Þessar myndir fengu verðlaun á Skjaldborg 2022

Skjaldborg, hátíð íslenskra heimildamynda, er lokið. Veitt voru þrenn verðlaun, dómnefndarverðlaun, hvatningarverðlaun og áhorfendaverðlaun.

Dómnefndarverðlaunin, Ljóskastarann, hlaut Hækkum rána eftir Jonna Ragnarsson. Dómnefndin, sem samanstóð af leikstjóranum Kristjáni Loðmfjörð, Hrönn Sveinsdóttur og Önnu Gyðu Sigurgísladóttur, hafði eftirfarandi að segja um verðlaunamyndina:

“Verkið vakti mestu og áhugaverðustu umræðurnar, formið var skarpt og einfalt en efnið lyfti myndinni upp á hærra plan. Myndinni tókst að komast mjög nálægt viðfangsefnum sínum og fanga viðkvæm og erfið augnablik í lífi fólks. Myndin skilur eftir sig stórar spurningar og afhjúpar ólík sjónarmið sem snerta ekki bara íslenskt samfélag heldur heiminn allan.”

Hvatningarverðlaunin féllu í skaut Thinking About the Weather eftir Garðar Þór Þorkelsson. Í umsögn dómnefndar segir:

“Myndin nær að kjarna viðfangsefnið á fyndinn, skapandi, einstakan, og jafnframt absúrd máta. Hér er á ferðinni sterk höfundarrödd og dómnefndin vill hvetja þessa rödd til frekari verka.”

Velkominn Árni eftir Allan Sigurðsson og Viktoríu Hermannsdóttur hlaut áhorfendaverðlaunin, Einarinn.

Tækjaleigan Kukl og eftirvinnslufyrirtækið Trickshot veita veglegt verðlaunafé til vinningshafa Einarsins og Ljóskastarans sem hvor um sig hlýtur inneign að verðmæti 500 þúsund krónur í tækjaleigu og 250 þúsund krónur í formi eftirvinnslu. Hvatningarverðlaununum fylgir einnig 50 þúsund króna inneign í hljóðdeild Pfaff.

Skýrsla um hátíðina á leiðinni.

 

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR