Norski leikstjórinn Morten Tyldum (The Imitation Game) hyggst ráðast í gerð þáttaraðar sem byggð verður á bók Bergsveins Birgissonar, Leitin að svarta víkingnum. Paramount Pictures og Anonymous Content framleiða. Þættirnir verða á ensku en Tyldum vonast til að filma í Noregi.
Greint er frá þessu á vef NRK, norska ríkisútvarpsins.
Leitin að svarta víkingnum er fræðibók sem fyrst kom út í Noregi 2013, en á Íslandi 2016. Hún er byggð á áralöngum rannsóknum Bergsveins sem er doktor í norrænum fræðum. Þar er sagt frá Geirmundi heljarskinni, einum landnámsmanna Íslands, æsku hans og uppvexti í Noregi, ferðum hans til Bjarmalands (Hvítahaf), viðkomu hans í víkingaborginni Dyflinni á Írlandi og loks landnámi hans á Íslandi, þar sem stór hluti sögunnar gerist.
Bergsveinn skrifaði jafnframt skáldsögu um sama efni, Geirmundar sögu heljarskinns, sem út kom 2015.
Óhætt er að segja að hér er um stórbrotið efni að ræða, en bækurnar freista þess að draga upp nýja mynd af þeim atburðum sem leiddu til landnáms Íslands.
Tyldum, sem síðast gerði Passengers með Jennifer Lawrence og Chris Pratt, segir að hver syrpa muni kosta á bilinu 8-11 milljarða íslenskra króna, sem er á pari við dýrustu þáttaraðir. Ekki kemur fram um hversu margar syrpur sé að ræða.
Hann segir endurgreiðslumál hafa mikil áhrif á hvar verði filmað og að hið norska kerfi verða að taka breytingum ef filma eigi þar. Tyldum bendir jafnframt á að íslensku og írsku endurgreiðslukerfin séu afar góð.
Sjá nánar hér: Stjerneregissør skal lage ny vikingserie – NRK Kultur og underholdning – Nyheter og aktuelt stoff