Elín Hall fer með aðalhlutverkið í þessari fjögurra þátta röð. Morgunblaðið hefur eftir Andra Ómarssyni hjá Glassriver að þetta verði „ein af stærstu íslensku seríunum í ár og raunar með þeim stærri sem hér hafa verið gerðar.“
Þórður er jafnframt einn handritshöfunda ásamt Óttari Norðfjörð og Margréti Örnólfsdóttur. Þórður og Óttar unnu saman að þáttaröðinni Brot og fyrsta stóra kvikmynd Þórðar, The Damned, var nýlega frumsýnd vestanahafs sem og á Íslandi.
Framleiðandi seríunnar er Guðgeir Arngrímsson en framleiðandinn Klaus Zimmermann, sem vann meðal annars að fyrstu þáttaröð Ófærðar, kemur sömuleiðis að framleiðslunni.
Andri segir í samtali við Morgunblaðið að Flóðið hafi verið í undirbúningi í þó nokkurn tíma og hafi tekið nokkrum breytingum. Þannig hafi þáttaröðin smám saman fjarlægst íslenskan raunveruleika eins og hann orðar það og vísar þar með ekkert til þekktra hamfara í Íslandssögunni. Þess í stað gerist sagan í nútímanum og er eins konar krimmi, spennutryllir sem hverfist þó um snjóflóð.