spot_img

Endurunnin stafræn útgáfa af PUNKTUR PUNKTUR KOMMA STRIK sýnd í Bíó Paradís

Bíótek Kvikmyndasafns Íslands sýnir endurunna stafræna útgáfu af Punktur punktur komma strik (1981) eftir Þorstein Jónsson sunnudaginn 4. desember kl. 17. Leikstjórinn verður viðstaddur sýninguna í Bíó Paradís og svarar spurningum á eftir.

Punktur punktur komma strik var sýnd við fádæma vinsældir á Íslandi á sínum tíma og hlaut einróma lof gagnrýnenda. Hún hefur einnig verið sýnd víða um heim og hlotið góðar viðtökur. Við fylgjumst með Andra og félögum þroskast úr börnum í unglinga þar sem tilfinningaflækjur, partý, sjoppuhangs, ástin og alvara lífsins takast á.

Sama dag sýnir Bíótekið einnig Nútímann (1936) eftir Charlie Chaplin og Videodrome (1983) eftir David Cronenberg.

Nútíminn er síðasta þögla mynd Chaplin og af mörgum talin sú skemmtilegasta, segir í kynningu. Tæknibyltingin er að taka völdin og hafa af verkamönnum vinnu. Græðgi og mannfyrirlitning gerir flækingnum lífið leitt í þessari bráðskemmtilegu kvikmynd sem enn í dag verður að teljast góð ádeila á miskunnarleysi kapítalismans. Kvikmyndin er kvikmyndasöguleg klassík, fyndin og tilfinningaþrungin í senn. Það getur verið mikilfengleg reynsla fyrir unga áhorfendur jafnt sem þá sem eldri eru að sjá þetta listaverk á stóru tjaldi í kvikmyndahúsi.

Videodrome er spennandi og súrrealísk vísindaskáldsöga sem skipar sérstakan sess í heimi költmyndanna. Myndin segir frá því hvernig sjónvarpsframleiðandi sem sérhæfir sig í erótískum myndum kemst í tæri við nýja tegund slíkra mynda, dularfulla og hættulega, í gegnum ólöglegar útsendingar. Hann leitar logandi ljósi að framleiðendunum og sogast inn í atburðarás sem best er að sjá með eigin augum. James Woods og Debbie Harry (Blondie) fara með helstu hlutverk.

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR