spot_img

Hilmar Sigurðsson hjá Sagafilm: „Það má alltaf gera betur og við erum að því“

Hilmar Sigurðsson forstjóri Sagafilm. (Mynd: Eva Björk Ægisdóttir)

Samruni framleiðslufyrirtækjanna Sagafilm og GunHil tók formlega gildi um mánaðamótin síðustu Viðskiptablaðið ræðir við Hilmar Sigurðsson forstjóra Sagafilm um stöðuna og verkefnin framundan.

Þar segir m.a.:

Að sögn Hilmars eru verkefnin hjá sameinuðu fyrirtæki fjölmörg. GunHil vinnur nú að framleiðslu kvikmyndarinnar „Lói – þú flýgur aldrei einn“, sem er tölvugerð teiknimynd fyrir alþjóðamarkað. Hún verður frumsýnd á Íslandi um næstu jól en hefur jafnframt verið seld til kvikmyndahúsa í 63 löndum. Hjá Sagafilm er fjöldinn allur af stórum verkefnum í vinnslu, þ.á m. sjónvarpsþáttaröðin Stella Blómkvist sem fer í sýningar hjá Sjónvarpi Símans í haust. Þá verður fljótlega ráðist í tökur á kvikmyndinni „Víti í Vestmannaeyjum“ sem byggð er á barnabók eftir Gunnar Helgason.

Hilmar segir að einnig sé verið að leggja lokahönd á fjármögnun á annarri sjónvarpsþáttaröð sem stefnt er að fari í tökur næsta haust. Þar að auki vinnur Sagafilm að hinum ýmsu verkefnum fyrir allar íslensku sjónvarpsstöðvarnar og fjölda erlendra aðila. Hilmar bætir því við að Sagafilm hafi nýlega sent frá sér heimildarmyndina „Out of Thin Air“ sem fjallar um Guðmundar- og Geirfinnsmálið. Sú mynd flakkar nú á milli kvikmyndahátíða víðs vegar um heiminn og verður í kjölfarið sýnd á BBC og RÚV í haust. Þá verður myndin einnig sýnd á Netflix.

Hilmar, sem stofnaði GunHil árið 2012 ásamt Gunnari Karlssyni, segir ýmsa kosti fylgja samruna fyrirtækisins og Sagafilm. Bæði fyrirtæki búa yfir mikilli þekkingu á mismunandi sviðum og geta því notið góðs af þekkingu hvors annars. Saman séu fyrirtækin jafnframt betur í stakk búin til að sækja á erlenda markaði, meðal annars í gegnum skrifstofu Sagafilm í Stokkhólmi.

Hagrætt í rekstrinum

Áður en Hilmar og Gunnar stofnuðu GunHil höfðu þeir verið í forsvari fyrir framleiðslufyrirtækið Caoz, sem bjó til íslensku tölvuteiknimyndina „Þór: Hetjur Valhallar“. Eftir að þeir skiluðu því verkefni í alþjóðadreifingu ákváðu þeir að hefja framleiðslu undir nafni GunHil, sem er tilvísun í nöfn stofnendanna. Frá stofnun hefur fyrirtækið unnið að áðurnefndri tölvuteiknimynd um Lóa, en framleiðsla hófst í ársbyrjun 2016.

„Þetta er risaverkefni sem kostar rúman milljarð í framleiðslu og svoleiðis verkefni tekur tíma. Samhliða höfum við verið að þróa önnur verkefni,“ segir Hilmar. Hann bætir því við að samanlögð framleiðsluvelta Sagafilm og GunHil verði um tveir milljarðar króna í ár. Hann hefur jafnframt séð tækifæri til hagræðingar í rekstri hjá Sagafilm eftir að hann tók við.

„Þegar maður kemur nýr inn horfir maður kannski öðruvísi á hlutina og byggir á sinni reynslu. Hér voru ýmisleg rekstrarleg atriði sem hefur aðeins þurft að taka á,“ segir Hilmar. Ársreikningur Sagafilm var staðfestur á aðalfundi í vikunni og þar kom fram að fyrirtækið skilaði tapi í fyrra sem nam um 8% af heildarveltu. Hann segir að tapið megi fyrst og fremst rekja til afskriftar á tilteknu verkefni sem og mikillar fjárfestingar í þróun.

„Þetta er enginn óheyrilegur taprekstur en engu að síður þarf maður að skila jákvæðri rekstrarniðurstöðu líka. Fyrstu mánuðir mínir hérna hafa svolítið farið í að skoða alla ferla og aðferðafræði og koma inn með þá framleiðsluþekkingu sem ég hef. Það má alltaf gera betur og við erum að því.“

Sjá nánar hér: Samanlögð velta tveir milljarðar – Viðskiptablaðið

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR