Margrét Örnólfsdóttir: Styrkur okkar er að verða ekki of ánægð

Margrét Örnólfsdóttir formaður Félags leikskálda og handritshöfunda (FLH) segir styrk handritshöfunda falinn í að vera sífellt á tánum og vera vakandi fyrir síbreytilegu vinnuumhverfi. Streymisvetur þurfi á þeim að halda því þær búi ekkert til sjálfar. Hún ræddi við Lestina á Rás 1.

Segir á vef RÚV:

Um þessar mundir stendur yfir verkfall handritshöfunda í Bandaríkjunum. Tæplega tólf þúsund handritshöfundar lögðu niður störf 2. maí. Engir daglegir spjallþættir fara í loftið, sjónvarps- og kvikmyndaframleiðslu hefur verið frestað og handritshöfundar skrifa ekkert nema slagorð á mótmælaskilti þar til kröfum þeirra hefur verið mætt.

Jóhannes Ólafsson ræddi við Margréti Örnólfsdóttur handritshöfund og formann Félags leikskálda og handritshöfunda í Lestinni á Rás 1.

Kemur ekki til verkfalla nema það sé illskárra en að ganga að samningum

The Writers Guild of America, handritshöfundasamband Bandaríkjanna, er í forsvari fyrir þúsundir handritshöfunda sem nú eru komnir í verkfall. Það hófst eftir að samningaviðræður við stúdíó, streymisveitur og sjónvarpsstöðvar fóru út um þúfur eftir langan aðdraganda, eða sex vikur.

Útlit er fyrir að verkfallið standi yfir í langan tíma. Sjónvarp og kvikmyndir gætu því verið í lamasessi um ókominn tíma. Daglegu kvöldþættirnir á borð við The Tonight Show Starring Jimmy Fallon og Jimmy Kimmel Live! eru þegar farnir af dagskrá og fjölmargir sjónvarpsþættir hafa sett tökur á ís. Til að mynda hefur tökum á sjálfstæðri þáttaröð innan söguheims Game of Thrones og Stranger Things verið frestað.

„Auðvitað snýst þetta, eins og allar kjarabaráttur, um grundvallaratriði eins og laun, starfsaðstæður og ýmislegt sem tengist þessu,“ segir Margrét. „En samningar um handritaskrif eru mun flóknari en að það sé bara verið að borga fólki fyrir beinharða vinnu. Því það er auðvitað verið að skapa verðmæti sem þarf að greiða fyrir.“ Þá þurfi að greiða fyrir höfundarrétt sem og réttinn til að nota verkið, framleiða það og miðla því. „Þetta eru gríðarlega flóknir samningar.“

Það að handritshöfundar séu ósáttir með kjör sín er ekki einungis bandarískt vandamál. Störf þeirra eru í krísu víða um heim og hafa verið það um nokkra hríð. Að einhverju leyti sé það vegna breyttrar tækni, vegna tilkomu streymisveitna, breyttrar framleiðslu og nýrra áhorfsvenja. Bandarískir höfundar segja að þetta sé tilvistarleg barátta fyrir mannsæmandi kjörum og starfsöryggi.

„Það eru margir þættir í þessu en eins og við þekkjum úr vinnudeilum, þá kemur ekki til verkfalls nema þeir sem ákveða að fara í verkfall meti það sem svo að það sé illskárra að fara í verkfall en ganga að samningum,“ segir Margrét.

Streymisveitur hafa riðlað fyrirkomulagi tekjuöflunar

Það sem hefur þó kannski staðið hvað mest í fólki og haft mestu áhrifin á kjaraviðræðurnar er það sem á ensku kallast „residual income“ og vísar til framtíðarþóknana sem höfundar geta fengið af verkum sínum. „Þegar samið er um verk, þá er samið um einhverja grunnnotkun á því,“ segir Margrét.

Til dæmis má taka þegar sjónvarpssería er gerð. Í upphaflegum samningum er kveðið á um frumsýningu þáttanna á ákveðinni sjónvarpsseríu þar sem mögulega er tilgreint um framtíðarnotkun á efninu, endursýningu seríunnar eða því um líkt.

„En síðan getur þetta verk mögulega lifað framhaldslífi, það getur farið út um allan heim og verið sýnt á fleiri stöðvum,“ segir Margrét. „Þá er inni í samningum að höfundurinn á alltaf að fá einhvern hluta af þeirri endurnotkun.“

Með tilkomu streymisveitna hefur þetta fyrirkomulag riðlast. Þar sé nefnilega engin eiginleg endurnotkun. Framleiði streymisveitan Netflix seríu þá sé hún bara á þeirri veitu um ókomna tíð, eða þar Netflix ákveður að hætta að sýna hana. „Þarna er stóra breytingin á þessu módeli.“

„Hnífar upp, pennar niður“

Margrét segir að fullkomið ógagnsæi sé hjá þessum streymisvetum þegar kemur að áhorfi og heildarnotkun á hverju og einu verki. „Þá er mjög erfitt að reikna út hvað er sanngjarn hlutur höfundar í þessari notkun.“

Enda sé þetta verkfall kallað „Netflix-verkfallið“ og fylktu handritshöfundar liði að skrifstofum Netflix með mótmæltaskilti með slagorðum á borð við: „Hnífar upp, pennar niður.“ Þetta sé sjötta verkfallið sem bandarískir handritshöfundar hafa farið í frá árinu 1960 og varði það lengsta í fimm mánuði árið 1988.

Þrátt fyrir að Netflix sé ekki eina streymisveitan sem stundi þessi vinnubrögð hefur hún verið mjög áhrifarík undanfarin ár og fordæmisgefandi í því hvernig samningum er háttað.

Verkfallið kalli á alheimssamstöðu

Undanfarin 20 ár hefur sjónvarpið blómstrað en með tilkomu streymisveita hefur landslag þáttasería breyst. Farið sé frá 22 þátta seríum yfir í 6-12, framboð hefur aukist en dreifingin er afmarkaðri. Veldisvöxtur hefur verið á framleiðslu sjónvarpsþátta sem hlýtur þó að þýða meiri vinnu fyrir fleiri höfunda. „En á sama tíma og streymisveiturnar og þessir stóru framleiðendur og dreifendur margfalda gróða sinn, þá hefur dregist saman hlutur höfundarins,“ segir Margrét.

Margrét segir verkfallið í Bandaríkjunum mikið áhyggjuefni í Evrópu. „Því við höfum alltaf litið til Writers Guild of America sem sterkasta og mest tough stéttarfélags í heimi,“ segir hún. „Og ef þeim tekst ekki að ná samningum, viðunandi samningum, þá erum við náttúrulega bara í vaskinum.“

Þetta sé þó ekki alveg nýr veruleiki vegna þess að landslag sjónvarps- og kvikmyndaiðnaðarins sé á sífelldri hreyfingu og eina leiðin til að lifa af sé að vera alltaf á tánum. „Ég held að það sé jákvætt, raunverulega, fyrir okkur að Bandaríkjamenn fari í þetta verkfall. Því það kallar held ég á svona alheimssamstöðu.“

Spurning hvað neytendur sætta sig við

Margir spyrja sig hver áhrif þessa verkfalls geta verið til lengri tíma. Skammtímaáhrifin eru augljóslega þau að hinir daglegu kvöldþættir hafa verið teknir af dagskrá og framleiðslu ýmissa þátta slegið á frest. Þá sé spurning hvort framleiðslufyrirtækin færi sig mögulega frá handritsskrifuðum þáttum og leggi aukna áherslu á raunveruleikasjónvarp?

„Þetta er spurning sem hefur verið varpað fram í tengslum við þetta verkfall,“ segir Margrét. „En hvað vill fólk? Sætta neytendur sig við það?“ spyr hún. „Það er ekkert sem bendir til þess að neytendur muni sætta sig við samdrátt í framboði. Það er akkúrat öfugt, það er vaxandi eftirspurn og hún hefur bara farið í eina átt, upp á við.“

Streymisveitur búa ekki til neitt sjálfar

Streymisveitur séu óstöðugur vettvangur og enginn viti hvernig landslagið verði eftir tíu ár, hvort Netflix verði á annað borð enn þá til. „Við vitum ekkert hver staðan er á þessum fyrirtækjum, hvort þau geti staðið undir sér, hvort þau geti haldið áfram að vaxa endalaust.“

Vegna stöðugra breytinga þurfi handritshöfundar að vera útsjónarsamir og sniðugir, sem Margrét telur að vissu leyti hvetjandi. „Ég held að það sé styrkurinn okkar, að verða ekki of ánægð. Af því að þegar uppi er staðið þá þurfa þau á okkur að halda,“ segir hún. „Því streymisveitur geta ekki búið til neitt annað en umhverfi og leið til að miðla efni, en þær búa ekkert til sjálfar.“

Hún segir eftirspurnina eftir góðri sögu aldrei hverfa þrátt fyrir tæknin og miðlunarleiðir breytist. Þannig að listrænt fólk eigi alltaf eftir að finna einhverja leið til að koma sínu efni á framfæri.

FRÁRÚV
Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR