Þessi verk eru væntanleg 2022

Von er á allt að tíu íslenskum bíómyndum og fimm nýjum þáttaröðum á árinu 2022. Tekið skal fram að mögulegt er að frumsýningartími einhverra þessara verka færist yfir á næsta ár og í mörgum tilfellum liggur ekki fyrir hvenær verkin koma út innan ársins. Þá er einnig mögulegt að fleiri verk bætist við. Heimildamyndir í framleiðslu eru á fjórða tuginn.

Tíu bíómyndir komu út í fyrra. Áhrif faraldursins á bíóaðsókn eru enn töluverð og gæti það sett strik í reikninginn á þessu ári. Ekki er ljóst með tilhögun stærri erlendra kvikmyndahátíða á árinu, en sumar íslenskar kvikmyndir miða við frumsýningar á slíkum vettvangi.

Þáttaraðir verða fimm í ár (sjö í fyrra), en þó skal haft í huga að tvær þáttaraðir hófu göngu sína í lok árs 2021 (Verbúðin og Svörtu sandar) og megnið af þeim í sýningum 2022.

Snúnara er að giska á heimildamyndirnar, en þær voru 16 talsins í fyrra. Á vef Kvikmyndamiðstöðvar má sjá að heimildamyndir í framleiðslu eru 33. Líklegt er að margar þeirra muni koma fram á þessu ári. Undanfarin ár hafa komið fram á þriðja tug heimildamynda, ýmist á hátíðum, í kvikmyndahúsum eða sjónvarpi.

Bíómyndirnar

Útlit er fyrir að þær verði að minnsta kosti tíu í ár, sem er sami fjöldi og í fyrra. Þetta er með fyrirvara um breytingar á dagsetningum frumsýninga.

Skjálfti: Tinna Hrafnsdóttir leikstýrir og skrifar handrit sem byggt er á bók Auðar Jónsdóttur. Hlín Jóhannesdóttir hjá Ursus Parvus framleiðir. Saga vaknar upp minnislaus á spítala eftir alvarlegt flogakast, hún veit að hún á son og áttar sig á að hún er einstæð. Þar sem hún vinnur í að ná áttum og tökum á lífi sínu fara gamlar minningar sem hún bældi ómeðvitað niður sem barn að gera vart við sig og afhjúpa sárar staðreyndir um fortíð hennar og hana sjálfa. Frumsýning er boðuð 18. febrúar.

Harmur: Ásgeir Sigurðsson og Anton Karl Kristensen leikstýra, Ásgeir skrifar handrit. Ásgeir, Anton Karl, Halldór Ísak Ólafsson og Elvar Elvarsson framleiða, en myndin er alfarið fjármögnuð af þremur fyrstnefndu. Hinn 20 ára gamli Óliver býr með móður sinni og yngri bróður í niðurníddu hverfi í Reykjavík. Hann reynir að tengjast móður sinni nánari böndum en einn dag leiða gjörðir hennar til skelfilegra afleiðinga. Jónas Björn Guðmundsson, Ísgerður Elfa Gunnarsdóttir, Aldís Amah Hamilton, Mikael Emil Kaaber, Jóel Sæmundsson og Ahd Tamimi fara með helstu hlutverk. Frumsýning er boðuð 18. febrúar.

Allra síðasta veiðiferðin: Örn Marinó Arnarson og Þorkell Harðarson skrifa handrit og leikstýra. Þeir framleiða einnig fyrir Nýjar hendur. Þorsteinn Bachmann, Sigurður Sigurjónsson, Jóhann Sigurðarson, Hilmir Snær Guðnason, Þröstur Leó Gunnarsson, Halldór Gylfason, Gunnar Helgason, Halldóra Geirharðsdóttir, Ylfa Marín Haraldsdóttir og Edda Björg Eyjólfsdóttir fara með helstu hlutverk. Vinahópur fer í sinn árlega laxveiðitúr til að slaka á í sveitinni og hafa það gott. Nýliðarnir í hópnum reyna virkilega á þanþolið og túrinn fer hratt og örugglega í vaskinn út af nýjum og gömlum syndum. Frumsýning boðuð 11.mars.

Svar við bréfi Helgu: Ása Helga Hjörleifsdóttir leikstýrir eftir eigin handriti, Ottós Geirs Borg og Bergsveins Birgissonar en það er byggt á samnefndri skáldsögu þess síðastnefnda. Birgitta Björnsdóttir og Skúli Fr. Malmquist framleiða fyrir Zik Zak. Aldraður bóndi skrifar bréf til ástkonunnar sem honum bauðst að fylgja forðum tíð. Gerði hann rétt að taka skyldur sínar við sveit og eiginkonu fram yfir ástina, eða sveik hann þannig sitt eigið hjarta? Frumsýning er boðuð 1. apríl.

Berdreymi: Guðmundur Arnar Guðmundsson leikstýrir og skrifar handrit. Anton Máni Svansson framleiðir fyrir Join Motion Pictures en Jesper Morthorst og Lise Orheim Stender eru meðframleiðendur fyrir hönd Motor í Danmörku. Addi, unglingsstrákur í Reykjavík sem alinn er upp af móður með skyggnigáfu, tekur eineltisfórnarlamb undir sinn verndarvæng og inn í vinahóp slagsmálahunda. Þegar vandræði strákanna stigmagnast yfir í lífshættulega atburði fer Addi að upplifa eigin skynjanir. Mun hið nýfundna innsæi beina honum og vinahópnum á öruggari braut eða munu þeir ganga lengra inn í heim ofbeldis? Frumsýning er boðuð 22. apríl.

Abbababb!: Nanna Kristín Magnúsdóttir leikstýrir og skrifar handrit sem byggt er á samnefndu leikriti Dr. Gunna. Júlíus Kemp og Ingvar Þórðarson framleiða fyrir Kisa. Hinn kjarklitli Aron Neisti er í leynifélaginu Rauðu hauskúpunni ásamt vinum sínum Óla og Höllu. Hann neyðist til að taka á honum stóra sínum þegar hrekkjusvínin í hverfinu láta til skarar skríða. Frumsýning er boðuð 20. maí.

Sumarljós og svo kemur nóttin: Elfar Aðalsteins leikstýrir og skrifar handrit sem byggt er á samnefndri bók Jóns Kalmans Stefánssonar. Elfar framleiðir einnig fyrir Berserk Films en aðrir framleiðendur eru Lilja Snorradóttir, Heather Millard og Ólafur Darri Ólafsson. Sigurjón Sighvatsson og Snorri Þórisson eru yfirframleiðendur. Þorpið er stútfullt af skrítnum sögum og ef þú hlustar þá segjum við þér kannski nokkrar þeirra: af forstjóranum sem dreymir á latínu og fórnar glæstum frama fyrir stjörnuskoðun og gamlar bækur, af næstum gegnsæjum dreng sem tálgar og málar mófugla, af framhjáhaldi undir berum himni og stórum steini sem er mölvaður í duft. Frumsýning er boðuð 14. október.

Villibráð: Elsa María Jakobsdóttir leikstýrir og skrifar handrit ásamt Tyrfingi Tyrfingssyni. Þórir Snær Sigurjónsson, Arnar Benjamín Kristjánsson og Ragnheiður Erlingsdóttir framleiða fyrir Zik Zak. Meðframleiðandi er Sigurjón Sighvatsson. Gísli Örn Garðarsson, Hilmir Snær Guðnason, Þuríður Blær Jóhannsdóttir, Nína Dögg Pilippusdóttir, Aníta Briem, Björn Hlynur Haraldsson og Hilmar Guðjónsson fara með helstu hlutverk. Í matarboði í Vesturbænum ákveða sjö vinir að fara í stórhættulegan samkvæmisleik. Viðstaddir leggja símana á borðið og fallast á að öll símtöl og skilaboð sem berast verði deilt með samkomunni til að sanna að ekkert þeirra hafi nokkuð að fela. Frumsýning er óstaðfest.

Á ferð með mömmu: Hilmar Oddsson skrifar handrit og leikstýrir. Hlín Jóhannesdóttir framleiðir fyrir Ursus Parvus. Þröstur Leó Gunnarsson, Kristbjörg Kjeld, Tómas Lemarquis og Hera Hilmars fara með helstu hlutverk. Þegar móðir Jóns og hans mesti áhrifavaldur fellur frá verða alger umskipti í lífi hans. Með uppáklætt líkið í aftursætinu og hundinn Brésnef við hlið sér tekst hann á hendur ferð þvert yfir landið til að heiðra hennar síðustu ósk. En mamma hefur ekki sagt sitt síðasta. Frumsýning er óstaðfest.

Volaða land: Hlynur Pálmason leikstýrir og skrifar handrit. Anton Máni Svansson , Katrin Pors, Mikkel Jersin, Eva Jakobsen framleiða fyrir Join Motion Pictures og Snow Globe. Saga af metnaði, trú, fjölskyldu og hefnd undir lok 19. aldar. Danskur prestur ferðast til Íslands með það verkefni að reisa kirkju og ljósmynda fólkið í harðneskjulegri náttúrunni. Presturinn afvegaleiðist er áhugi hans eykst á ungri konu í þorpinu og hrindir það af stað villimannslegum deilum. Frumsýning er óstaðfest.

Þáttaraðirnar

Væntanlegar eru fimm nýjar þáttaraðir á árinu (sjö í fyrra). Ein þeirra verður sýnd á RÚV, þrjár í Sjónvarpi Símans og ein á Viaplay (dönsk/færeysk/íslensk samframleiðsla). Fjórar eru nýjar, ein snýr aftur.

Venjulegt fólk 4: Fannar Sveinsson leikstýrir. Handrit skrifa Halldór Halldórsson, Júlíanna Sara Gunnarsdóttir, Vala Kristín Eiríksdóttir og Fannar. Arnbjörg Hafliðadóttir, Hörður Rúnarsson, Andri Ómarsson, Baldvin Z, Andri Óttarsson, Júlíanna Sara og Vala Kristín framleiða fyrir Glassriver. Júlíanna Sara, Vala Kristín, Hilmar Guðjónsson og Arnmundur Ernst Bachman fara með helstu hlutverk. Fjórðu syrpu (sex þættir) er svo lýst: Bestu vinkonur á fertugsaldri uppgötva að þó draumar þeira hafi ræst og tilveran farið fram úr þeirra björtustu vonum gulltryggir það ekki hamingju. Þær leita aftur í hugarástand sokkabandsáranna þegar þær áttu ekkert nema drauma og framtíðin blasti við þeim full af fyrirheitum – en er það hægt? Sýningar hefjast 27. janúar í Sjónvarpi Símans.

Vala Þórsdóttir og Edda Björgvinsdóttir í Vitjunum.

VitjanirÁtta þátta sería þar sem segir af lækninum Kristínu sem ásamt dóttur sinni flytur til móður sinnar í lítið sjávarþorp í kjölfar skilnaðar. Þar þarf hún að horfast í augu við drauga fortíðar. Eva Sigurðardóttir leikstýrir. Kolbrún Anna Björnsdóttir og Vala Þórsdóttir skrifa handrit, en framleiðendur fyrir Glassriver eru Hörður Rúnarsson, Arnbjörg Hafliðadóttir og Andri Ómarsson. Askja Films er meðframleiðandi ásamt Lunanime BV á Niðurlöndum. Verkið verður sýnt á RÚV, sem leggur til fjármagn ásamt norrænu almannastöðvunum. Sýningar hefjast um páska.

Frá tökum á Trom í Færeyjum | Mynd: Finnur Justinussen.

Trom: Sex þátta sería sem gerist í Færeyjum og er byggð á glæpasögum Jógvan Isaksen. Kasper Barfoed og Davíd Óskar Ólafsson leikstýra. Tórfinnur Jákupsson skrifar handrit. Leifur B. Dagfinnsson og Jón Hammer framleiða fyrir Reinvent Studios og True North. Ulrich Thomsen fer með aðalhlutverk. Dýraverndunarsinninn Sonja finnst látin við fjöruborð þar sem hvalveiðar eru að hefjast, blaðamaðurinn Hannis Martinsson skekur einangrað samfélag Færeyja með rannsókn sinni á voflegu láti ungu konunnar. Sýningar hefjast á Viaplay síðar á árinu.

Margt býr í Tulipop: Sigvaldi J. Kárason leikstýrir þessari þáttaröð, Gunnar Helgason og  Davey Moore skrifa handrit. Framleiðandur eru Helga Árnadóttir og Guðný Guðjónsdóttir fyrir Tulipop Studios. Hin uppátækjasama Gló og heimakæri bróðir hennar Búi lenda í ævintýrum á eldfjallaeyjunni Tulipop, þar sem þau búa. Með í för er loðna skógarskrímslið Freddi, sem þekkir eyjuna eins og lófann á sér en er gjarn á að koma sér í vandræði. Skrautlegir íbúar eyjunnar þurfa að læra að umgangast Tulipop af virðingu, enda er náttúran síbreytileg og full af kyngimögnuðum kröftum. Með því að takast á við alls kyns uppákomur uppgjötva íbúarnir verðmæti vináttunnar og fjölbreytileikans. Þættirnir verða sýndir í Sjónvarpi Símans á fyrri hluta ársins. Síðar á árinu verða þeir sýndir á norrænu stöðvunum.

Brúðkaupið mitt: Kristófer Dignus leikstýrir þessari sex þátta röð, sem er óbeint framhald þáttaraðarinnar Jarðarförin mín. Handrit skrifar Hekla Elísabet Aðalsteinsdóttir. Framleiðendur eru Arnbjörg Hafliðadóttir, Hörður Rúnarsson, Andri Ómarsson, Baldvin Z. og Andri Óttarsson fyrir Glassriver. Þórhallur Sigurðsson (Laddi), Ragnheiður Steindórsdóttir, Ævar Þór Benediktsson, Birna Rún Eiríksdóttir, Harpa Anardóttir, Mario Glodek, Einar Gunn og Birta Hall fara með helstu hlutverk. Eldri maður sem hefur tekist að slá dauðanum á frest glímir við sálrænar afleiðingar erfiðra veikinda á meðan hann reynir að skipuleggja brúðkaup sitt og æskuástarinnar. Á sama tíma virðast ástarsambönd hans nánustu standa á brauðfótum. Þættirnir verða í Sjónvarpi Símans á árinu.

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR