spot_img

HEIMALEIKURINN fær aðalverðlaun Glasgow Film Festival

Heimildamyndin Heimaleikurinn eftir Smára Gunnarsson og Loga Sigursveinsson hlaut áhorfendaverðlaunin á Glasgow Film Festival sem lauk í gærkvöldi. Þetta eru aðalverðlaun hátíðarinnar.

Heimaleikurinn fjallar um fljótfærna tilraun Kára Viðarssonar til að uppfylla draum föðurs síns; að safna í lið heimamanna til að spila langþráðan heimaleik á fótboltavelli sem hann lét byggja á Hellissandi 25 árum áður.

Leikstjórarnir Smári Gunnarsson og Logi Sigursveinsson gengu rauða dregilinn og sátu fyrir svörum eftir sýningarnar. Stjörnur myndarinnar úr liði Reynis á Hellissandi fylgdu myndinni einnig eftir, skoskum hátíðargestum til mikillar gleði.

Heimaleikurinn var sýnd fyrir fullu húsi tvisvar í Glasgow og skipuleggjendur hátíðarinnar tilkynntu að áhorfendur hefðu samanlagt gefið myndinni 4.8 af 5 í einkunn, hæstu einkunn sem þau hafa séð í tuttugu ára sögu hátíðarinnar sem er ein sú stærsta á Bretlandseyjum.

Verðlaunin í Glasgow voru styrkt af streymisveitunni MUBI og eru þriðju verðlaun Heimaleiksins sem hlaut einnig dómnefndarverðlaun á alþjóðlegu heimildamyndahátíðinni í Búdapest, sem og áhorfendaverðlaun Skjaldborgarhátíðarinnar. Heimaleikurinn er tilnefnd til Edduverðlauna í flokki heimildamyndar ársins.

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR