Þröstur Leó Gunnarsson heiðursgestur þriðju PIFF hátíðarinnar á Vestfjörðum

Þröstur Leó Gunnarsson verður heiðursgestur Pigeon International Film Festival (PIFF) sem haldin verður í þriðja sinn á Ísafirði dagana 12.-14. október.

Segir í tilkynningu:

Þröstur Leó, sem er frá Bíldudal, er einn af þekktustu leikurum landsins en hann hefur starfað jöfnum höndum í kvikmyndum og leikhúsi. Þröstur Leó hefur leikið í á sjöunda tug sjónvarps- og kvikmyndaverkefna og leikstýrt fjórum. Hann leikur í vestfirsku myndinni Leitin að Auði eftir Lýð Árnason sem sýnd verður á PIFF í ár en hún var tekin að stærstum hluta upp á Vestfjörðum.

Þröstur Leó hefur fengið fjölmörg verðlaun fyrir verk sín, m.a. Grímuverðlaunin fyrir hlutverk sín í Killer Joe, Ökutímum og Koddamanninum, Edduverðlaunin fyrir Nóa albínóa og Brúðgumann, og Stefaníustjakann fyrir störf sín að leiklist árið 2009. Auk þess sem hann hefur hlotið mikið lof fyrir hlutverk sitt í í svörtu kómedíunni Á ferð með mömmu og var valinn besti leikari í aðalhlutverki fyrir það hlutverk sitt á ítölsku kvikmyndahátíðinni BIF&ST í vor. Myndin er tilnefnd til Kvikmyndaverðlauna Norðurlandaráðs í ár sem veitt verða í lok mánaðar.

Þröstur Leó mun sitja fyrir svörum og spjalla um feril sinn á sérstökum viðburði á Dokkunni föstudaginn 13. október. Eins og með aðra viðburði á vegum PIFF verður frítt inn og allir velkomnir. 

Hátt í 50 myndir frá öllum heimshornum verða sýndar á hátíðinni, þar af sjö kvikmyndir í fullri lengd, fimm heimildamyndir og þrettán teiknimyndir, auk stuttmynda. Myndirnar koma meðal annars frá Malasíu, Póllandi, Ástralíu, Finnlandi, Spáni, Íran og Íslandi.

Sýningar fara fram á Ísafirði, Súðavík og Patreksfirði. 

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR