[Plakat] VOLAÐA LAND: 19. aldar ljósmynd fyrir 19. aldar kvikmynd

Alþjóðleg útgáfa af plakati kvikmyndarinnnar Volaða land eftir Hlyn Pálmason var opinberuð í dag og er um ýmislegt sérstök.

Myndin er frumsýnd í Un certain regard hluta Cannes hátíðarinnar þann 24. maí og segir frá dönskum presti sem ferðast til Íslands á seinnihluta 19. aldar með það að markmiði að reisa kirkju og ljósmynda íbúa eyjunnar á för sinni.

Gera má ráð fyrir því að hin sérstaka áferð ljósmyndarinnar á plakatinu tengist efni myndarinnar. Ljósmyndin er tekin af Herði Geirssyni, safnverði hjá Minjasafninu á Akureyri, við bæinn Kvísker á Suðurlandi. Þar má sjá aðalleikara myndarinnar, Elliot Crosset Hove, í íslenskri náttúru. Hin sérstaka áferð kemur til vegna þess að myndin er búin til að hætti 19. aldar.

Aðferðin kallast Collodion WetPlate (votplötur). Aðferðin var tekin í notkun um miðja 19. öld og leysti að mestu af hólmi upphaflega aðferð, Daguerrotype. Hún var að mestu ráðandi fram til um 1880 þegar aðrar aðferðir, þar á meðal þurrplötur eða gelatin dry plates urðu ráðandi. Collodion aðferðin hefur þó aldrei horfið alveg og nýtur á síðari árum vaxandi vinsælda þrátt fyrir að vera snúin í meðförum.

Collodion aðferðin notast við stóra glerplötu sem gerð er ljósnæm, en þarfnast langs lýsingartíma. Myndina verður síðan að framkalla á staðnum, eða innan næstu 10-15 mínútna. Hörður segir íslenska heitið votplötur hafa verið í notkun hér áður en orðið ljósmynd festist í málinu, en einnig var notast við orðin sólarmyndir og glansmyndir.

Daníel Imsland sá um hönnun plakatsins, en hann hefur áður unnið plaköt og aðra grafíska vinnu fyrir myndir Hlyns, allt frá Vetrarbræðrum.

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR