Gísli Snær Erlingsson ráðinn til London Film School

Gísli Snær Erlingsson (Benjamín dúfa, Ikingút) hefur verið ráðinn sviðsstjóri náms (Head of Studies) hjá hinum kunna London Film School (áður London International Film School) í Bretlandi. Hann hefur störf í ágústmánuði næstkomandi, en undanfarin sex ár hefur hann stýrt Puttnam School of Film hjá Lasalle College of the Arts í Singapore.

Sviðsstjóri náms heyrir beint undir skólastjóra og hefur yfirumsjón með því námi sem skólinn býður á MA og doktorsstigi, auk þess að leiða vinnu við nýjar námsbrautir.

London Film School er einn elsti kvikmyndaskóli heims, stofnaður 1956. Núverandi stjórnarformaður skólans er hinn víðkunni leikstjóri Mike Leigh, sem á sínum tíma stundaði nám við skólann. Meðal kunnra kvikmyndagerðarmanna annarra sem numið hafa þar eru leikstjórarnir Michael Mann (Heat, Miami Vice) og Duncan Jones (Warcraft. Source Code) auk tökumannanna Tak Fujimoto (Silence of the Lambs) og Roger Pratt (Harry Potter and the Goblet of Fire).

Fjölmargir íslenskir kvikmyndagerðarmenn hafa numið við skólann gegnum árin og má þar nefna Sigurð Sverri Pálsson tökumann, Guðnýju Halldórsdóttur leikstjóra og handritshöfund, Einar Þór Gunnlaugsson leikstjóra og handritshöfund, Karl Óskarsson tökumann og Hrafnkel Stefánsson handritshöfund.

Skólinn hefur um áratugaskeið haft aðsetur í Covent Garden í hjarta miðborgar Lundúna, en á næsta ári stendur til að flytja hann í glæsileg ný húsakynni í austurhluta borgarinnar, nánar tiltekið London City Island sem er skammt frá fjármálahverfinu og Þúsaldarleikvanginum.

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR