Tökur á „Svaninum“ ganga vel í Svarfaðardal

Gríma Valsdóttir fer með aðalhlutverkið í Svaninum.
Gríma Valsdóttir fer með aðalhlutverkið í Svaninum. Ljósmynd. Gus Reed.

Tökur í kvikmyndinni Svaninum í leikstjórn Ásu Helgu Hjörleifsdóttur hafa staðið frá júlíbyrjun. Tökur hafa gengið vel að sögn aðstandenda en þær munu standa fram í ágúst. Einnig verður myndað í Grindavík.

Myndin er að mestu leyti tekin á bænum Ytra-Hvarfi í Svarfaðardal, en tökur fara einnig fram víðar í dalnum.

Þessa dagana er beðið eftir að kýr nokkur í sveitinni beri en slík sena er hluti af myndinni. Aðstandendur segja heimamenn í dalnum hafa verið afar hjálplega.

Ása Helga Hjörleifsdóttir leikstjóri Svansins að störfum í Svarfaðardal. Ljósmynd: Gus Reed.
Ása Helga Hjörleifsdóttir leikstjóri Svansins að störfum í Svarfaðardal. Ljósmynd: Gus Reed.

Svanurinn er framleidd af Vintage Pictures, aðal framleiðendur eru Hlín Jóhannesdóttir og Birgitta Björnsdóttir, en aðrir framleiðendur eru Guðbjörg Sigurðardóttir, Verena Gräfe-Höft (Antboy, Nothing Bad Can Happen) og Anneli Ahven (Ghost Mountaineer). Leikstjórinn, Ása Helg Hjörleifsdóttir, skrifar einnig handrit eftir bók Guðbergs Bergssonar.

Hinn þýski Martin Neumeyer er tökumaður, Drífa Freyju-Ármannsdóttir gerir leikmynd, hinn eistneski Ants Andreas tekur upp hljóð og klippingu annast Þjóðverjinn Sebastian Thumler.

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR