“Vel heppnuð og mannleg kvikmynd sem dregur upp sannferðuga mynd af samskiptum tveggja einmana sálna og flóknum tengslum þeirra við umhverfið, ” skrifar Jóna Gréta Hilmarsdóttir meðal annars í Morgunblaðið um Tilverur Ninnu Pálmadóttur.
Jóna Gréta skrifar:
Frumraun Ninnu Pálmadóttur að kvikmynd í fullri lengd, Tilverur, var opnunarmynd á alþjóðlegu kvikmyndahátíðinni í Reykjavík (RIFF) í ár sem hófst í lok september. Handritið skrifaði Rúnar Rúnarsson og segir þar frá einbúanum Gunnari (Þröstur Leó Gunnarsson) sem neyðist til að flytja í bæinn þegar ríkið yfirtekur jörð hans til virkjunarframkvæmda. Gunnar heldur til borgarinnar með aðeins þrjár ljósmyndir; ljósmynd af foreldrum sínum, uppáhaldshestinum og frænda sínum frá Kanada. Þessi byrjun hljómar eins og margar klassískar íslenskar myndir sem gerast í sveitinni og segja frá karlmanni í krísu. Tilverur er vissulega mjög íslensk mynd en í staðinn fyrir að kveljast í eigin volæði og drukkna með bænum sínum, samkvæmt íslensku kvikmyndahefðinni, ákveður aðalpersónan að skapa sér nýtt líf í borginni.
Fyrstu dögunum eyðir Gunnar í að kynnast borgarlífinu en sá hluti myndarinnar er einstaklega fallegur. Ninna gefur áhorfendum tækifæri til að skoða borgina upp á nýtt, eins og þeir séu að ganga um götur hennar í fyrsta skiptið. Ninna reynir ekki að stilla borginni upp sem óvini eða andstæðu við sveitina. Aðalpersónan Gunnar er svo saklaus og móttækilegur, líkt og barn, að hann tekur borginni bara eins og hún er, rétt eins og hann vill að hún taki sér. Gunnar sér fegurð í ókyrrðinni. Hún verður, með hjálp fallegrar kvikmyndatöku, ekki síðri en kyrrðin í sveitinni. Í einni göngu sinni um Vesturbæinn hittir Gunnar tíu ára bréfberann Ara (Hermann Samúelsson). Ari er mjög vinalegur og ákveðinn í að vingast við skrítna nágrannann á móti. Einn daginn þegar Ari læsist úti bankar hann upp á hjá Gunnari og fær að bíða þar, þetta verður fljótlega að reglulegum heimsóknum þar sem þeir tefla skák með stökum andvörpum. Þeirra kynni eru ótrúlega skemmtileg og oft stutt í húmorinn eins og til dæmis í einu atriði þar sem Gunnar bakar pítsu og eldar kartöflur en Ari er fljótur að segja honum að það eigi ekki vel saman.
Í raun er Tilverur þroskasaga þeirra beggja og þrátt fyrir mikinn aldursmun lítur Gunnar upp til Ara eða í það minnsta telur sig geta lært eitthvað af honum sem borgarbúa, eins og til dæmis að elda ekki kartöflur með pítsu. Gunnar kaupir líka sjónvarp af því að Ari gerir athugasemd við það að hann sé ekki með sjónvarp og Gunnar gefur til góðgerðarmála af því að Ari óskaði þess að geta hjálpað flóttafólki í neyð. Umræðan um flóttafólk er mjög áberandi í myndinni, sem helgast mögulega af þeim líkindum sem sjá má í aðstæðum Gunnars. Hann hefur líkt og flóttafólkið þurft að flýja heimilið sitt og flytja á óþekktar slóðir.
Ari er ekki minna einmana en Gunnar af því að foreldrar hans hafa ekki tíma til að sinna honum. Við fylgjumst með fjölskylduerjum hjá Ara í gegnum gluggann hjá Gunnari. Glugginn er mjög táknrænn í myndinni og endurspeglar svolítið líf Gunnars, en hann virðist alltaf hafa verið í hlutverki áhorfandans í eigin lífi og því fylgir mikil sorg sem Þröstur Leó kemur til skila með líkamstjáningu en ekki orðum.
Leikurinn hjá bæði Þresti Leó og unga leikaranum Hermanni Samúelssyni er til fyrirmyndar. Einlægur vinskapurinn milli þeirra virðist og er kannski raunverulegur. Saman halda þeir uppi myndinni, sem er fremur hæg og getur reynst krefjandi. Síðari hluti myndarinnar er sérstaklega erfiður, en þá fer söguþráðurinn nákvæmlega þá leið sem áhorfendur óttuðust mest að hann færi. Það var notalegt að fá fyrst að njóta þess að sitja og horfa á tvær einmana sálir tefla skák og drekka mjólk. Undirritaða langaði bara að halda áfram í þeim hversdagslega og saklausa heimi, líkt og barn, en skilur af hverju Ninna þurfti að enda kvikmyndina á þann veg sem hún endaði.
Tilverur var heimsfrumsýnd á alþjóðlegu kvikmyndahátíðinni í Toronto (TIFF) sem kemur ekki á óvart; Tilverur er vel heppnuð og mannleg kvikmynd sem dregur upp sannferðuga mynd af samskiptum tveggja einmana sálna og flóknum tengslum þeirra við umhverfið. Undirrituð hlakkar til að fylgjast með Ninnu Pálmadóttur því hér er greinilega á ferðinni spennandi og sterkur leikstjóri.