Andlát | Sigurður Pálsson

Sigurður Pálsson rithöfundur er látinn, 69 ára að aldri. Hann lést á Landspítalanum í gær eftir erfið veikindi.

Siguður nam kvikmyndaleikstjórn í Frakklandi á áttunda áratugnum og stýrði meðal annars tveimur sjónvarpskvikmyndum, Bleikum slaufum (1985) og Nóttin, já nóttin (1989). Þá var hann meðhandritshöfundur og framleiðandi tveggja kvikmynda eiginkonu sinnar Kristínar Jóhannesdóttur, Á hjara veraldar (1983) og Svo á jörðu sem á himni (1992).

Á vef RÚV er fjallað um Sigurð svo:

Sigurður fæddist 30. júlí 1948 á Skinnastað í Norður-Þingeyjarsýslu. Hann lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum í Reykjavík og stundaði frönskunám í Toulouse og París í Frakklandi og nam leikhúsfræði og bókmenntir við Sorbonne háskóla.

Sigurður fékkst við ýmis störf. Hann var fréttaritari, leiðsögumaður og kennari og vann við sjónvarp og kvikmyndir. Sigurður fékkst þó einkum við ritstörf og þýðingar. Hann var forseti Alliance Française og formaður Rithöfundasambands Íslands.

Sigurður var einn af Listaskáldunum vondu 1976. Hann gaf út fjölmargar ljóðabækur, sú fyrsta kom út 1975 undir heitinu Ljóð vega salt. Ljóðabókin Ljóð námu völd var tilnefnd til Bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs árið 1993. Sigurður hlaut Íslensku bókmenntaverðlaunin fyrir Minnisbók árið 2007 og hafði þá áður verið tilnefndur fyrir ljóðabækurnar Ljóðlínuskip (1995) og Ljóðtímaleit (2001). Sigurður skrifaði einnig skáldsögur og fékkst við leikritasmíð, skrifaði sjónvarps- og útvarpshandrit og óperutexta. Ljóðabækur hans hafa verið þýddar á fjölmörg erlend tungumál, m.a. búlgörsku og kínversku. Árið 1994 kom út tvítyngd útgáfa ljóða hans hjá Editions de la Différence í París í þýðingu Régis Boyer, deildarforseta skandínavískudeildar Sorbonne háskóla. Stórt úrval ljóða Sigurðar í enskri þýðingu kom út árið 2014 undir titlinum Inside Voices, Outside Light.

Sigurður var valinn borgarlistamaður Reykjavíkurborgar á tímabilinu 1987-1990, hann hlaut riddarakross Orðu lista og bókmennta (Chevalier de l’Ordre des Arts et des Lettres) af menningarmálaráðherra Frakklands árið 1990, og Frakklandsforseti sæmdi hann riddarakrossi Frönsku heiðursorðunnar (Chevalier l’Ordre National du Mérite) árið 2007. Loks hlaut hann verðlaun Jónasar Hallgrímssonar á degi íslenskrar tungu 2016.

Eftirlifandi eiginkona Sigurðar er Kristín Jóhannesdóttir kvikmyndaleikstjóri.

HEIMILDRÚV
Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR