Gísli Snær Erlingsson forstöðumaður Kvikmyndamiðstöðvar og Anton Máni Svansson formaður SÍK ræða við Nordic Film and TV News um fyrirhugaðan niðurskurð til Kvikmyndasjóðs.
„Það er eðli hvers sjóðs að starfa innan fjárheimilda,” segir Gísli Snær. “Lækkun á næsta ári mun að sjálfsögðu kalla á samsvarandi skerðingu á styrkjum, sem getur kallað á einhverjar áherslubreytingar,“ viðurkennir hann. „En almennt séð munu slíkar breytingar ekki, og ættu ekki að skapa meiriháttar röskun á langtímamarkmiðum eða rekstri.“
Aðspurður um framtíðarhorfur segir Gísli Snær: „Við erum bjartsýn á að verkefni sem eru í þróun og eru að tryggja sér fjármagn með það fyrir augum að hefja framleiðslu árið 2024 verði að veruleika og við sjáum ekki fyrir neina meiriháttar röskun af völdum fyrirhugaðra ráðstafana í ríkisfjármálum 2024.“
Anton Máni Svansson framleiðandi hjá Join Motion Pictures og formaður SÍK segir: „Á síðasta ári lagði ríkisstjórnin til verulegan niðurskurð á árlegri fjármögnun KMÍ. SÍK mótmælti þessu og teknar voru upp viðræður við mennta- og viðskiptaráðuneytið um fjármögnun KMÍ til næstu ára. Þær leiddu til þess að dregið var úr fyrirhuguðum niðurskurði. Síðan þá hefur íslenskt efnahagslíf tekið hraðaupphlaup með aukinni verðbólgu og almennum niðurskurði ríkisútgjalda. SÍK, ásamt öðrum hagsmunaaðilum, heldur áfram uppbyggilegu samtali sínu við ráðuneytið í trausti þess að allir aðilar leitist við að styðja við framtíðarfarsæld kvikmyndaiðnaðarins.“
Niðurskurður samkvæmt fjárlagafrumvarpi 2024 nemur um 14%, sem er svipaður niðurskurður og varð á yfirstandandi ári. Fyrir ári síðan stóð til að skera sjóðinn niður um tæp 30%, en lokaniðurstaðan varð um helmingi minni niðurskurður. Stjórnvöld hafa því skorið sjóðinn niður um samskonar heildarupphæð á tveimur árum í stað eins.
Í fyrra var hámarks endurgreiðsla hækkuð úr 25% í 35%, að uppfylltum sérstökum skilyrðum um lágmarkseyðslu (350 milljónir króna), lágmarks fjölda starfsliðs og lágmarks fjölda vinnustunda.
Sjá umfjöllun Klapptrés um niðurskurðinn 2023 hér.