spot_img
HeimBransinnÚtflutningstekjur kvikmyndageirans langt umfram fjárfestingu ríkisins

Útflutningstekjur kvikmyndageirans langt umfram fjárfestingu ríkisins

-

Hilmar Sigurðsson forstjóri Sagafilm (Mynd: Fréttablaðið)

Útflutningstekjur kvikmynda- og sjónvarpsgeirans á tímabilinu 2014-2018 voru 15,1 milljarður króna. Á sama tíma var framlag ríkisins til Kvikmyndasjóðs og í formi endurgreiðslna vegna kvikmyndagerðar samanlagt um 9,9 milljarðar. Greinin veltir að meðaltali rúmlega 27 milljörðum á ári. Þetta kemur fram í tölum Hagstofunnar sem teknar voru saman fyrir Samband íslenskra kvikmyndaframleiðenda (SÍK).

Fjallað er um þetta í Fréttablaðinu og rætt við Hilmar Sigurðsson:

„Hluti af þessu var eitthvað sem við vissum fyrir, en það kom okkur á óvart hversu háar útflutningstekjurnar voru,“ segir Hilmar Sigurðsson, framkvæmdastjóri Sagafilm og fyrrverandi formaður SÍK. „Greinin er að skila til baka umtalsvert meiru en samanlagt framlag í þessum sjóði, bara í útflutningstekjum.“

Þá sýna tölur Hagstofunnar að 1.806 manns hafi að meðaltali verið starfandi við sjónvarps- og kvikmyndaiðnað á tímabilinu. Þar af voru 1.189 launþegar og 618 sjálfstætt starfandi.

„Þetta er aðeins meira en það sem við höfum venjulega talað um sem er frábært,“ segir Hilmar og bendir einnig á önnur störf sem skapist. „Hagfræðistofnun HÍ áætlaði árið 2006 að fyrir hvert starf í kvikmyndagerð myndist 1,9 annað starf. Að því gefnu má áætla að iðnaðurinn skapi rúm 3.400 önnur störf sé litið til meðaltals áranna 2014-2019.“

Hilmar segir að áhrif kvikmyndaiðnaðarins séu víðtækari en margir geri sér grein fyrir.

„Könnun Ferðamálaráðs í fyrra sýndi að kvikmyndir, bæði íslenskar og erlendar, lægju að baki 20 prósentum hugmynda að Íslandsferðum hjá erlendum ferðamönnum. Svo eru auðvitað kaup á hótelgistingum, veitingum og bílaleigubílum tengd tökum hérlendis. Þessir hlutir hafa ansi mikil áhrif.“

Að mati Hilmars ættu næstu skref ríkisins að beinast að núverandi ástandi. „Það er lítið um að vera í kvikmyndageiranum um þessar mundir vegna COVID-19,“ segir hann. SÍK hefur stungið upp á að hækka endurgreiðsluna tímabundið, upp í 35 prósent úr 25, svo hægt sé að koma iðnaðinum fljótt á aftur á fætur þegar faraldrinum lýkur.

„Ef engin verkefni skapast verða engin útgjöld en þá verður að sjálfsögðu engin endurgreiðsla heldur,“ segir Hilmar. „Að því leyti yrði það tiltölulega sársaukalaus aðgerð, en eins og sést á þessum tölum þá greiðir greinin þetta margfalt aftur inn í þjóðfélagið.“

Sjá nánar hér: Útflutningstekjur kvikmyndageirans numu um 15 milljörðum króna

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

ÞAÐ NÝJASTA Á KLAPPTRÉ

Fáðu nýjasta efnið á Klapptré í pósthólfið þitt tvisvar í viku, á mánudögum og fimmtudögum.

Þú getur afskráð þig hvenær sem er.

NÝJUSTU FÆRSLUR