Kvikmyndastefnan í framkvæmd: dregið úr vægi íslenskrar kvikmyndagerðar, aukið vægi erlendra þjónustuverkefna

Í Kvikmyndastefnunni frá 2020 var fyrsta mál að efla Kvikmyndasjóð, meginstoð íslenskrar kvikmyndagerðar. Það byrjaði vel en nú, fjórum árum síðar, hefur hann verið skorinn hressilega niður og hefur ekki verið minni síðan niðurskurðarárið 2014. Um leið hefur endurgreiðsluhlutfall verið hækkað verulega til að auka samkeppnishæfni Íslands varðandi erlend stórverkefni. Stækkun þessarar hliðarstoðar nýtur stuðnings í greininni en gríðarlegur niðurskurður Kvikmyndasjóðs er ekki það sem Kvikmyndastefnan gengur útá.

Hilmar Sigurðsson framleiðandi, sem situr í stjórn SÍK, birtir á dögunum graf á Facebook síðu SÍK sem sýnir hinn umfangsmikla niðurskurð á Kvikmyndasjóði að undanförnu og hvernig gert er ráð fyrir að niðurskurður haldi áfram á næstu árum.

Grafið, sem er eins og sneiðmynd af æsilegri rússibanareið, sýnir að ekki hefur verið jafn lítið í sjóðnum síðan 2014 (á núvirði), en það ár sætti sjóðurinn gríðarlegum niðurskurði. Grafið sýnir einnig að gert er ráð fyrir frekari niðurskurði á næstu árum.

Hilmar skrifar:

Jæja – fjárlögin komin og versta sviðsmyndin raungerð og ekki um neinn misskilning að ræða. Ráðherra hefur sagt að það eigi að færa Kvikmyndasjóð á það sem hann var fyrir Covid. Á fjárlögum 2020, samþykktum í desember 2019 voru 1.109,8 m í kvikmyndasjóði. Árið 2020 bættust svo 120 m við sem sérstakt Covid framlag. 1.109,8 m samsvara 1.497,2 m á verðlagi í ágúst. Gert er ráð fyrir 1.085,7 m í Kvikmyndasjóð á næsta ári. Það gerir 27% niðurskurð. 46% niðurskurð ef miðað er við heild sjóðsins 2021. Samkomulag frá 2006 samsvarar 1.522 m í dag.
Sneiðmynd af æsilegri rússibanareið.

Fyrsta markmiði Kvikmyndastefnu vikið til hliðar

Í Kvikmyndastefnu 2020-2030 sem lögð var fram 2020, eru listuð upp fjögur meginmarkmið í tíu liðum sem ætlað er efla íslenskan kvikmyndaiðnað á næstu árum. Fyrsti liður fyrstu aðgerðar – forgangsmál stefnunnar – kveður á um eflingu Kvikmyndasjóðs og stofnun sérstaks fjárfestingarsjóðs fyrir sjónvarpsverkefni. Og vissulega voru framlög aukin mjög í eitt ár, en byrjað að skera niður það næsta og síðan áfram all hressilega.

Fjórum árum síðar er staðan sú að sjóðurinn hefur verið skorinn gríðarlega niður frá 2021 og engin fjármögnun fylgir sjónvarpssjóðnum svokallaða, sem reyndar er kallaður framleiðslustyrkur til lokafjármögnunar í lögunum og á enn eftir að útfæra í reglugerð. Framlög í sjóðinn eru orðin mun minni að núvirði en þau voru fyrir faraldurinn.

Auknar endurgreiðslur

Í Kvikmyndastefnunni er fjallað um áframhaldandi þróun endurgreiðslukerfisins í markmiði 3 undir aðgerð 6 (af 10 alls). Það er því vissulega eitt þeirra atriða sem skoða þarf, en birtist ekki sem það allra brýnasta, líkt og efling Kvikmyndasjóðs.

Mjög hefur hinsvegar verið gefið í varðandi endurgreiðslur síðan Kvikmyndastefnan kom fram. 35% endurgreiðslu með vissum skilyrðum var komið á 2022 og nú er gert ráð fyrir rúmum sex milljörðum í þann lið í fjárlagafrumvarpinu 2025. Þetta er auðvitað fínt út af fyrir sig og til marks um mikla veltu í greininni í heild sinni. Hér er verið að endurgreiða kostnað sem þegar hefur fallið til hér á landi. Fjölmörg lönd stunda þetta.

Verkefni (innlend og erlend) sem verja yfir 350 milljónum króna innanlands og uppfylla önnur skilyrði, til dæmis um fjölda vinnudaga og lágmarksfjölda starfsfólks, geta fengið allt að 35% endurgreiðslu. Nokkur íslensk verkefni uppfylla þessi skilyrði. Önnur verkefni fá 25% endurgreiðslu.

35% endurgreiðslunni var komið á til að gera kvikmyndagerð á Íslandi „samkeppnishæfa aftur“ svo vitnað sé til orða Lilju Alfreðsdóttur menningar- og viðskiptaráðherra eftir afgreiðslu málsins á Alþingi 2022. Vísar hún þar til samkeppni um erlend stórverkefni. Einnig ræðir hún um fjölgun starfa í kvikmyndaiðnaði.

Ólíkt erlendum verkum sem mynduð eru hér, þurfa flestar íslenskar kvikmyndir og þáttaraðir framlag úr Kvikmyndasjóði til að fá aðgang að annarri fjármögnun, t.d. erlendum  sjóðum, samframleiðendum og ýmiskonar innlendri fjármögnun. Sú fjármögnun, ásamt framlagi sjóðsins, er svo notuð til að greiða kostnað við verkefnið, sem síðan er forsenda endurgreiðslu. Upphæð sem svarar til styrks Kvikmyndasjóðs dregst síðan frá þeim kostnaði sem leggja má fram í umsókn um endurgreiðslu.

Niðurskurður á framlögum til Kvikmyndasjóðs þýðir því færri íslensk verkefni og jafnvel minni (íslenskar kvikmyndir kosta yfirleitt mun minna en aðrar evrópskar myndir), meðan auknu endurgreiðsluhlutfalli er beinlínis ætlað að fjölga erlendum verkefnum, sérstaklega þeim stærri. Að skera niður Kvikmyndasjóð og auka um leið endurgreiðsluhlutfall með ströngum skilyrðum, er því mjög stefnumarkandi ákvörðun um að draga úr vægi innlendrar kvikmyndagerðar en auka vægi erlendra þjónustuverkefna – sem er alls ekki það sem lagt er upp með í Kvikmyndastefnunni.

Hvernig verið er að draga úr vægi íslenskrar kvikmyndagerðar

Sigurjón Sighvatsson, formaður Kvikmyndaráðs, gerði þessa þróun að umtalsefni í viðtali við Morgunblaðið fyrr á þessu ári. Þar segir meðal annars:

Talið berst að end­ur­greiðslum frá ís­lenska rík­inu á kostnaði við kvik­mynda­gerð hér á landi. Sig­ur­jón seg­ir þess­ar end­ur­greiðslur nauðsyn­leg­ar en und­ir­strik­ar mik­il­vægi þess að fjár­magn­inu sé ekki öllu dælt til út­lend­inga. „End­ur­greiðslan er for­send­an fyr­ir því að við get­um haldið uppi grein­inni, en við þurf­um að passa upp á jafn­vægið milli inn­lendr­ar fram­leiðslu og er­lendr­ar.“ 

Ummæli Sigurjóns endurspegla þau viðhorf gagnvart endurgreiðslunni sem eru útbreidd í greininni, að endurgreiðslan sé afar nauðsynlegur þáttur í fjármögnun kvikmyndagerðar og nýtur mikils stuðnings. Sömuleiðis nýtur þjónusta við erlend verkefni velvildar, enda veitir hún mörg störf. En hann nefnir einnig að gæta þurfi að jafnvægi milli innlendrar framleiðslu og erlendrar, að íslensk kvikmyndagerð verði ekki að hliðargrein við þjónustuverkefni.

Fleira en niðurskurður á Kvikmyndasjóði bendir til að þróunin sé að færast í þessa átt. Meðal annars verður þeirra viðhorfa vart meðal starfsfólks í greininni að mun eftirsóknarverðara sé að komast í erlent þjónustuverkefni en vinna við innlent kvikmyndaverkefni, enda séu greiðslur oft mun hærri og aðbúnaður betri.

Í öðru lagi finna íslenskir framleiðendur bæði fyrir aukinni samkeppni um starfsfólk sem og auknum kostnaði við laun, sem hafa hækkað mikið á undanförnum árum. Slíkt sé út af fyrir sig gott, en borðliggjandi er að þegar möguleikar á fjármögnun dragast saman flækist málið mjög.

Í þriðja lagi þá er niðurskurðartímabilið hjá Kvikmyndasjóði orðið það lengsta sem þekkist í hans sögu, en þetta er fjórða árið í röð sem sjóðurinn er skorinn niður. Planið virðist einnig að halda niðurskurði áfram, eins og fram kemur í grafinu að ofan.

Gríðarlegur niðurskurður Kvikmyndasjóðs á undanförnum árum samfara stórauknum endurgreiðslum sem að verulegu leyti er ætlað að laða að erlend stórverkefni, er ekki í samræmi við það sem fram kemur í Kvikmyndastefnunni, en þannig birtist stefnan í framkvæmd.

Verðum að treysta stoðirnar undir íslenskri kvikmyndagerð

Á ráðstefnu í vor á vegum Menningar- og viðskiptaráðuneytisins undir yfirsrkiftinni „Aukum verðmætasköpun í kvikmyndagerð á Íslandi til framtíðar“ sagði Sigurjón meðal annars um þessi mál í víðara samhengi:

Til þess að blómleg kvikmyndagerð geti þrifist áfram þurfum við að treysta stoðirnar undir íslenskri kvikmyndagerð. Við verðum að styrkja allar grunnstoðirnar og viðhalda þeirri þróun sem átt hefur sér stað. Í stað þess að draga úr framlögum til kvikmyndagerðar þarf að auka þau og í stað þess að láta endalausar fjárhæðir renna til útlendinga þurfum við að vernda okkar menningu, okkar sögu til að halda sérkennum okkar sem land og þjóð. Án þess verður sótt að íslenskri menningu, okkar eiginlega sjálfi sem gerir okkur að því sem við erum. Nú þegar myndmiðlarnir eru orðnir sterkari en ritmálið held ég að það sé ennþá meiri þörf á þessu en nokkurntíma áður.

Í þessu sambandi má líka benda á að kvikmynda- og sjónvarpsgreinin er ekki aðeins umfangsmest menningargreina, greinin skilar einnig meiru til baka en hún fær, ekki síst vegna erlendrar fjárfestingar í henni. Framlag ríkisins til kvikmyndagerðar er því ekki styrkur þegar upp er staðið, heldur fjárfesting í menningu og störfum henni tengdri.

Hvað gæti verið framundan?

Menningar- og viðskiptaráðuneytið hefur sagt að menningarframlag streymisveita gæti komið inn í Kvikmyndasjóð frá 2026. Enn á eftir að leggja fram frumvarp þess efnis á Alþingi. Gert er ráð fyrir að þetta gæti numið um 260 milljónum króna á ári, sem er aðeins hluti þeirra framlaga sem skorin voru burt.

Ekki liggur fyrir á þessu stigi hvernig þessu fé verður deilt út. Orðrómur er á kreiki um að þrýst sé á um að streymisveitur og aðrir sambærilegir aðilar geti sótt beint um styrki af þessu framlagi, en ekki aðeins sjálfstæðir framleiðendur eins og verið hefur reglan, bæði hér á landi og hjá öðrum evrópskum sjóðum.

Reynslan af svona sértækri skattlagningu til fjármögnunar á kvikmyndagerð er ekki góð. Þar er skemmst að minnast fjárfestingaráætlunar stjórnvalda 2013 sem færði mikla aukningu í Kvikmyndasjóð. Var planið að halda henni áfram næstu árin, en ný ríkisstjórn skar hana niður 2014 (sjá graf) og spurðist ekki til hennar meir.

Sjö ár liðu þar til sjóðurinn náði sambærilegri stærð og 2013, en nú tíu árum síðar er staðan aftur svipuð og 2014. Greinin er aftur komin á byrjunarreit.

Enn hefur ekki verið gert samkomulag milli stjórnvalda og greinarinnar um framlög og uppbyggingu sjóðsins til nokkurra ára í senn, eins og gert var reglulega um margra ára skeið. Við vinnslu Kvikmyndastefnunnar var unnið með slíkar tölur, en þær voru ekki sjáanlegar þegar hún kom út.

Við blasir að styrkjum Kvikmyndasjóðs muni fækka og ekki er ólíklegt að styrkupphæðir lækki einnig. Þannig verður fjármögnun innlendra kvikmyndaverka enn flóknari og erfiðari , meðan störfum í erlendum þjónustuverkefnum gæti fjölgað, en sá bransi er reyndar mjög sveiflugjarn.

Staðan er því að mörgu leyti snúin og horfurnar framundan þokukenndar.

Greinin hefur stækkað hratt á síðasta áratug og allra síðustu árum. Stóru þættirnir í því eru fjölgun erlendra þjónustuverkefna með mikla veltu og auknar endurgreiðslur, sem hafa farið úr 12% í allt að 35% á rúmum 20 árum – og nýtast vissulega bæði íslenskum verkefnum og erlendum þjónustuverkefnum. Einnig hefur annað komið til eins og fjölbreyttari fjármögnunarleiðir bæði innanlands og alþjóðlega, sem og aukin – en sveiflukennd – fjárfesting ríkisins í kvikmyndagerð yfir lengra tímabil – sem sést vel á rússibanagrafinu að ofan.

En ýmislegt bendir til þess að yfirbragð og áherslur séu að færast til, að þjónustuverkefni verði mun stærri hluti greinarinnar en áður, meðan vægi frumsköpunar, sem hingað til hefur drifið greinina að mestu leyti og er hennar helsti tilgangur og erindi, dragist saman. Framkvæmd Kvikmyndastefnunnar, sem er önnur en í plagginu stendur, mun ýta undir þessa þróun.

Þá stendur eftir spurningin, hver bað um þetta?

Ásgrímur Sverrisson
Ásgrímur Sverrisson
Ásgrímur Sverrisson er kvikmyndagerðarmaður og ritstjóri Klapptrés.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR