spot_img

Þáttaröðin “Flateyjargáta” verður sýnd á öllum Norðurlöndunum

Björn Brynjúlfur Björnsson (til hægri) og Viktor Arnar Ingólfsson (til vinstri) handsala samninginn um að gera sjónvarpsseríu eftir bók rithöfundarins, Flateyjargátu, árið 2009. (Mynd/JPV)

Allar norrænu ríkissjónvarpsstöðvarnar YLE, SVT, NRK og DR hafa samið við Sagafilm, Reykjavík Films og RÚV um sýningarrétt á fjögurra þátta röð sem byggð er á metsölubók Viktors Arnars Ingólfssonar, Flateyjargátu.

Söguþræði bókarinnar, sem kom út 2002, er svo lýst:

Þegar lík finnst í útskeri á Breiðafirði 1. júní 1960 er óreyndur fulltrúi sýslumannsins á Patreksfirði sendur á vettvang til að kanna málið. Rannsóknin vindur upp á sig og teygir anga sína til Reykjavíkur og annarra landa. Miðpunktur sögunnar er þó í Flatey og bókin sem við eyna er kennd, Flateyjarbók, gegnir lykilhlutverki við lausn gátunnar.

Handrit skrifa Margrét Örnólfsdóttir og Sólveig Arnarsdóttir og Edduverðlaunahafinn Björn B. Björnsson (Köld slóð) leikstýrir. Björn hefur áður gert þáttaröð eftir annarri skáldsögu Viktors Arnars, Aftureldingu. Þættirnir voru sýndir á RÚV 2008 undir heitinu Mannaveiðar.

Skrifað var undir réttindasamning haustið 2009 og verkefnið því verið lengi í þróun. Í viðtali við Fréttablaðið þann 3. október 2009 kom eftirfarandi meðal annars fram:

Björn viðurkennir að þetta samkomulag komi kannski ekki á besta tíma en eins og lesa má framar í Fréttablaðinu verða framlög til sjónvarps- og kvikmyndagerðar skorin niður um rúman þriðjung samkvæmt fjárlagafrumvarpi næsta árs. Björn segist hins vegar vera vongóður og ætlar ekki að leggja árar í bát. „Þetta er flott saga sem hefur verið gefin út víða í Evrópu og ég vænti mjög góðs af þessu samstarfi.“

Björn segir það hafa heillað sig að Flateyjargátan sé óvenjuleg bók, hún gerist að mestu leyti úti í Flatey og tengist íslensku handritunum. „Það er svona smá Da Vinci-tenging og svo eru líka óvenjulegar og skemmtilegar persónur og óvenjulegt sögusvið. Það er alltaf gaman að gera eitthvað sem er svona mikið öðruvísi og sýnir ekki bara lögreglumenn hlaupandi um götur Reykjavíkur.“

Hilmar Sigurðsson forstjóri Sagafilm segir í tilefni undirritunar samninga við norrænu sjónvarpsstöðvarnar:

“Við erum mjög stolt af sölu sýningarréttar Flateyjargátu til norrænu ríkissjónvarpsstöðvanna, þetta staðfestir áhugann og eftirspurnina eftir góðu íslensku sjónvarpsefni á alþjóðavísu og þessi forsala opnar ný tækifæri til að fjármagna íslenskt leikið efni,”

Skarphéðinn Guðmundsson, dagskrárstjóri RÚV, bætir við:

“Flateyjargáta er þriðja verkefni RÚV í röð sem allar norrænu ríkisstöðvarnar kaupa sýningarréttinn af. Gæði íslensks sjónvarpsefnis vaxa stöðugt og erum við hjá RÚV stolt af því að vera virkur þátttakandi í þeim gríðarlega vexti sem kvikmyndaiðnaðurinn hefur notið á Íslandi undanfarin misseri.”

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR