spot_img

Morgunblaðið um NAPÓLEONSSKJÖLIN: Skemmtileg klisja

Óneitanlega skemmtileg mynd þrátt fyrir marga galla, segir Jóna Gréta Hilmarsdóttir meðal annars í umsögn sinni í Morgunblaðinu um Napóleonsskjölin eftir Óskar Þór Axelsson.

Jóna skrifar:

Kvikmyndin Napóleonsskjölin er byggð á samnefndri metsölubók eftir Arnald Indriðason og er meðal stærstu verkefna Sagafilm síðasta áratuginn. Óskar Þór Axelsson leikstýrir myndinni en fyrri myndir hans eru Svartur á leik (2012) og Ég man þig (2017). Napóleonsskjölin segir frá Kristínu (Vivian Ólafsdóttir), lögfræðingi sem dregst inn í hættulega atburðarás þegar yngri bróðir hennar, Elías (Atli Óskar Fjalarsson), rekst á þýskt flugvélarflak úr seinni heimsstyrjöldinni á toppi Vatnajökuls. Kristín og sagnfræðingurinn Simon Rush (Jack Fox) eru elt uppi af valdamiklum Bandaríkjamönnum sem svífast einskis til þess að komast yfir leyndardóminn sem flakið geymir.

Napóleonsskjölin er skemmtileg klisja, vondi karlinn, William Carr (Iain Glen), gengur um með sólgleraugu og undir ofbeldisatriðunum er æpandi töffaratónlist. Myndin gengur hins vegar í sumum atriðum skrefi of langt í töffaraskapnum og verður fyrir vikið nánast hallærisleg. Myndin minnir á dásamlegu National Treasure-myndirnar með Nicolas Cage og er það mikið hrós. Það sem þær myndir hafa hins vegar fram yfir Napóleonsskjölin er að þær taka sig ekki of alvarlega. Napóleonsskjölin er ekkert sérstaklega vel gerð mynd, þó hún reyni að vera það. Tæknibrellurnar eru margar ekki nógu vel gerðar eins og t.d. í flugvélinni, litgreiningin er skrýtin og gerir leikarana bleika í andlitinu og það er ljóst að hljóðið er stundum dubbað sem er mjög truflandi. Það getur verið töluverð áskorun að skapa efni sem virkar jafnvel fyrir íslenska og erlenda áhorfendur. Hætta er á því að íslenskt efni sem sérstaklega er hugsað fyrir erlendan markað missi fyrir vikið tengsl sín við íslenska áhorfendur. Framleiðslufyrirtækið Beta Cinema er þegar búið að selja Napóleonsskjölin til Frakklands, Spánar, Póllands, Japan, Taívan og gömlu Júgóslavíu. Sá áhorfendahópur mun ekki taka eftir því að útilaugin sem sést í myndinni er tekin upp á nokkrum stöðum. Sögupersónurnar byrja í Heiðmörk, fara síðan í Hrunalaug og Secret Lagoon og enda í búningsklefanum í Nauthólsvík. Íslenskir áhorfendur taka eftir þessu og það getur þá kippt þeim örstutt út úr myndinni sem er bagalegt, en þetta er auðvitað séríslenskt vandamál og óumflýjanlegt.

Handritið eftir Martein Þórisson er ekki sterkt. Það er t.d. einum of mikil tilviljun að þann sem veit hvað mest um nasisma hérlendis hafi Kristín verið að hitta áður og að fjarlægi faðir Kristínar búi skammt frá sveitabænum þar sem hún slasaðist. Það virkar eflaust í skáldsögu en kvikmyndir eru allt annar miðill og það getur reynst erfitt að þjappa saman öllu söguefninu. Samband Kristínar við föður sinn er t.d. óþarfa hliðarsöguþráður í kvikmyndaútgáfunni. Samtölin milli sögupersónanna eru einnig oft mjög óþjál og ófyndin. Sögupersónunni Steve Rush er greinilega ætlað að létta stemningu myndarinnar og skapa húmor, en því miður er hann einfaldlega ekkert fyndinn heldur fremur óspennandi sögupersóna. Það er engu leyft að liggja á milli línanna í myndinni heldur eru allar upplýsingar mataðar ofan í áhorfendur í gegnum samtöl persónanna. „Hvernig fundu þau okkur?“ spyr önnur sögupersónan og við tekur nákvæm útskýring fyrir áhorfendur. Á tímabili mátti halda að handritshöfundurinn hefði gleymt því hvernig ætti að skrifa eitthvað annað en „fuck!“ sem kemur fram í annarri hverri setningu.

Þrátt fyrir marga galla myndarinnar er Napóleonsskjölin óneitanlega skemmtileg mynd og stundum er það nóg. Viðfangsefni íslenskra kvikmynda þarf ekki alltaf að vera miðaldra karlmaður í krísu úti á landi. Hér er á ferðinni spennandi hasarmynd, fullkomið föstudagsáhorf með fjölskyldunni ef ekki væri fyrir eitt ógeðslegt pyntingaratriði með blýanti. Endir kvikmyndarinnar er opinn sem býður þannig upp á möguleikann á framhaldsmynd. Þrátt fyrir ofangreinda vankanta myndi rýnir án efa vilja sjá næstu mynd, því teymið að baki Napóleonsskjölunum hefur sýnt að það kann ágætlega að skemmta bíógestum.

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR