Jón Gnarr: Brýnt að auka fjárfestingu í gerð leikins sjónvarpsefnis

Jón Gnarr. (Mynd: RÚV)
Jón Gnarr. (Mynd: RÚV)

Í pistli sem Jón Gnarr, framkvæmdastjóri dagskrársviðs 365 miðla, birtir í Fréttablaðinu í dag segir hann of litlu fé varið til leikins sjónvarpsefnis miðað við bíómyndir og að jafna þurfi þann hlut eða stofna sérstakan sjónvarpssjóð.

Jón fjallar um mikilvægi leikinnar sjónvarpsframleiðslu og segist meðal annars hafa orðið þeirrar gæfu aðnjótandi að hafa skapað í samstarfi við aðra persónu í sjónvarpi sem hann telji að muni lifa sig; Georg Bjarnfreðarson. Þá telur hann ekki ólíklegt að Georg muni með tímanum öðlast svipaðan sess með þjóðinni og Bjartur í Sumarhúsum úr Sjálfstæðu fólki Halldórs Laxness:

Að fá að vinna í sjónvarpi hefur verið eitt það skemmtilegasta sem ég hef gert í lífinu. Og af því að ég sé sjónvarp sem raunverulegan upplýsingamiðil þá hef ég leitast við að skapa efni sem er tímalaust og getur lifað lengi. Inntakið í mínu gríni hefur verið tungumálið og menningin. Ég hef forðast að gera afþreyingarefni sem er bundið raunverulegum persónum eða atburðum. Mig hefur til dæmis aldrei langað til að vera góð eftirherma. Ég hef lagt mig fram um að skapa nýtt frekar en herma eftir. Á því er stór munur. Ég hef átt þeirrar gæfu að njóta að fá að búa til, í samstarfi við aðra, eftirminnilegar persónur sem lifa með þjóðinni. Ég held til dæmis að Georg Bjarnfreðarson muni lifa mig. Ég tel ekkert ólíklegt að hann muni með tímanum öðlast svipaðan sess með þjóðinni og Bjartur í Sumarhúsum.

Nú er vor í íslenskri sjónvarpsþáttagerð. Með Ófærð höfum við sýnt og sannað að við getum búið til og framleitt sjónvarpsþætti fyrir heimsmarkað. 365 hefur þegar samið við aðstandendur Ófærðar um sjónvarpsþættina Katla. Það verður enn stærra verkefni og verður sýnt á Stöð 2 veturinn 2017. Sjónvarpið er áhrifaríkasti miðillinn í dag. Neysluformið er aukaatriði. Það skiptir engu höfuðmáli hvort fólk horfir á línulega dagskrá, í gegnum netið eða efnisveitur. Fólk vill og mun horfa á sjónvarp. Og þar gegnir innlent efni mestu máli. Sjónvarpsþáttaseríur eru lengri en bíómyndir. Í gegnum sjónvarpið fáum við meira efni fyrir minni pening. Það er góð fjárfesting fyrir okkur, sem við getum flutt út og miðlað til komandi kynslóða. Þess vegna er mjög brýnt að lögum um Kvikmyndamiðstöð verði breytt. Leikið sjónvarpsefni fær nú um 18% á meðan stærsti hlutinn rennur til kvikmynda. Það þarf að jafna þennan hlut eða hreinlega stofna nýjan sjóð; Íslenska sjónvarpssjóðinn.

Sjá nánar hér: visir.is

 

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR