spot_img

Morgunblaðið um SOVIET BARBARA: Siðferðilegar vangaveltur

“Þrátt fyrir opinn endi er um að ræða mjög sterka heimildarmynd sem veitir áhorfendum innblástur,” segri Jóna Gréta Hilmarsdóttir hjá Morgunblaðinu meðal annars í umsögn um Soviet Barbara eftir Gauk Úlfarsson.

Jóna Gréta skrifar:

Leikstjórinn, Gaukur Úlfarsson, fylgir fjöllistamanninum Ragnari Kjartanssyni sem opnar sýningu í nýju listasafni í hjarta Moskvu skömmu áður en Rússland gerir innrás í Úkraínu. Miðpunktur sýningarinnar var risastór gjörningur þar sem Ragnar, með leikstjórn Ásu Helgu Hjörleifsdóttur, tók upp og endurgerði bandarísku sápuóperuþættina Santa Barbara á hverjum degi á safninu nema nú auðvitað á rússnesku en þættirnir nutu gríðarlegra vinsælda í Rússlandi eftir fall Sovétríkjanna. Listasafnið, GES-2 Galleri, er í eigu og fjármagnað af ríkum viðskiptaleiðtoga sem hefur einnig mikil pólitísk áhrif og tengsl við Pútín forseta. Ragnar neyðist því til að takast á við pólitískan þrýsting og ritskoðun. Það er magnað að verða vitni að þessari hörðu en lúmsku gagnrýni á póst-sovéska heimsveldið í aðdraganda innrásar Pútíns í Úkraínu.

Kvikmyndin hefst með umfjöllun Ragnars um hið fræga 19. aldar meistaraverk Ívan hræðilegi og sonur hans Ívan, sem verður síðan eins konar spegilmynd fyrir myndina eða ástandið í Rússlandi. En eins og Ragnar segir frá fjallar verkið í raun um það að fórna ungu kynslóðinni. Hann viðurkennir fúslega blendnar tilfinningar gagnvart því að samþykkja að halda sýninguna í Rússlandi, sérstaklega út af pólitískri stöðu eigandans. Hann veltir því fyrir sér hvort hann sé mögulega bara enn eitt peðið sem á að hvítþvo Rússland. Hann rökstyður ákvörðunina með því að segja að hún sé kannski ekki siðferðilega rétt heldur „listrænt“ rétt, sérstaklega þar sem hann er að gagnrýna valdaöflin með verkunum.

Að því sögðu þá er eitt mjög eftirminnilegt atriði þar sem blaðamenn herja á Ragnar og hann neyðist til að segja að verkin séu ekki pólitísk til að gæta öryggis allra sem koma að sýningunni en fljótlega eftir það býður hann Mariu „Möshu“ Alyokhinu úr rússnesku pönkhjómsveitinni og gjörningalistahópnum Pussy Riot sem einkennist af pólitísku andófi og róttækum femínisma. Ragnar kynnir hana fyrir fólkinu á safninu en margir hreinlega hunsa hana, eflaust vegna hræðslu. Það sem gerir heimsókn Möshu súrrealíska er að Rússlandsforseti, Vladimír Pútín, hafði stuttu áður gengið í gegnum sýningarsalinn. Safninu var lokað á meðan og allir þurftu að hætta í miðjum undirbúningi og yfirgefa svæðið, þar á meðal Ragnar. Það var ekki eina áskorunin sem Ragnar mætti. Hann neyddist til að gera breytingar á einu verkinu af því að það þótti of kynferðislegt. Fyrst ætlaði hann að fá að hafa skjáinn tóman, sem verkið var sýnt á, til að gera áhorfendur meðvitaða um ritskoðunina en hann mátti það ekki. Að lokum skipti hann verkinu út fyrir annað.

Leikstjórinn Gaukur notar gamalt fréttaefni sem sýnir pólitískt landslag Rússlands samhliða undirbúningi Ragnars á sýningunni. Fréttaefninu stillir hann oft bókstaflega við hliðina á efninu af undirbúningnum með því að skipta upp skjánum en þetta er mjög frumleg leið og virkar vel. Það er líka ánægjulegt að þótt Gaukur geri áhorfendur meðvitaða um ástandið þá er ekki verið að mata þá á dramatískum eða ógeðslegum atriðum. Áhorfendur vita hvaða hryllingur er í vændum. Ytri atburðarásin er undirbúningurinn að sýningunni en undirliggjandi atburðarásin er innrás Rússlands í Úkraínu. En hinn 24. febrúar árið 2022, þegar innrásin átti sér stað, ákvað Ragnar að loka sýningunni af því að hann taldi að þá hefði þjóðin gengið endanlega of langt og væri orðin „fullkomið fasistaríki“. Þá var ekki lengur vafi um hvað væri siðferðislega rétt að gera. Myndin endar hins vegar of fljótt eða í raun bara stuttu eftir að Ragnar og Ingibjörg ákveða að loka sýningunni. Endirinn er þannig ófullnægjandi og skilur áhorfendur eftir með of margar spurningar um framtíð verkanna og fólksins sem áhorfendur fengu þann heiður að kynnast í gegn um myndina. Þrátt fyrir opinn endi er um að ræða mjög sterka heimildarmynd sem veitir áhorfendum innblástur. Það er líka einfaldlega nóg að fylgjast með Ragnari vinna en það finnst varla meira sjarmerandi eða fyndnari maður en hann.

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR