Morgunblaðið um KULDA: Hver hefur sinn djöful að draga

Jóna Gréta Hilmarsdóttir fjallar um Kulda Erlings Óttars Thoroddsen í Morgunblaðinu og skrifar meðal annars: „Kuldi er ágæt mynd og skemmtileg áhorfs. Það getur hins vegar verið vandi að aðlaga bók kvikmyndaforminu og sumt er vel gert en annað ekki.“

Jóna Gréta skrifar:

Í Kulda segir leikstjórinn Erlingur Thoroddsen tvær sögur, hvora frá sínum tíma: vinnudvöl ungrar stúlku, Aldísar (Elín Hall), á áttunda áratug liðinnar aldar á unglingaheimili og síðan rannsókn Óðins (Jóhannes Haukur Jóhannesson) tveimur áratugum síðar á dauðsföllum á fyrrnefndu unglingaheimili. Sögurnar renna saman í eina þegar Óðin fer að gruna að hinir hryllilegu atburðir á unglingaheimilinu geti tengst dularfullu sjálfsmorði fyrrverandi eiginkonu hans og hegðunarvandamálum unglingsdóttur hans, Rúnar (Ólöf Halla Jóhannesdóttir). Raunverulegu feðginin Ólöf Halla og Jóhannes Haukur leika feðginin í myndinni og er þetta góð frumraun Ólafar í stóru hlutverki.

Kuldi er byggð á samnefndri metsölubók eftir Yrsu Sigurðardóttur en þetta er í fyrsta sinn sem Erlingur færir skáldsögu yfir á hvíta tjaldið. Kuldi er önnur kvikmyndin eftir bókum Yrsu, en fyrri aðlöguninni, Ég man þig (2017), leikstýrði Óskar Þór Axelsson. Kuldi er ekki framhaldsmynd þótt bókin Kuldi sé næsta bók á eftir Ég man þig og myndirnar eigi margt sameiginlegt. Sigurjón Sighvatsson framleiddi þær báðar ásamt öðrum og nokkrir leikarar koma fyrir í báðum myndum. Leikkonurnar Sara Dögg og Anna Gunndís leika til dæmis í báðum myndunum og Jóhannes Haukur leikur aftur aðalhlutverkið. Í viðtali á netmiðlinum Klapptré greinir Sigurjón frá því að með myndinni sé verið að taka fyrstu skrefin í að skapa kvikmyndaheim Yrsu.

Kuldi er ágæt mynd og skemmtileg áhorfs. Það getur hins vegar verið vandi að aðlaga bók kvikmyndaforminu og sumt er vel gert en annað ekki. Ákvörðunin um að breyta dótturinni, sem er tíu ára í bókinni, í ungling er dæmi um góða ákvörðun sem kemur í veg fyrir vandamál og siðferðilegar spurningar sem fylgja því að leikstýra börnum og þjónar líka sögunni með því að gera það sem koma skal trúverðugra. Handritið hjá Erlingi er hins vegar svolítið klunnalegt á köflum, sem gerir að verkum að leikurinn virkar óeðlilegur. Handritið er þá ekki nógu hnitmiðað og klippingin hjá Lindu Jildmalm of hröð til að myndin geti orðið virkilega spennandi. Hún var samt nógu hryllileg fyrir undirritaða, sem neyddist til þess að halda í höndina á kærasta sínum í sumum atriðum. Erlingur skilur eftir nokkra lausa enda. Sem dæmi virðist persónan Einar (Mikael Kaaber) ekki hafa verið fullunnin þar sem of mörgum spurningum er ósvarað undir lok myndar og klippingin hjálpar ekki til. Stundum fara ekki saman orð og mynd. Dæmi um þetta er að áhorfendur eru upplýstir um að Einar hafi verið allur klóraður þegar lík hans fannst, sem er ekki í takt við það sem þeir fá að sjá, og við sem áhorfendur fáum aldrei á hreint hvað kom fyrir vinkonu hans, Eyrúnu. Kannski er það meðvituð ákvörðun hjá leikstjóranum.

Einar Tryggvason sem gerði tónlistina og Helga Rós Hannam sem sá um búninga eiga mikið hrós skilið. Undirrituð tók ekki sérstaklega eftir tónlistinni eða búningunum, sem henni finnst kostur og til marks um að það sé vel gert, en það getur verið sérstaklega vandasamt að finna búninga á persónur úr fortíðinni án þess að þeir verði of áberandi.

Kuldi er þrátt fyrir fyrrnefnda vankanta fín mynd og þess virði að sjá í bíó þótt hún sé kannski ekki alveg jafn hryllileg og Ég man þig. Það verður spennandi að sjá hvaða bók Yrsu verður tekin fyrir næst en undirrituð vonar að sjálfsögðu að kvikmyndaheimur Yrsu haldi áfram að stækka. Að lokum vill undirrituð nýta tækifærið og hrósa sérstaklega ungum leikara sem stóð upp úr þrátt fyrir takmarkaðan skjátíma, það er hann Baldur Björn Arnarsson í hlutverki Tobba litla. Það verður spennandi að fylgjast með honum í náinni framtíð.

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR