Allt um myndirnar og dagskrána á Skjaldborg

Skjaldborg – hátíð íslenskra heimildamynda verður haldin um hvítasunnuhelgina á Patreksfirði dagana 3. – 6. júní 2022. 13 myndir verða sýndar á hátíðinni auk þess sem verk í vinnslu verða kynnt.

Dagskráin verður fjölbreytt og verða Kvikmyndasafn Íslands og Hversdagssafnið á Ísafirði með sér dagskrárliði, Ari Eldjárn skemmtir gestum og haldinn verður heimamyndadagur þar sem gestir eru hvattir til að koma með filmur og spólur úr geymslunni.

Hér má skoða upplýsingar um myndirnar.

Hér má sjá dagskrá hátíðarinnar, smellið á mynd til að stækka.

Heiðursgestur hátíðarinnar í ár er Magnus Gertten, en hann hlaut Teddy verðlaunin á Berlinale fyrir heimildamyndina Nelly & Nadine sem verður jafnframt opnunarmynd Skjaldborgar.

Uppistand með Ara Eldjárn, kónga, limbó og sveitaball með Celebs

Dagskránni í Skjaldborgarbíói lýkur með uppistandi Ara Eldjárn. Að því loknu flykkjast Skjaldborgarar í skrúðgöngu frá Skjaldborgarbíói að Félagsheimili Patreksfjarðar þar sem verðlaunaafhending fer fram.

Lokaball Skjaldborgar hefst að venju með kónga-dansi og limbókeppni í félagsheimilinu og stuðsveitin Celebs frá Suðureyri við Súgandafjörð spila fyrir dansi – nostalgískt hljóðgervlapopp í bland við þekkta smelli!

Verðlaun og dómnefnd

Á Skjaldborg eru veitt tvenn verðlaun; Dómnefndarverðlaunin Ljóskastarinn eru veitt af dómnefnd og í henni sitja Kristján Loðmfjörð, Hrönn Sveinsdóttir og Anna Gyða Sigurgísladóttir.

Áhorfendaverðlaunin Einarinn eru veitt samkævmt kosningu gesta hátíðarinnar. Sigurvegarar beggja verðlauna hljóta veglegt verðlaunafé frá Kukl, Trickshot og Pfaff.

HEIMILDSkjaldborg
Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR