al­veg frá­bært sam­starf,“ seg­ir Baltas­ar um Rich­ard­son. Nú taki við klipp­ing á Adrift og þar sé einnig Óskar­sverðlauna­hafi á ferð, John Gil­bert, sem hlaut Óskar­inn á þessu ári fyr­ir klipp­ingu á Hacksaw Ridge. „Hann er í næsta her­bergi að klippa,“ seg­ir Baltas­ar og bend­ir í átt­ina að klippi­her­berg­inu.

„Við ákváðum að gera þetta eins raun­veru­legt og hægt væri þannig að þetta var eins erfitt og það gat orðið,“ seg­ir Baltas­ar um tök­urn­ar. Hann hafi fengið ný­sjá­lenska sigl­ingakappa til liðs við sig. „Gaur­ar sem kunna þetta vel voru að aðstoða mig og ég er nátt­úr­lega sigl­ingamaður sjálf­ur, var marg­fald­ur Íslands­meist­ari hérna í gamla daga,“ bæt­ir hann við.

–Hvernig var þetta gert?

„Þú skýt­ur nátt­úr­lega ekki í felli­byl þannig að þú verður að búa til þann hluta en stór hluti af þessu var tek­inn upp á bátn­um, 60 feta skútu. Í sum­um tök­un­um vor­um við með mynda­vél­ina og tök­uliðið á skút­unni og það voru mik­il þrengsli, 20 manns á svona báti að vinna. Það voru all­ir æl­andi fyrsta dag­inn, leik­ar­arn­ir köstuðu upp og svo var bara kallað „acti­on!“,“ seg­ir Baltas­ar og glott­ir. „Svo vor­um við með ann­an risa­stór­an bát með krana á og sigld­um hon­um með skút­unni og tók­um upp. Við tók­um líka upp neðan­sjáv­ar,“ bæt­ir hann við og að ým­is­legt hafi svo þurft að gera með tölvu­brell­um.

Sjá nánar hér: Tökur hefjast brátt á Ófærð 2

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR