Metaðsókn á LJÓSVÍKINGA á Ísafirði

Sýningar standa nú yfir á Ljósvíkingum Snævars Sölvasonar á Ísafirði sem og víða annarsstaðar á landinu. Um 42% Ísfirðinga hafa séð myndina á nokkrum dögum.

Sögusvið Ljósvíkinga er Ísafjörður og jafnframt eru sumir aðstandenda myndarinnar, þar á meðal leikstjórinn, ættaðir af svæðinu.

Myndin hefur verið sýnd í hinu sögufræga Ísafjarðarbíói undanfarna daga og nú auglýsir bíóið að það séu síðustu forvöð að sjá hana þar – nema “það haldi áfram að vera bullandi aðsókn.” Og hér er hvergi orðum aukið. Að sögn bíósins hafa um þúsund manns keypt sig inn og 140 að auki á boðssýningu, sem nálgast 42% af íbúafjölda bæjarins (2,736 árið 2020).

Til að gefa hugmynd um metaðsóknina þá væru nú yfir 160 þúsund manns búin að sjá myndina, nyti hún sambærilegrar aðsóknar á landsvísu. Slíkar tölur hafa aldrei sést á íslenskri bíómynd innanlands, en auðvitað er þessi samanburður settur fram til gamans.

Heildaraðsókn á myndina hingað til er alls 4,604 manns, þannig að ísfirskir bíógestir eru um fjórðungur heildaraðsóknar á landsvísu sem stendur.

Til fróðleiks má geta þess að Ísafjarðarbær (Ísafjörður, Hnífsdalur, Suðureyri, Flateyri, Þingeyri) telur alls 3,797 íbúa. Að auki er stutt í Bolungarvík og Súðavík, þar sem búa alls 1,208 manns. Samkvæmt því hafa 22,7% íbúa þessa svæðis í heild séð myndina.

Jafnvel slíkt hlutfall er á alla mælikvarða metaðsókn.

Sjá færslu Ísafjarðarbíós hér að neðan:

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR