SOVIET BARBARA, HEIMALEIKURINN og SKULD verðlaunaðar á Skjaldborg

Skjaldborgarhátíðinni lauk í gærkvöldi með verðlaunaafhendingu. Soviet Barbara eftir Gauk Úlfarsson hlaut dómnefndarverðlaunin, Ljóskastarann. Heimaleikurinn eftir Smára Gunnarsson og Loga Sigursveinsson hlaut áhorfendaverðlaunin, Einarinn og Skuld eftir Rut Sigurðardóttur hlaut hvatningarverðlaun dómnefndar.

Ítarleg umfjöllun um hátíðina birtist á Klapptré innan skamms.

Dómnefnd Skjaldborgar 2023 var skipuð þeim Margréti Bjarnadóttur, danshöfundi og myndlistarkonu, Antoni Mána Svanssyni, kvikmyndaframleiðanda og Jóni Bjarka Magnússyni, mannfræðingi og heimildamyndahöfundi.

Rut Sigurðardóttir leikstjóri og viðfangsefni Skuldar ásamt Kristjáni Torfa viðfangsefni myndarinnar og tónskáldi með hvatningarverðlaunin | Mynd: Patrik Ontkovic.

Skuld fjallar um ungt par sem hættir skuldastöðu sinni og sambandi er þau feta í fótspor forfeðra sinna og gera út trilluna Skuld á handfæraveiðum. Framtíð þessarar elstu atvinnugreinar þjóðarinnar er óviss og virðist sem einungis einstaka sérvitringur stundi þetta basl, eða hvað?

Í umsögn dómnefndar segir: „Hvatningarverðlaun Skjaldborgar 2023 hlýtur mynd sem dómnefndarmeðlimum þótti sérstaklega hlý, fyndin og falleg. Mynd sem opnar glugga inn í heim smábátaeigenda og handfæraveiða á persónulegan og heillandi máta. Höfundur beitir sterkri sjónrænni nálgun og fer einstaklega vel með hlutverk sitt allt í kring um myndavélina svo úr verður allsherjar óður til ástarinnar, framtaksseminnar – og strandveiða.“

Logi Sigursveinsson og Smári Gunnarsson leikstjórar Heimaleiksins. Stephanie Thorpe framleiðandi í miðju með Einarinn, áhorfendaverðlaunin | Mynd: Patrik Ontkovic.

Heimaleikurinn er gamansöm íþróttaheimildamynd um tilraun manns til að uppfylla draum föður síns; að safna í lið heimamanna til að spila langþráðan vígsluleik á fótboltavelli sem faðirinn lét byggja á Hellissandi 25 árum áður.

Davíð Berndsen tónskáld, Gaukur Úlfarsson leikstjóri Soviet Barbara, Guðrún Olsen framleiðandi og Guðni Tómasson framleiðandi með dómnefndarverðlaunin, Ljóskastarann | Mynd: Patrik Ontkovic.

Soviet Barbara, sagan um Ragnar Kjartansson í Moskvu segir af myndlistarmanninum Ragnari Kjartanssyni sem opnar nýtt listasafn í hjarta Moskvu með rússneskri endurgerð af sápuóperunni Santa Barbara. Hann tekst á við pólitískan þrýsting, þunga sögunnar og ritskoðun skömmu áður en innrás skellur á Úkraínu.

Í umsögn dómnefndar segir: „Dómnefndarverðlaun Skjaldborgar 2023 hlýtur mynd sem vakti heitar umræður á meðal dómnefndarmeðlima. Myndin er í grunninn nærmynd af einum fremsta listamanni þjóðarinnar á þeim tíma sem hann tekst á við gríðarstórt verkefni í Moskvu og fjölþættar áskoranir sem því fylgir, en skarast að lokum við heimssögulegan atburð sem setur listina og lífið í nýtt samhengi. Hún er í senn hrífandi og óþægileg – einstaklega athyglisverð og marglaga frásögn sem vekur upp stórar og flóknar spurningar.“

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR