Þáttaröðin FLÓÐIÐ í tökur á Siglufirði

Þórður Pálsson leikstýrir þáttaröðinni Flóðið sem tekin verður upp á Siglufirði frá 18. mars og fram í apríl. Glassriver framleiðir fyrir Sjónvarp Símans.

Elín Hall fer með aðalhlutverkið í þessari fjögurra þátta röð. Morgunblaðið hefur eftir Andra Ómarssyni hjá Glassriver að þetta verði „ein af stærstu ís­lensku serí­un­um í ár og raun­ar með þeim stærri sem hér hafa verið gerðar.“

Þórður er jafn­framt einn hand­rits­höf­unda ásamt Ótt­ari Norðfjörð og Mar­gréti Örn­ólfs­dótt­ur. Þórður og Óttar unnu sam­an að þáttaröðinni Brot og fyrsta stóra kvik­mynd Þórðar, The Damned, var nýlega frumsýnd vestanahafs sem og á Íslandi.

Fram­leiðandi serí­unn­ar er Guðgeir Arn­gríms­son en fram­leiðand­inn Klaus Zimmer­mann, sem vann meðal ann­ars að fyrstu þáttaröð Ófærðar, kem­ur sömu­leiðis að fram­leiðslunni.

Andri seg­ir í sam­tali við Morg­un­blaðið að Flóðið hafi verið í und­ir­bún­ingi í þó nokk­urn tíma og hafi tekið nokkr­um breyt­ing­um. Þannig hafi þáttaröðin smám sam­an fjar­lægst ís­lensk­an raun­veru­leika eins og hann orðar það og vís­ar þar með ekk­ert til þekktra ham­fara í Íslands­sög­unni. Þess í stað ger­ist sag­an í nú­tím­an­um og er eins kon­ar krimmi, spennu­tryll­ir sem hverf­ist þó um snjóflóð.

HEIMILDMbl.is
Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR