Sænskur leikstjóri gerir mynd á íslensku

Maximilian Hult leikstjóri ásamt skriftunni Áslaugu Konráðsdóttur (standandi). Sitjandi frá vinstri: leikararnir Jóel I Sæmundsson, Þóra Karítas Árnadóttir og Björn Thórs. (mynd: Sigga Ella, Copyright: LittleBig Productions 2017.)

Tökur standa nú yfir hér á landi á mynd sænska leikstjórans Maximilian Hult, Pity the Lovers. Leikarar eru íslenskir og myndin á íslensku. Myndin er framleidd af Önnu G. Magnúsdóttur og Anders Granström hjá sænska framleiðslufyrirtækinu Little Big Productions í samvinnu við Guðrúnu Eddu Þórhannesdóttur og Friðrik Þór Friðriksson hjá Hughrif. Sömu aðilar gerðu hér kvikmyndina Hemma fyrir nokkrum árum.

Með helstu hlutverk fara Björn Thors, Jóel I. Sæmundsson, Sara Dögg Ásgeirsdóttir, Sigurður Karlsson, Edda Björgvinsdóttir, Þóra Karítas Árnadóttir og Hafdís Helga Helgadóttir.

Pity the Lovers fjallar um bræðurna Óskar (Björn Thors)) og Magga (Jóel Sæmundsson). Báðir eiga í vandræðum með náin sambönd en glíma við það á mismunandi veg. Óskar forðast að bindast ðrum en Maggi stundar skammtímasambönd af krafti.

“Upphaflega stóð til að gera myndina í Svíþjóð,” segir Anna G. Magnúsdóttir framleiðandi, “en þegar fyrir lá að fresta þyrfti tökum um ár vegna fjármögnunarmála ákváðum við að gera myndina á Íslandi og brúa það sem uppá vantaði með 25% endurgreiðslunni.”

Hult tók upp kvikmyndina Hemma hér á landi fyrir nokkrum árum, en í því tilfelli var sögusviðið Svíþjóð og leikarar sænskir. “Ég verð að viðurkenna að ég hafði ákveðnar áhyggjur af því að leikstýra íslenskum leikurum á tungumáli sem ég tala ekki sjálfur,” segir hann, “en þær áhyggjur hurfu um leið og ég hafði valið leikarana og við byrjuðum að vinna.”

Stefnan er að sýna myndina á næsta ári. Sena dreifir myndinni hér á landi en Green Lighting Studio í Svíþjóð annast alþjóðlega sölu.

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR